Morgunblaðið - 12.12.2004, Page 28

Morgunblaðið - 12.12.2004, Page 28
28 SUNNUDAGUR 12. DESEMBER 2004 MORGUNBLAÐIÐ Staðarhaldarar á Laufási hafa ver- ið ófáir í gegnum tíðina og eru í bókinni m.a. raktir þeir staðar- haldarar sem vitað er um allt frá því á 14. öld. Kaflinn sem hér birt- ist segir frá einum þeirra, Birni Halldórssyni. Með Birni Halldórssyni (1823– 82) bætist valinkunnur kennimað- ur í hóp merkra Laufásklerka. Björn fæddist að Skarði í Dals- mynni 14. nóvember árið 1823. Foreldrar hans voru séra Halldór Björnsson, sem síðast var prestur og prófastur á Sauðanesi, og fyrri kona hans, Sigríður Vigfúsdóttir prests Björnssonar. Björn lærði undir skóla hjá séra Jóni Krist- jánssyni á Ystafelli en fór í Bessa- staðaskóla og lauk þaðan stúdents- prófi 1844. Hann var kennari og sýsluritari um skeið, en gekk í prestaskólann 1848 og lauk prófi þaðan 1850, sigldi til Kaupmanna- hafnar og dvaldist þar einn vetur. Gerðist síðan kennari og aðstoð- arprestur hjá Gunnari Gunnars- syni og fékk prestakallið eftir hans dag, 12. desember 1853, og hélt til æviloka, prófastur frá 1863. Séra Björn var gáfumaður mik- ill, skáld gott og orðlagður kenni- maður og kenndi skipstjórnar- fræði. Hann var atkvæðamikill í héraði og hvarvetna vinsæll og mikils metinn, en einnig búmaður góður, vefari og smiður. Hann var kjörinn fulltrúi Norður-Þingeyinga á Þjóðfundinn 1851 og talinn hafa verið aðalhvatamaður að endur- skoðun sálmabókarinnar 1886. Björn var skáld gott, og skal þess getið að í núverandi Sálmabók Þjóðkirkjunnar er 21 sálmur eftir hann, meðal annars hinn alkunni „Á hendur fel þú honum“. Árið 1852, 7. júlí, kvæntist Björn Sigríði Einarsdóttur bónda Jón- assonar. Sigríður fæddist 25. júlí 1819 og dó 19. mars 1889. Hún þótti mikil merkiskona. Þau Björn og Sigríður eignuðust fjögur börn, Vilhjálm, seinast stórbónda í Reykjavík, Svöfu sem dó 6 ára, Þórhall biskup og Laufeyju, sem dó 24 ára. Séra Björn andaðist í Laufási 19. desember 1882 tæp- lega sextugur að aldri. Timburkirkja reist Með komu séra Björns Hall- dórssonar í Laufás verður bylting í húsagerð þar. Hann tekur torf- kirkjuna niður árið 1865 og reisir í hennar stað glæsilega timbur- kirkju, sem enn stendur. Baðstof- una endurbyggir hann 1867 og framhúsin 1876 og gerir Laufás að burstabæ. Miðbæjarhúsin endur- bætir hann og stækkar sem og úti- hús flest. Bærinn eins og hann er nú og kirkjan eru verk Björns Halldórssonar og bera dugnaði hans, höfðingsbrag og smekkvísi fagurt vitni. Æðarvarpið sem séra Gunnar Gunnarsson hafði komið upp í öndverðu jók hann mjög. Þá raun varð séra Björn að þola undir lokin að lenda í málaferlum við ná- granna sinn, Einar Ásmundsson í Nesi, út af svokölluðum Neshólma, sem var frábær varphólmi. Stefnu til dóms lét Einar lesa yfir honum látnum, og mæltist þessi afbrigði- legi atburður almennt illa fyrir. Leikar fóru svo að Einar vann málið í héraði og var sá dómur staðfestur í Landsyfirrétti 18. jan- úar 1886. Heimildir um daglega iðju og bæjarbrag í Laufási fyrrum eru ekki fjölskrúðugar. Ein undan- tekning er þó á þessu. Til er lýsing á heimili þeirra hjóna Björns og Sigríðar eftir ónafnkenndan mann, sem kallar sig „gamlan Norðlend- ing“ og er birt í Óðni 1913. Þar sem hún gefur góða mynd af daglegu lífi í Laufási um miðja 19. öld og hefur þýðingu fyrir rann- sókn þessa þykir rétt að birta hana hér: „Þegar ég var tæpra 18 ára fór ég að Laufási til síra Björns Hall- dórssonar, sem þá var nýfarinn að búa þar. Fyrstu árin var ég smali. Fénaðarferðin var erfið, en samt gekk það þolanlega. Síðar varð ég vinnumaður. Þegar ég kom að Laufási var staðurinn gamaldags og hrörlegur, bæði bæjarhús og einnig öll úthýsi, og ævagömul torfkirkja var þar; en þó að þessu væri svona háttað var þarna svo undurfallegt að ég var hrifinn af, og vaktist þá upp fyrir mér vísa eftir gamlan prest sem var þar löngu áður. Hún er svona: Laufás minn er listabær, lukkumaður sá honum nær; manni allt á móti hlær, mest á vorin þegar grær. Þetta fannst mér þá sannkveðið, og mér finnst það enn. Ég hygg að það séu óvíða á landinu fallegri og skemmtilegri prestsetur en þar. Mikið uppbyggingarstarf Undir eins á fyrstu árum síra Björns byrjaði hann að byggja bæ- inn, og byggði hann allan, hvert einasta hús, og öll vönduð; einnig kom hann upp fallegri og vandaðri timburkirkju, og jafnhliða þessu byggði hann upp flest eða öll pen- ingshús: fjós, fjárhús og hlöður við, einnig á fyrstu árum beitarhús þar langt frá. Þar var gott beiti- land, en undir eins eftir daga síra Björns voru þau eyðilögð, af hverju sem það hefur stafað. Bæj- arhúsin voru mörg, og framhúsin ekki öll föst saman, heldur voru bil eða sund á milli þeirra. Úti og frammi á hlaðinu stóð skemma og grindahjallur hjá, hvorttveggja ræflar, og skemmdu mikið útsýni, en til þess að mega rífa þau burtu þurfti að fá leyfi stiftsyfirvaldanna, og var brosað að því. Þessi bygging öll var því fögur fyrirmynd, og svo var bú- skapurinn allur að sama skapi, og mesta reglusemi og þrifnaður bæði innanhúss sem utan, enda var frú Sigríður einhver sú merkasta bú- kona sem menn þekktu þá, og svo var hún brjóstgóð og hjálpandi bágstöddum að hún mun óefað hafa átt fáa sína líka, og á það máske enn þann dag í dag, enda var mörgum fátæklingnum hlýtt til hennar, bæði nær og fjær. Hjúum sínum var hún eins, besta húsmóðir á allan hátt; en betur kunni hún við að sjá mikið og vel unnið verk eftir hjúin sín en lítið og illa gert, og stutt hefði þeim báðum þá þótt tíu tíma vinna á dag, enda var þá ekki daglauna- eða tímavinna komin á. En þó þetta væri svona, þá voru þau hjúasæl. Ég heyrði einu sinni síra Björn segja að það væri undir- staða búskaparins að láta hjúin eiga gott, og fara vel með allar skepnur, enda völdust þangað bestu hjú, að minnsta kosti í seinni tíð. Þau fengu gott kaup, sem þá var talið, og allt borgað út á sum- ardaginn fyrsta, og reikningur lagður með yfir það sem búið var að taka, sem oftast var eitthvað af fötum. Þessi dagur var sem hátíð- isdagur, allir fengu að eiga frítt, en þeir sem við skepnuhirðing voru gátu þó ekki sætt þessu en fengu það þá ævinlega endurgoldið á einhvern hátt. Þá var mikið farið með sumargjafir, en minna með jólagjafir; samt voru jólin haldin ekki síður hátíðleg en nú gerist. Eftir er að minnast á ýmislegt utan bæjar. Túnið var harðlent og illt að ná vatni á það, en áburð vantaði ekki eða góða hirðingu svo það var ætíð í bestu rækt og gaf af sér að jafnaði mikla töðu; var girt fyrir það að mestu þar sem ágang- ur var af skepnum. Engi var bætt og aukið mikið, en með miklum kostnaði. Æðarvarpið var stundað með mestu umhyggju og fyrirhöfn, enda varð það fljótt í miklum blóma, nema þegar mestu ísár voru, en þau voru fá sem gerðu því stóran hnekki. Það var í miklum blóma flest árin og óx mikið sein- ustu ár síra Björns. En seinasta ár hans var höfðað landaþrætumál af Einari Ásmundssyni í Nesi, og fór það svo að nálægt ¼ af varpinu gekk undir Nes eftir að síra Björn var dáinn, og var það sá partur sem einna mest hafði farið fram í hans tíð. Til heimilisstarfa gekk síra Björn lítið annað en til að stunda varpið, og vefa á vetrum handa heimilinu. Oft var hann í smiðju, því hann var hagur, en einkum á járn. Með bestu prestum Með bestu prestum þótti síra Björn vera norðanlands, bæði góð- ur ræðumaður og besti söngmað- ur, og svo tónaði hann vel að unun var að heyra; hann byrjaði ekki hátt fyrir altari fyrir prédikun því hann var veill fyrir brjósti. En þegar hann fór ofan úr stólnum, þá urðu ekki sætin auð, eins og sum- staðar á sér stað; enginn maður fór úr kirkju fyrr en úti var, eng- inn vildi missa af því að heyra til hans fyrir altarinu, bæði tóna og syngja. Á fyrri árum hans í Lauf- ási var hann heldur hneigður fyrir vín; þó bragðaði hann það aldrei á helgum dögum áður en hann fór í kirkju, og ekki fyrr en úti var messa, en þá voru líka oft gestir hjá honum. Oft var hann að skemmta vinnufólkinu með ýmsum fróðleik, og oft kom gamans- og spaug-vísa í gang, því honum var létt um það, en misjafnlega þoldu sumir það; þó var það ævinlega græskulaust. Einn vetur var þar stúlka að læra að sauma, sem hét Ásta Þóra; hún átti heima úti í Fjörðum, nálægt Þönglabakka; hún saumaði handa sér rúðóttan kjól; þegar hann var búinn kom dálítið gamankvæði í gang, alveg græskulaust en þó svo úr garði gert að sumum sárnaði í bili. Kvæðið er svona: Þegar hún Ásta Þóra situr í Þönglabakka kór á bekk og gamli síra Finnur flytur fagra ræðu með góðum smekk, nærstaddur vildi’ ég vera þá, og vita hvernig mér litist á. Það verður naumast ljótt að líta litinn á Ástu daginn þann, að sjá hana rauða, svarta’ og hvíta, silkimjúka við brúðgumann, og andlit prestsins einkar frítt, ef honum bara væri snýtt. Að vísu mætti meðhjálpara svo meir en setja út til þess, um leið og hann þarf ljósin skara, að laumast upp í nasir prests. Ekki lifandi ögn á því ber, ef hann er snar og flýtir sér. Þessi síra Finnur hafði farið gamall í skóla og var nefndur þar „gamli Finnur“. Oft kom hann í Laufás eftir þetta, og söng latínu og fleira með síra Birni, því hann var besti söngmaður. Það var vel- vild á milli þeirra, en enginn kali. Það var segin saga að ef eitt- hvert skop- eða kerskniskvæði kom á gang, þá var síra Birni eignað það þó hann ætti ekkert í því. Þannig var því varið með kvæðið „Gilliniklenódíið“ og „Kon- ungskjörnu manna vísurnar“; hann átti ekkert í þeim þó honum væru þær eignaðar; það var maður þar nálægt sem átti þær, mikill gáfu- maður og sérlega vel hagorður, en fór afar dult með það, svo að það vissu ekki nema einstöku menn; ég veit með vissu að þessi maður var höfundur að kvæðinu, en ekki síra Björn sál. Halldórsson. Síra Björn og frú Sigríður eign- uðust 4 börn. Það elsta var Vil- hjálmur sál., sem bjó seinast á Rauðará; þar næst var stúlka sem Svafa hét, hún dó 6 ára. Það þriðja er Þórhallur biskup, og það fjórða var stúlka sem Laufey hét, hún dó rúmt tvítug. Kvæði um andlát Svöfu orti faðir hennar, en eftir Laufeyju síra Matthías Jochums- son. Það fyrra er óprentað. Það má kallast merkilegt við fæðingardaga bræðranna, að Vil- hjálmur sál. var fæddur á föstu- daginn fyrstan í þorra, „bóndadag- inn“, og varð merkisbóndi. En Þórhallur er fæddur á sunnudag- inn fyrstan í jólaföstu, fyrsta sunnudag í kirkjuárinu, og varð biskup.“ Bókarkafli | Kirkjustaðurinn í Laufási við Eyjafjörð hefur tekið margvíslegum breytingum í gegnum aldirnar. Í bókinni Laufás við Eyjafjörð, sem byggist á áratuga rannsóknarvinnu, lýsir Hörður Ágústsson ábúendum í gegnum aldirnar, torfbænum sem enn stendur og þeim breytingum sem einstaka bæj- arhús hafa tekið frá miðri 16. öld. Hagur prestur með bú í blóma Frambærinn og kirkjan í Laufási við Eyjafjörð árið 1935. Stórastofa í Laufási 1738—1755, timburgrind og innrétting. Í fjósinu á Laufási. Björn og Sigríður kona hans. Laufás við Eyjafjörð – Staðurinn eftir Hörð Ágústsson kemur út hjá Hinu ís- lenska bókmenntafélagi. Bókin er prýdd fjölda mynda og er 322 bls. Ljósmynd/Bruno Schweizer

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.