Morgunblaðið - 12.12.2004, Side 35
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 12. DESEMBER 2004 35
miðum fyrir neðan alþjóðleg miðgildi í hæð og
þyngd. Barn skortir vatn þegar það hefur að-
eins aðgang að yfirborðsvatni eða meira en 15
mínútna gangur er að næsta vatnsbóli. Skortur
er á hreinlæti þegar barn hefur engan aðgang
að salerni af neinu tagi í grennd við híbýli sín.
Skortur í heilbrigðismálum verður þegar börn
hafa ekki verið bólusett við neinum sjúkdómum,
hafa nýlega fengið niðurgang án þess að fá
læknisráð eða -hjálp. Börn í híbýlum þar sem
búa fleiri en fimm í herbergi eða ekkert efni er
á gólfi líða skort í húsnæðismálum. Börn á aldr-
inum sjö til 18 ára, sem aldrei hafa farið í skóla,
skortir menntun. Börn á aldrinum þriggja til 18
ára, sem engan aðgang hafa að útvarpi, sjón-
varpi, síma eða dagblöðum heima við skortir að-
gang að upplýsingum. Samkvæmt niðurstöðum
skýrslunnar líður einn milljarður barna skort af
einhverju tagi. Eins og komið hefur fram er það
tæpur helmingur barna í heiminum. Misjafnt er
eftir heimshlutum hvaða þættir vega þyngst.
Þannig er húsaskjóli helst ábótavant í Afríku,
Mið-Austurlöndum, Mið- og Vestur-Asíu, róm-
önsku Ameríku og Karíbahafi. Hreinlætismál
eru helsti vandinn í Suður-Asíu og vatn í Aust-
ur-Asíu og Kyrrahafi.
Áhrif stríðs
á börn
Ekkert hefur jafn af-
gerandi áhrif á líf jafn
margra barna og
stríð. Í skýrslunni
kemur fram að á þeim 14 árum, sem liðin eru
frá lokum kalda stríðsins, frá 1990 til 2003, hafa
brotist út 59 meiriháttar átök á 48 stöðum. Að-
eins í fjórum tilvikum var um að ræða stríð milli
ríkja. Óbreyttir borgarar eru í mun meiri hættu
í stríði en áður. Talið er að 90% þeirra, sem fall-
ið hafa í átökum eða vegna þeirra frá árinu 1990
hafi verið óbreyttir borgarar og 80% þeirra hafi
verið konur og börn. Í sumum tilfellum er of-
beldinu sérstaklega beint gegn óbreyttum borg-
urum. Í öðrum eru þau óbein fórnarlömb, sem
verða fyrir skoti eða sprengingu. Þegar rætur
átakanna liggja í hatri milli þjóðarbrota eða
ættbálka beinist ofbeldið gegn öllum meðlimum
þeirra, ekki aðeins þeim, sem eru undir vopn-
um. „Börn eru alltaf meðal þeirra fyrstu, sem
finna fyrir afleiðingum átaka, hvort sem það er
beint eða óbeint,“ segir í skýrslunni. „Vopnuð
átök breyta lífi þeirra á margan hátt og jafnvel
þegar þau eru ekki drepin eða særð geta þau
misst foreldra sína, verið rænt, nauðgað eða
orðið fyrir djúpu tilfinningalegu eða sálrænu
áfalli við það að vera útsett fyrir ofbeldi, nauð-
ungarflutningum, fátækt eða missi ástvina.“
Ekki er vitað hve mikið er um það að börn
séu notuð í hernaði, en í skýrslunni er leitt get-
um að því að þau séu örlög mörg hundruð þús-
und barna: „Börn eru skráð í heri, þeim er rænt
eða þau þvinguð til að ganga í vopnaðar sveitir.
Þau taka ekki öll þátt í bardögum, en útbreiðsla
léttra vopna hefur gert það að verkum að hægt
er að gera börn undir tíu ára aldri að drápurum.
Börn eru einnig þvinguð í kynlífsþrælkun og
látin vinna, elda og þjóna eða gerð að sendiboð-
um og njósnurum. Sérstaklega eiga stúlkur á
hættu að vera misnotaðar kynferðislega, hvort
sem það er af einum yfirmanni eða heilu sveit-
unum. Margar þeirra eru einnig sendar í
fremstu víglínu með drengjunum.“
Stúlkur í stríði
Stúlkur í stríði eru
sérstakt vandamál
vegna þess að þáttur
þeirra hefur verið gróflega vanmetinn eins og
kemur fram í skýrslu UNICEF. Fyrir vikið er
ekki gripið til viðeigandi ráðstafana fyrir þær
þegar átökum lýkur. Þær njóta ekki aðstoðar og
oft er þeim hafnað af fjölskyldum sínum og
samfélagi vegna skammarinnar, sem fylgir því
að hafa verið nauðgað eða átt börn með kvöl-
urum sínum. Fyrr í þessari viku kom út skýrsla
mannréttindasamtakanna Amnesty Internation-
al um stöðu kvenna í stríði þar sem fjallað er
um ofbeldi gegn konum og undirstrikar hún
nauðsyn þess að grípa til aðgerða.
Ein átakanlegasta lýsingin í skýrslunni á ör-
lögum barna í átökum er frá Úganda. Fyrr á
þessu ári skrifaði Carol Bellamy, framkvæmda-
stjóri UNICEF, sláandi grein um ástandið í
Úganda, sem birtist meðal annars í Morgun-
blaðinu:
„Ég hef orðið vitni að mörgum skelfilegum
hlutum í starfi mínu fyrir UNICEF, Barnahjálp
Sameinuðu þjóðanna. Ekkert er þó eins átak-
anlegt og það að sjá „næturferðalangana“ í
norðurhluta Úganda. Þessir ferðalangar eru
44.000 börn sem fara frá þorpum sínum á
hverjum degi til að leita athvarfs í nálægum
bæjum fyrir dagsetur af ótta við að liðsmenn
Andspyrnuhers Drottins (LRA) ræni þeim.
Heimsbyggðin kann að hafa gert sér grein
fyrir neyðinni í Súdan en hefur nánast gleymt
hryllingnum í grannríkinu Úganda þar sem
LRA hefur rænt um 12.000 piltum og stúlkum á
síðustu tveimur árum. Ólíkt öllum öðrum stríð-
um er þetta stríð á hendur börnum.
Hermenn LRA, sem eru flestir börn sjálfir,
leggja til atlögu í rökkrinu. Þeir umkringja litlu
byggðirnar, ráðast inn í þær til að ræna mat og
nema á brott börn til að neyða þau í herinn.
Árásirnar eru undantekningarlaust blóðugar.
Börn eru oft neydd til að drepa foreldra sína og
önnur börn. Þau sem eru numin á brott, sum
þeirra aðeins sex ára, eru hneppt í kynlífsánauð
í uppreisnarhernum, neydd til að vinna sem
þrælar eða til að gerast hermenn. Í uppreisn-
arhernum eru börn talin geta byrjað að berjast
sjö ára.
Erfitt var að útskýra fyrir piltunum og stúlk-
unum hvers vegna heimsbyggðin er svo af-
skiptalaus um hryllinginn í Úganda þegar ég
hitti þau í síðasta mánuði í móttökumiðstöð í
Gulu fyrir börn sem hafa sloppið undan LRA.
Ég ræddi við ungar konur sem höfðu fætt börn
sem getin voru þegar þær voru neyddar til að
eiga mök við yfirmenn LRA. Ég talaði við pilta
sem voru neyddir til að fremja óumræðileg of-
beldisverk þegar þeir hefðu átt að vera að læra
að lesa fyrstu orðin.
Átökin í norðurhluta Úganda hafa staðið í
átján ár og gert að engu hugmyndina um að
barnæskan eigi að vera verndaður tími heil-
brigðs uppvaxtar. Foreldrarnir eru orðnir svo
örvæntingarfullir vegna óttans við að börn
þeirra verði numin á brott eða myrt að þeir hafa
þurft að láta börn sín ganga langa leið ein síns
liðs á næturnar, því að það er eina von þeirra.
Síðdegis á hverjum degi, þegar sólin tekur að
setjast, koma börnin af ökrunum og safnast
saman á rykugum vegunum. Eldri börnin halda
á þeim minnstu eða láta þau sitja á stöngum
reiðhjólanna. Mæður halda á ungbörnunum sín-
um, en flestir næturferðalangarnir eru börn
sem eru ein síns liðs.
Þau sem eru heppin fá athvarf í nokkrum
bráðabirgðaskýlum, sem reist hafa verið til að
hjálpa börnunum, og þar geta þau fengið vatn
og teppi og notað kamra. Önnur sofa í kirkjum,
rútubiðskýlum eða rykugum inngöngum húsa.
Á morgnana fara börnin aftur heim til sín eða í
skóla.
Úganda er réttilega álitið fyrirmyndarland í
þróunarmálum í Afríku. Stjórn Yoweris Musev-
enis forseta hefur komið á friði í mestum hluta
landsins, breitt út barnaskólamenntun og tekist
á við alnæmisfaraldurinn af hugrekki og hug-
kvæmni. Norðanvert landið er hins vegar í
hróplegu ósamræmi við þennan árangur – og
stefnir honum í hættu.
Eitt af meginhlutverkum ríkisstjórna er að
tryggja borgurunum vernd. Stjórn Úganda hef-
ur brugðist fólkinu í þessum efnum og heims-
byggðin hefur nánast ekkert gert til hjálpar.
Ríkisstjórnir heimsins hafa aðeins lofað um 20%
af þeirri 127 milljóna dollara aðstoð (níu millj-
arðar kr.) sem Sameinuðu þjóðirnar hafa óskað
eftir. Næturferðalangarnir eru óhugnanlegt
dæmi um það sem getur gerst þegar hluti þjóð-
félagsins nýtur engrar verndar.
UNICEF hefur einsett sér að lina þjáningar
barnanna í norðurhluta Úganda með aukafjár-
framlögum og aukinni hjálparstarfsemi í miðju
átakasvæðisins. Ljóst er þó að miklu meira þarf
að gera til að stöðva þetta stríð á hendur börn-
um. Við skorum á stjórn Úganda og þjóðir
heims að beita þeim pólitíska vilja sem þarf til
að leysa þetta vandamál með sama hætti og
gert hefur verið á öðrum svæðum.
Hræðslan við myrkrið er hvarvetna hluti af
uppvextinum. En fyrir piltana og stúlkurnar í
norðurhluta Úganda er svo sannarlega ástæða
til að óttast næturmyrkrið. Þeir sem hafa bol-
magn og vald til að stöðva þessa martröð mega
ekki láta hana viðgangast lengur.“
Það er erfitt að ímynda sér mitt í allri hinni
vestrænu velmegun að þessi martröð skuli vera
veruleiki. Einstaklingurinn hefur þó ýmsa
möguleika til að láta að sér kveða, meðal annars
með því að styrkja ýmis þau samtök og stofn-
anir, sem nefndar eru í grein Skapta Hallgríms-
sonar í sunnudagsblaði Morgunblaðsins um
hjálparstarf og milliliði. Stjórnvöld geta einnig
lagt sitt af mörkum, bæði með því að auka fram-
lög til þróunaraðstoðar og nota hvert tækifæri
til að þrýsta á um aðgerðir. Í raun er óskilj-
anlegt að ekki skuli vera meira gert til þess að
létta á þeirri sáru neyð, sem ríkir víða í heim-
inum, af einföldum mannúðarástæðum, en þeim,
sem ekki duga slík rök, má einnig benda á eig-
inhagsmuni. Spyrja má hvað framtíðin ber í
skauti sér í heimi þar sem helmingur barna líð-
ur skort. Misskipting auðs og gæða – bilið milli
vellystinga og örbirgðar – í heiminum kyndir
undir óstöðugleika og ofbeldi, ógnum og hryðju-
verkum. Fátækt og skortur er vandi allrar
heimsbyggðarinnar og að búa börnum heimsins
örugga framtíð er á ábyrgð okkar allra.
Reuters
Í Búrúndí er nú að hefjast verkefni, sem Sameinuðu þjóðirnar og Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna kosta, til að hjálpa um 2.000 börnum, sem
gerð voru að hermönnum, að laga sig að samfélaginu. Í Gitega bíða bardagabörn, sem hafa verið afvopnuð, bak við gaddavír. Aðlögun
þeirra mun taka nokkra mánuði, en spyrja má hvort þau munu nokkurn tímann bíða þess bætur að hafa verið gerð að vígamönnum.
Misskipting auðs og
gæða – bilið milli
vellystinga og ör-
birgðar – í heim-
inum kyndir undir
óstöðugleika og of-
beldi, ógnum og
hryðjuverkum. Fá-
tækt og skortur er
vandi allrar heims-
byggðarinnar og að
búa börnum heims-
ins örugga framtíð
er á ábyrgð okkar
allra.
Laugardagur 11. desember