Morgunblaðið - 04.01.2005, Blaðsíða 31

Morgunblaðið - 04.01.2005, Blaðsíða 31
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 4. JANÚAR 2005 31 MINNINGAR sjónarmiðum. Þó er fyrirtækið vel rekið, af fyrirhyggju, samviskusemi, góðmennsku og snyrtimennsku. Við sem þetta ritum teljum þessi gildi hafa verið þeim félögum til heilla, enda hefur útgerðin þeirra ávallt verið farsæl. Jón Pálsson sat aldrei auðum höndum og margt í hans nánasta umhverfi ber þess vitni. Hann var smiður góður og smíðaði marga góða hluti bæði fyrir skipin sín og heimilið og þau Helga önnuðust garðinn sinn af mikilli natni. Jón var alla jafna frekar hæglátur maður, en þó hvorki skoðanalaus né skaplaus. Hann hafði þannig fas að allir báru virðingu fyr- ir honum og hann hafði gaman af að skemmta sér, grínast og hlæja þó hann tæki hlutina alvarlega og aldrei af kæruleysi. Alltaf var veitt af rausn þegar þau hjón voru sótt heim og ávallt glatt á hjalla enda hafði Jón kímnigáfu sem afkomendur hans ýmsir hafa erft. Þau voru glæsileg saman á dansgólfinu hann og Helga og ógleymanlegur er ljóminn í aug- unum á Jóni þegar hann horfði ást- fanginn á Helgu sína eftir 50 ára hjónaband. Þegar Jón hreifst af ein- hverju lét hann hrifningu sína óspart í ljós, til dæmis með því að standa fyrstur upp og klappa á góðum tón- leikum eða með því að segja sam- ferðafólki hrifinn og glaður frá ein- hverju ánægjulegu sem hann hafði upplifað. Jón var barngóður og sá ekki sól- ina fyrir barnabörnum sínum og barnabarnabörnum, sem nú eiga minninguna um afann góða og lýsa upp tilveruna fyrir Helgu ömmu. Gott er til þess að vita að hann eyddi síðasta kvöldinu sínu, aðfangadags- kvöldi, umvafinn börnum, barna- börnum og einu kornungu barna- barnabarni. Vinir barna og barnabarna hafa ekki farið varhluta af gæðum þeirra Jóns og Helgu og eiga þeim margt að þakka, virða þau og dá. Þó undanfarin ár, og einkum síð- ustu mánuðir, hafi verið erfið, hefur parið glæsilega farið í sínar göngu- ferðir eins lengi og mögulegt hefur verið. Ekki eru margar vikur síðan þau voru saman glæsileg og prúðbú- in, eins og jafnan á sunnudegi, á göngu um bæinn. Nokkru síðar voru þau aftur komin á göngu, Jón heldur hægari en fyrr og Helga beið átekta meðan hann gekk upp brekkurnar, en ekki var undan látið fyrr en í fulla hnefana. Helga hefur verið manni sínum hvatning og stuðningur í erf- iðum veikindum. Hún hefur sýnt fá- dæma styrk sem án efa mun duga henni áfram á lífsins göngu, til góðs fyrir bæði hana og fölskylduna, hér eftir sem hingað til. Genginn er mikill mannkostamað- ur. Tilvera hans mun lengi setja gæðamark sitt á ástvini, samstarfs- fólk og annað samferðafólk sem þekkti líf hans og störf. Við vottum okkar kæru Helgu og öðrum ástvin- um okkar dýpstu samúð um leið og við vottum minningu Jóns Kristins Pálssonar einlæga virðingu. Fjölskyldan Botnahlíð 8. Látinn er á Seyðisfirði Jón Krist- inn Pálsson skipstjóri. Jón var farsæll skipstjóri sem átti traust og virðingu áhafnar sinar. Hann var góður maður og vinur vina sinna og reyndist þeim vel þegar á þurfti að halda, það hafa margir okk- ar fengið að reyna. Um sjómennsku Jóns er margt hægt að segja og flest gott. Hann var bæði vélstjóri og skipstjóri og gekk ungur í félag með Ólafi M. Ólafssyni um kaup á tré- bátnum Gullveri NS 12. Þetta sam- starf vatt upp á sig, skipin urðu fleiri og er aflinn orðinn mikill sem skip þeirra hafa borið að landi og afla- verðmætið gríðarlegt. Jón var óendanlega vandvirkur og þolinmóður við allt sem hann gerði. Minnisstætt er til dæmis þegar hann tók teikningu af skipinu sem hékk um borð og var orðin upplituð, fór með hana heim, teiknaði allar breyt- ingar sem búið var að gera á skipinu inn á myndina auk þess að hressa upp á hana að öðru leyti og varð hún sem ný. Þetta er dæmi um iðjusemi og snyrtimennsku Jóns, aldrei mátti neitt drabbast. Hann vakti yfir skip- inu og áhöfninni meðan hann var til sjós og löngu eftir að hann fór í land og átti ófá handtökin um borð allt fram undir hið síðasta. Sjókortin í skipum Jóns bera handbragði hans fagurt vitni en hann teiknaði af natni inn dýpislínur, festur og allt sem að gagni gat komið við veiðarnar. Þannig var sjávar- botninn með hólum og hæðum, hol- um og sprungum teiknaður inn á kortin hans Jóns og auðveldaði þannig starfið fyrir hann, samstarfs- mennina og þá sem á eftir komu. Samstarfsmenn Jóns lærðu vand- virknisleg vinnubrögðin af honum og héldu áfram að vinna kortin í hans anda eftir að hann var farinn í land. Enda höfðu önnur skip verið með „plotter“ um árabil þegar áhöfnin á Gullver taldi þörf á að fjárfesta í slíku tæki, svo vel bjó hún að kort- unum frá Jóni og félögum. Fyrst þegar farið var að vinna gagnagrunn fyrir tölvu plottera var leitað til áhafnarinnar á Gullver sem átti þennan fjársjóð sem Jón lagði grunninn að. Þannig hafa verk Jóns varðveist og nýtast nú að einhverju leyti íslenskum sjómönnum við veið- arnar. Kona Jóns, Helga Þorgeirsdóttir, var mikill félagi hans og var hann farsæll í einkalífi sem í starfi. Þó bar stóran skugga á fyrir rúmur tveimur árum þegar elsti sonur þeirra, Þor- geir, lést úr veikindum. Þau Helga áttu mörg sameiginleg áhugamál s.s. garðinn, gönguferð- irnar, ferðalög og ekki síst barna- börnin. Þeir okkar sem hafa verið í áhöfn Gullvers undanfarinn áratug eiga margar góðar minningar úr ferðalögum okkar vítt og breitt um heiminn þar sem þau hjón voru oft hrókar alls fagnaðar. Við vottum Helgu og börnunum og öðrum ættingjum samúð okkar. Að leiðarlokum þökkum við Jóni ómet- anlegt samstarf, samveru og leið- sögn í gegn um árin. Hans verður lengi minnst. Fyrrverandi skipsfélagar. Ég vil með nokkrum orðum minn- ast vinar míns Jóns Pálssonar sem ég kynntist gegnum svilkonu mína Maggý dóttur hans. Jón var þá hætt- ur til sjós, hafði lokið farsælum skip- stjóraferli á skipum sem borið höfðu nafnið Gullver. Eftir að hann hætti til sjós hafði hann umsjón með skip- inu í landi, passaði upp á að allt væri í góðu lagi og ekkert vantaði þegar skipið lét úr höfn til veiða. Jón þekkti skipið vel og hafði þekkingu á öllum búnaði þess. Það var gaman að skoða skipið með honum, allt var í röð og reglu, nýmálað og hreint, þannig vildi hann hafa það. Ég gleymi ekki kortum af veiðislóðum á Austfjarða- miðum sem hann hafði búið til, sann- kölluð listaverk. Saga Jóns í atvinnulífi Seyðis- fjarðar er merk, fyrirtæki hans og Óla Óla, Gullberg hf. hefur um árabil verið einn af burðarásum í atvinnulífi bæjarins, stuðlað að stöðugri at- vinnu. Jóni var umhugað um fólkið í bænum, sjálfur var hann nægjusam- ur og barst ekki á. Eitt áhugamál Jóns var garð- yrkja, þar sem áður var örfoka melur ofan við hús þeirra Helgu er nú fal- legur trjágarður langt upp í fjall, sem ber vinnu þeirra hjóna merki. Trén í garðinum munu halda áfram að vaxa og vonandi sá sér áfram um hlíðina og verða með tíð og tíma skógur. Aðdáunarverðir eru menn eins og Jón sem skila landinu klæddu trjám okkur hinum og kom- andi kynslóðum til ánægju. Hann var Seyðfirðingur svo mikill að hann undi sjaldan lengi að heiman án þess að heimþrá sækti að. Það var nóg að gera heima, mála skipið, dytta að húsinu sínu, garðurinn, hann var þeirrar náttúru að vilja hafa eitthvað fyrir stafni. Jón hafði góða nærveru, var hógvær, kurteis, snyrtimenni, reglusamur og heiðar- legur, ég leit upp til hans og tók hann mér til fyrirmyndar. Elsku Helga og aðrir aðstandend- ur. Innilegar samúðarkveðjur, Árni Sverrisson. Þegar minnast á Jóns Pálssonar, skipstjóra og útgerðarmanns á Seyðisfirði, kemur fyrst upp í hug- ann mikill missir fjölskyldunnar ásamt því skarði sem hann skilur eft- ir sig í litla kaupstaðnum sem átt hefur undir högg að sækja undanfar- in ár og jafnvel áratugi. Ef staldrað er við ævistarf Jóns þá er hann verðugur fulltrúi þeirrar kynslóðar sem markaði spor í ís- lensku atvinnulífi um og eftir miðja síðustu öld. Þessi kynslóð er undir- staðan undir því þjóðfélagi sem við þekkjum í dag. Sjórinn varð starfs- vettvangur Jóns eins og svo margra af hans kynslóð sem ólust upp við sjávarsíðuna. Hann var réttur mað- ur á réttum stað þegar hann fór í út- gerð með Ólafi Ólafssyni og þeir kaupa sinni fyrsta bát, Gullver NS 12. Bátarnir áttu eftir að verða fleiri og stærri og enn er til skip með þessu nafni í eigu fjölskyldnanna. Alla tíð hefur þetta framtak þeirra verið bakfiskurinn í atvinnulífi á Seyðisfirði og erfitt er að gera sér grein fyrir hvað staðurinn væri án þeirra. Frá upphafi hafa Jón og Ólaf- ur gert sér grein fyrir þeirri ábyrgð að bera uppi atvinnulíf í litlu plássi og þeir höfðu metnað til að gera það af myndarskap. Það er því ljóst að það er skarð fyrir skildi nú þegar Jón er fallinn frá. Þegar maður á unga aldri kynnist fólki er ekki hugsað út í það hvort og hvaða áhrif það á eftir að hafa á mann í framtíðinni. Framan af bjuggum við á sömu torfunni á Seyð- isfirði þar sem Helga stjórnaði krakkaskaranum af skörungsskap. Síðar átti ég þess kost að kynnast Jóni nánar þegar ég steig mín fyrstu skref á sjónum. Þar myndaðist vin- skapur við Jón og fjölskylduna sem var eðlilegt framhald af fyrri kynn- um og ekki spillti það svo fyrir þegar Þorsteina frænka hans varð á vegi undirritaðs. Það er því ýmislegt sem kemur fram í hugann þegar litið er til baka og margt hægt að segja. Efst stend- ur minning um mjög mætan mann sem skapað hefur sé orðstír sem seint mun gleymast. Það er lán að hafa átt þess kost að kynnast slíkum manni. Missir okkar er mikill, mestur er hann hjá fjölskyldu Jóns en minn- ingin lifir. Helga og krakkarnir, hugurinn er hjá ykkur. Ómar og Þorsteina. Elsku afi, ég vildi að þú værir hérna hjá mér. Ég vildi að þú héldir í hendina á mér. Þórir. HINSTA KVEÐJA Ástkær eiginmaður minn, faðir, tengdafaðir, afi og bróðir, JÚLÍUS GRÉTAR ARNÓRSSON tæknifræðingur, Ásgarði 38, Reykjavík, lést aðfaranótt jóladags. Jarðarförin hefur farið fram í kyrrþey að hans ósk. Æsgerður Elísabet Garðarsdóttir, Sigríður Árný Júlíusdóttir, Jón Bergur Hilmisson, Æsgerður Elín Jónsdóttir, systkini og aðrir aðstandendur. Ástkær eiginkona mín, móðir, tengdamóðir og amma, SVAVA VIGFÚSDÓTTIR, lést á hjúkrunarheimilinu Eir föstudaginn 31. desember. Jarðarförin auglýst síðar. Helgi Hallgrímsson, Rut Helgadóttir, Bragi Jónsson, börn og barnabörn. Elskulegur eiginmaður minn, faðir okkar, tengdafaðir, afi og langafi, DAVÍÐ KR. JENSSON byggingameistari, Langagerði 60, andaðist á heimili sínu að morgni nýársdags. Útförin fer fram frá Bústaðakirkju föstudaginn 6. janúar kl. 13.00. Blóm og kransar vinsamlegast afþakkaðir, en þeim, sem vilja minnast hans, er vinsamlegast bent á Styrktarfélag vangefinna. Jenný Haraldsdóttir, Valborg Davíðsdóttir, Ragnar B. Ragnarsson, Kristrún Davíðsdóttir, Ásgeir Eiríksson, Inga Davíðsdóttir, Jóhann Bjarnason, Jenný Davíðsdóttir, Ólafur Einarsson, Hildur Davíðsdóttir, Hreinn Hafliðason, Elsa María Davíðsdóttir, Þórhallur Matthíasson, barnabörn og barnabarnabörn. Faðir okkar, tengdafaðir, afi og langafi, ÁSGEIR ÞÓRARINSSON, Njálsgötu 100, Reykjavík, lést þriðjudaginn 28. desember. Útför hans fer fram frá Digraneskirkju föstu- daginn 7. janúar kl. 15.00. Guðmundur Ásgeirsson, Guðrún Kristjánsdóttir, Esther Ásgeirsdóttir, Jóhann Einarsson, Bragi Ásgeirsson, Hjördís Jóhannsdóttir, barnabörn og barnabarnabörn. Okkar ástkæri frændi, ÞÓRÐUR ELÍASSON frá Saurbæ, fyrrv. leigubílstjóri, áður til heimilis í Hraunbæ 103, verður jarðsunginn frá Árbæjarkirkju föstu- daginn 7. janúar kl. 13.00 Fyrir hönd aðstandenda, systkinabörn hins látna. Elskulegur eiginmaður minn, stjúpfaðir og bróðir, JÓHANN ÁSMUNDSSON safnstjóri Minjasafns Egils Ólafssonar, Hnjóti, Örlygshöfn, lést á líknardeild LSH Kópavogi föstudaginn 31. desember. Magnea Einarsdóttir, Árni Klemensson, Einar Dagfinnur Klemensson, Hildur Sonja Guðmundsdóttir, Jenný Ásmundsdóttir, Guðmundur Benediktsson, Hildur Hanna Ásmundsdóttir, Gylfi Jónsson, Benedikt Grétar Ásmundsson, Kristín Jóhannesdóttir. Ástkær eiginmaður minn og faðir okkar, MAGNÚS BLÖNDAL JÓHANNSSON, verður jarðsunginn frá Dómkirkjunni fimmtudaginn 6. janúar kl. 11.00. Fyrir hönd ástvina, Hulda Björnsdóttir Sassoon, Jóhann Magnús Magnússon, Kristján Þorgeir Magnússon, Marinó Már Magnússon.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.