Morgunblaðið - 09.08.2005, Blaðsíða 21

Morgunblaðið - 09.08.2005, Blaðsíða 21
Klakabönd. Í LISTASAL Mosfellsbæjar verð- ur opnuð í dag sýning á verkum Ólafar Einarsdóttur, Sigrúnar Ó. Einarsdóttur og Sørens S. Larsen. Sýningin hefur hlotið heitið „Gler þræðir“ en í aðalhlutverki eru skúlptúrar þar sem blandað er saman gleri og vefnaði. Við góðan orðstír í Danmörku „Upphaflega sýndum við þrjú saman í listasafni ASÍ árið 2002,“ segir Sigrún. „Það var afmælissýn- ing okkar Sørens. Ólöf er systir mín og hún hafði unnið hjá okkur á glerverkstæðinu í 20 ár. Við höfð- um mikið rætt og tekið þátt í verk- efnum hvor annarrar. Það varð til þess að við þrjú byrjuðum að vinna verk saman þar sem gler og textíll koma fyrir í sama verkinu.“ Forstöðumenn listasafna á Norð- urlöndum sáu sýninguna í ASÍ og varð það úr að hópnum var boðið að sýna erlendis. Fyrir valinu urðu tvö söfn í Danmörku: annars vegar Glerlistasafnið í Ebeltoft sem er eitt stærsta og merkasta gler- listasafn Evrópu og hins vegar Kunstindustrimuseet í Kaup- mannahöfn. „Nú er þessi sýning komin heim og hún er orðin töluvert öðruvísi en hún var hjá ASÍ. Verkin hafa bæði þróast og breyst og önnur verk hafa bæst við. En gneistinn í sýn- ingunni heldur áfram.“ Sýningarnar í Danmörku vöktu mikla athygli og fékk hópurinn mikla umfjöllun og var á forsíðu vetrarheftis Neues Glass, eins af virtari tímaritum sem gefin eru út um glerlist. Náttúruupplifanir „Við vinnum með form og efni. Við höldum okkur við frekar róleg form: fáumst mikið við grunn- formin: ferninga og hringi. Við vinnum mikið út frá náttúruupplif- unum. Það er mikill ís, frost og klaki í glerinu en vefnaðurinn úr hinni áttinni, t.d. kallast eitt vef- listaverkið „Þúfa“.“ Ólöf Einarsdóttir heillaðist af spjaldvefnaðartækninni skömmu eftir að hún lauk listnámi sínu: „Þá fór ég að vinna með þetta, en ekki sem nytjalistaraðferð heldur sem myndlist,“ segir Ólöf. „Ég vinn oft- ast einingar sem ég raða saman í heildstætt verk. Ég vinn mikið með sisal sem ég lita sjálf og hrosshár. Þessi efni henta vel og hafa verið gegnumgandandi í öllu því sem ég hef unnið með þó að ég hafi gert tilraunir með ýmislegt annað. Þetta er sannkölluð þráðalist því þræðirnir fá að njóta sín í verkum mínum.“ Spjaldvefnaður er ævaforn tækni þar sem ekki er ofið í vefstól eða ramma heldur með spjöldum. Tæknin er þekkt hjá flestum þjóð- um og eru elstu minjar um tæknina frá tímum Egypta. „Aðferðin er einföld og möguleikarnir svo mikl- ir. Vefnaðurinn vinnur síðan með glerinu og skemmtilegt að tefla saman þessum ólíku efnum. Skapa svolitla spennu á milli þeirra.“ Sigrún bætir við, spurð um áhuga sinn á gleri: „Ég held að glerblásturinn hafi heillað mig. Hann gerist voðalega hratt, er af- gerandi og mikil spenna og hasar. En ég er orðin eldri og stilltari og hef líka kynnt mér aðrar aðferðir en glerblástur. Ég vinn talsvert með keramikofna og er mikið á sýningunni brætt í ofni, ýmist úr glerögnum, kurli eða stöngum. Þannig fæ ég að nýta róna og yf- irvegunina á meðan glerblásturinn er svolítið hér-og-nú. Hann er eins og hið talaða orð: þú tekur það ekki til baka. Ef eitthvað mistekst verður að henda því og gera nýtt því þú getur ekki stoppað eða bakkað.“ Listin lifir þó að fækkað hafi í hópnum Søren Larsen lést í bílslysi í marsmánuði 2003 en hann hafði búið á Íslandi með Sigrúnu frá árinu 1980: „Ég lærði við skóla sem í dag heitir Danmarks Design- skole en hét þá Skolen for Brugs- kunst. Þar kenndi Søren. Þegar við fluttum hingað byrjaði hann að kenna við Myndlista- og hand- íðaskólann og var umsjónarmaður keramíkdeildarinnar í nokkur ár. Saman stofnuðum við glerverk- stæðið Gler í Bergvík árið 1982,“ segir Sigrún. Þau hafa haldið sýningar víða um heim en ekki verið mjög dugleg við að halda einkasýningar á Ís- landi, eins og Sigrún orðar það. Síðast héldu þau einkasýningu í Gerðarsafni í Kópavogi árið 2000. Ólöf er menntuð við textíldeild Myndlista- og handíðaskólans. Hún hefur einnig tekið þátt í sýningum víða um heim og haldið einkasýn- ingar hérlendis. Sýningin í Listasafni Mosfells- bæjar í Þverholti stendur til 28. ágúst. Opið er kl. 12–19 virka daga, 12–15 laugardaga og á sunnudög- um verða Sigrún og Ólöf í salnum frá 13 til 15. Ljósmyndir/Guðmundur Ingólfsson – Ímynd Þúfa. Kvika. Tefla saman ólíkum efnum Eftir Ásgeir Ingvarsson asgeiri@mbl.is „ÉG LÍT ekki á þetta einungis sem pen- ingastyrk heldur einnig mikilvæga við- urkenningu og er mjög stoltur,“ segir Ög- mundur Þór Jóhannesson sem á laugardag hlaut styrk úr Jacquillat-sjóðnum. Sjóðurinn er til minningar um Jean Pierre Jacquillat, sem starfaði af og til sem stjórnandi Sinfóníuhljómsveitarinnar frá 1972 til 1980 þegar hann var svo ráðinn sem aðalstjórnandi hljómsveitarinnar. Jacquillat lét af því starfi árið 1986 og lést sama ár. Ögmundur hefur nýlokið BA-gráðu með hæstu einkunn frá einleikaradeild Uni- versität Mozarteum í Salzburg, Austurríki og mun hefja meistaranám við sama skóla nú í haust. „Styrkinn mun ég nota til að fjárfesta í nýju hljóðfæri því minn gamli jálkur er því miður að detta í sundur,“ útskýrir Ögmund- ur. „Það hafa verið vandræði með gítarinn, krónískur smíðagalli sem skotið hefur upp kollinum aftur og aftur. Hljóðfærið er engu að síður gott og ég mun aldrei láta það frá mér.“ Styrkurinn veittur í fjórtánda sinn Ögmundur mun stunda meistaranám hjá sama kennara og hann hefur haft síðustu þrjú árin, Marco Tamayo, en að sögn Ög- mundar er sá orðinn mjög eftirsóttur kenn- ari. „Ég er smátt og smátt að læra öll brögð Marco Tamayos,“ segir hann og hlær. Þá mun Ögmundur starfa sem aðstoð- armaður prófessors í tónfræðum við Moz- arteum Háskólann í vetur og hefur það mikla þýðingu fyrir hann. „Það verður mjög áhugavert. Ég verð svolítill ritari fyrir hann, í alls konar vinnu, en það verður samt sem áður spennandi.“ Þetta er í fjórtánda sinn sem styrkur er veittur úr Minningarsjóði Jean Pierre Jacquillat og að þessu sinni bárust 23 um- sóknir. Hlutverk sjóðsins er að styrkja tónlistarfólk til að afla sér frekari mennt- unar á sviði tónlistar en einnig til að halda á lofti nafni Jacquillat og hans merka framlagi til íslenskrar tónlistar. Sjóðurinn hefur á undanförnum árum notið framlaga frá franska Minningar- sjóðnum um tónskáldið Albert Roussel en upphæð Jacquillat-styrksins er 600.000 krónur. Áður hafa hlotið styrkinn; þrír söngvarar, þrír fiðluleikarar, þrír píanóleikarar, stjórn- andi, sellóleikari, tónskáld, orgelleikari og nú gítarleikari. Tók tíma að finna rétta braut Það er nóg á dagskrá hjá Ögmundi næstu mánuði því hann mun ekki einungis sækja námskeið vegna námsins í Salzburg heldur einnig taka þátt í keppnum í Portúgal, á Ítalíu og í höfuðborg Austurríkis, Vín- arborg. Þá hefur honum verið boðið að spila í Suður-Frakklandi en þar hefur hann spilað nokkrum sinnum áður. „Ég er kominn í úrslit í keppni á vegum Herbert von Karajan Centrum í Vínarborg en verðlaunin eru nefnd eftir Karajan hljómsveitarstjórnanda,“ útskýrir Ögmund- ur. Þar munu taka þátt fulltrúar hinna ýmsu hljóðfæra og verður vinningshafinn útnefnd- ur besti tónlistarneminn í Austurríki. Það var ekki klassískur gítarleikur sem heillaði Ögmund í byrjun ferilsins heldur poppið og vildi hann helst verða eins og Bubbi Morthens. „Ég var hrifinn af poppinu þegar ég var yngri og byrjaði minn ferill ellefu ára sem trúbador. Þá spilaði ég frumsamið lag eftir föður minn í söfnunarþætti á Stöð 2,“ segir hann. „Síðan hlustaði ég á geisladisk með klassískum gítarleikurum og hugsaði; vá, svona vil ég verða, þetta vil ég.“ Árið 2000 fór hann til Spánar og lærði í tvö ár við Escola Luthier d’arts musical. „Það tók mig svolítinn tíma að sannfærast um að klassíkin væri leiðin fyrir mig,“ út- skýrir Ögmundur. „Ég lærði hjá Arnaldi Arnarssyni á Spáni og hann hvatti mig einn- ig til að prófa aðra kennara sem ég gerði. Ég kynntist hinum frábæra kennara Ric- ardo Jesus Gallén sem benti mér á Moz- arteum og Marco Tamayo.“ Ögmundur segist ekki trúa á tilviljanir heldur eina beina braut fyrir hvern og einn í lífinu. „Maður fer kannski út af af og til en brautin er samt alltaf til staðar.“ Tónlist | Ögmundur Þór Jóhannesson hlýtur Jacquillat-styrkinn í ár Vá, svona vil ég verða, þetta vil ég Morgunblaðið/Árni Sæberg Örn Jóhannsson, formaður Jacquillat-sjóðsins, veitti Ögmundi Þór Jóhannessyni styrkinn við hátíðlega athöfn í Sigurjónssafni á laugardag. Eftir Völu Ósk Bergsveinsdóttur valaosk@mbl.is MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 9. ÁGÚST 2005 21 MENNING

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.