Morgunblaðið - 19.09.2005, Blaðsíða 33
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 19. SEPTEMBER 2005 33
MINNINGAR
stjóri á strætisvögnum og rútum,og
síðar á leigubílum og vann ýmis
störf nú hin síðari ár. Vinskapur
okkar Óla byrjaði upp úr 1968, þá
báðir í akstri leigubíla hjá Bæjar-
leiðum og á eins bílum og oft að
basla við sömu vandamálin með lag-
færingar og viðgerðir. Þetta voru
góðir og skemmtilegir tímar og
margt spjallað enda var Óli afskap-
lega léttur og skemmtilegur, fullur
af gríni og góður sögumaður.
Gott var að koma í kaffið á Berg-
staðastrætinu hjá Svönu og Óla og
síðar á Ásbrautina og rifja upp ýms-
ar sögur úr lífi og starfi sem ekki
verðar sagðar hér en oft stoppað
lengur en ætlað var.
Óli var glæsilegur maður svo vin-
um hans kom það ekkert á óvart þeg-
ar hann kynnti þeim Svönu, heima-
sætuna og fegurðardísina úr
Kjósinni en á þeim tíma var hann
rútubílstjóri Kjalarnes-Kjós. Þá var
ferðast með rútubílum úr sveitinni í
höfuðborgina því ekki voru einkabíl-
ar á hverjum bæ.
Ógleymanlegt var þegar þau hjón
sýndu dans í sjónvarpinu, þar var
samstillt og glæsilegt par.
Góður söngmaður var Óli og einn
af stofnendum Snæfellingakórsins í
Reykjavík.
Mikill vinur og góður drengur er
kvaddur með söknuði. Elsku Svana
og fjölskylda, innilegar samúðar-
kveðjur frá okkur Oddbjörgu. Guð
gefi ykkur styrk.
Karl Ásgrímsson.
Það kemur fyrir að nákvæmlega
rétta fólkið velst í ákveðin störf.
Þegar það gerist kætast allir; sam-
starfsfólkið, viðskiptavinir eða
hverjir þeir sem samskipti hafa við
viðkomandi fyrirtæki og starfs-
mann. Þegar Salurinn í Kópavogi
var opnaður fyrir sex árum síðan
var það mikil gæfa að fá Óla Lúth-
ersson til starfa. Óli húsvörður varð
strax (ásamt öðru yndislegu starfs-
fólki hússins) vinur allra sem erindi
áttu í Salinn. Óli húsvörður skildi
nákvæmlega hvað það er sem gerir
góðan stað betri. Hann var sá fyrsti
sem heilsaði manni með bros á vör
þegar komið var til æfinga að
morgni dags. „Sæl, elskan, það er
heitt á könnunni,“ – og svo var hann
farinn til að sjá hvort ekki þyrfti að
taka ábreiðuna af flyglinum eða
koma með nótnastatíf; athuga ljósin
og sjá til þess að tónlistarfólkinu liði
eins vel og mögulegt væri. Þegar að
tónleikum kom birtist hann bakvið
með hvatningarorð til taugaveikl-
aðra flytjenda og sá til þess að þeir
færu inn á svið á réttum tíma – og
inn um réttar dyr! Það sama gerðist
í hléinu – þá kom hann færandi
fréttir um hve gestirnir væru
ánægðir og hvað þetta gengi nú allt
saman vel. Svona manneskjur eru
ómetanlegar – þær sem alltaf eiga
hlý orð og bros í erli dagsins. Ég
sendi öllum aðstandendum mínar
innilegustu samúðarkveðjur. Takk,
Óli. Ég mun sakna þín.
Anna Guðný Guðmundsdóttir.
Kveðja frá kórfélögum og
kórstjóra Óháða safnaðarins
Við, kórfélagar og kórstjóri
kirkjukórs Óháða safnaðarins, vilj-
um minnast Óla í nokkrum orðum.
Hann söng með kórnum sl. tíu ár,
þessi ljúfi, síkáti tenór sem alltaf átti
bros og faðmlög handa okkur. Minn-
ingarnar eru margar, allar góðar. Í
byrjun júlí hittumst við flest fyrir
austan fjall hjá einni úr kórnum.
Þangað mætti Óli, svolítið þreyttur,
en bjartsýnn og léttur í lund að
venju. Ekki grunaði okkur þá að það
yrðu síðustu faðmlögin sem við
fengjum frá honum. Eitt af þeim lög-
um sem við æfðum síðastliðinn vet-
ur, „Nú hverfur sól í haf“,var Óla
mjög kært en honum hlotnaðist ekki
að syngja það með okkur á tónleik-
um vegna veikinda.
Nú hverfur sól í haf
og húmið kemur skjótt.
Ég lofa góðan Guð,
sem gefur dag og nótt,
minn vökudag,
minn draum og nótt.
---
Kom, nótt með náð og frið,
kom nær, minn faðir hár,
og leggðu lyfstein þinn
við lífsins mein og sár,
allt mannsins böl,
hvert brot og sár.
(Sigurbjörn Einarsson.)
Blessuð sé minning hans.
Við viljum votta Svönu, eftirlif-
andi eiginkonu hans, börnum,
tengdabörnum og öðrum aðstand-
endum samúð okkar. Guð blessi
ykkur öll.
„Er ekki allt klárt, elskurnar?“
Klapp á öxl og bros. Brosað á móti og
gengið inn á svið. Hvort sem smá-
barn úr Tónlistarskólanum, heims-
stjarna, vel eða illa fyrirkallaður tón-
listarmaður úr lífsbaráttunni hér
heima átti í hlut. Sama viðmót beið
allra þegar Óli húsvörður í Tónlistar-
húsi Kópavogs sendi fólk inn í skært
sviðsljósið. Engir stælar. Tónlistar-
flytjendur lærðu fljótt að meta þá
miklu hvíld sem það er að kynnast
slíkri góðvild og æðruleysi. Við
Martial, Matthías og Jóhann kveðj-
um með þakklæti og söknuði höfð-
ingja og góðan dreng og vottum ást-
vinum hans djúpa samúð. Blessuð sé
mining Óla Lútherssonar. „Allt er
klárt“ þegar slíkur maður stígur inn
í ljósið.
Guðrún Birgisdóttir.
glaðr ok reifr
skyli gumna hverr,
unz sinn biðr bana.
(Úr Hávamálum.)
Þessi spakmæli Hávamála koma
okkur félögum og vinum Óla fyrst í
hug er við minnumst nær aldarfjórð-
ungs kynna og félagsskapar í Sund-
laug Kópavogs. – Hann kom þar nær
daglega síðdegis glaður og reifur um
áratugaskeið og hélt þar uppi
skemmtilegum samræðum í góðum
félagsskap. Svo vildi til að margir af
þeim sem þar hittust reyndust vera
af Snæfellsnesi eða frá Breiðafirði og
mótaði Óli þá stefnu að eiginlega
væru ekki aðrir gjaldgengir í þennan
félagsskap en fólk sem þar ætti ræt-
ur eða hefði dvalið þar einhvern
hluta ævi sinnar. Seinna var slakað á
inntökuskilyrðum þannig að þeir
sem sæju til Snæfellsjökuls ættu þar
fullan þegnrétt.
Óli var mikill Snæfellingur og
urðu því sögur og sagnir af Snæ-
fellsnesi vinsælt umræðuefni. Ef
hann mætti ekki daglega í pottinn
vissum við félagarnir að hann væri
annaðhvort á æfingu í Snæfellinga-
kórnum eða á fundi í Sjálfstæðis-
flokknum, en það voru þeir aðilar
sem hann taldi sig eiga við skyldur
að rækja ekki síður en okkur fé-
laga.
Fyrir meira en tíu árum var Óli
annar af forustumönnum þess að
pottfélagarnir efndu til aðventufagn-
aðar fyrir hver jól í fordyri Sund-
laugar Kópavogs með sérstökum
hætti og þar mætti Svana jafnan
með honum. Varð þessi starfsemi
strax svo vinsæl að haldist hefur ár-
lega síðan.
Við félagarnir nutum þess að
segja hver öðrum skemmtilegar sög-
ur og skiptast á skoðunum. Stundum
var þetta svo áhugavert efni að við
heyrðum frásagnirnar endurfluttar
bæði í útvarpi og sjónvarpi án þess
að getið væri uppruna frásagnanna.
Jafnvel urðum við að stöðva sumar
sögurnar áður en farið var að birta
þær í blöðum – og þá var nú Óla
skemmt.
Nú við fráfall Óla er skarð fyrir
skildi í okkar hópi og einlægur
söknuður. En minningin um ein-
staklega skemmtilegan og jákvæð-
an félaga lifir meðal okkar. Við fær-
um eiginkonu hans, Svönu vinkonu
okkar, börnunum og fjölskyldum
þeirra okkar innilegustu samúðar-
kveðjur.
Góði vinur
Far þú í friði,
friður Guðs þig blessi,
hafðu þökk fyrir allt og allt.
(V. Briem.)
Félagarnir í
Sundlaug Kópavogs.
✝ Halldór Hjálm-ar Halldórsson
fæddist í Reykjavík
19. desember 1961.
Hann lést að
morgni 8. septem-
ber síðastliðinn.
Foreldrar hans eru
Halldór Hjálmars-
son, f. 14. maí 1927,
og Kaino Annikki
Hjálmarsson, f. í
Finnlandi 12. apríl
1930, d. 23. mars
2003. Systkini Hall-
dórs eru Pia Rakel
Sverrisdóttir, f. í Edinborg 10.
janúar 1953, Rebekka Sverris-
dóttir, f. í Reykjavík 19. október
1954, d. 30. desember 1989,
Skafti Halldórsson,
f. í Reykjavík 19.
febrúar 1951, Örn
Þór Halldórsson, f. í
Reykjavík 9. júní
1965, og Anna Mar-
grét Halldórsdóttir,
f. í Reykjavík 29.
október 1966.
Halldór lauk
prófi í rafeinda-
virkjun frá Iðnskól-
anum í Reykjavík
árið 2003 og hefur
unnið hjá Orkuveitu
Reykjavíkur síðan.
Útför Halldórs verður gerð frá
Ríkissal Votta Jehóva, Hraunbæ
113, í dag, og hefst athöfnin
klukkan 14.
Bróðir minn, Dóri, fæddist þrem-
ur mánuðum fyrir tímann og var
veikburða fyrsta árið. En hann
braggaðist vel og var blíðlyndur og
áhugasamur.
Hann fékk snemma mikinn
áhuga á náttúrunni, var í siglinga-
klúbbi og garðyrkjuskóla Reykja-
víkur.
Um tíu ára aldur var hann farinn
að hafa mikinn áhuga á hvers kon-
ar rafeindafræði og gaf t.d. Píu
systur sinni rafknúna viftu í afmæl-
isgjöf.
Þennan áhuga hafði hann alla
ævi og var að smíða og setja saman
flóknasta raftæknibúnað og hljóð-
kassa. Má segja að hann hafi verið
snillingur á þessu sviði.
Einnig var hann mikill músík-
unnandi og hlustaði á klassík og
improviseraðan djass og jafnvel U2
og aðrar rokkgrúppur.
Hann var alla tíð dálítill einfari,
en eignaðist þó marga vini og var
hjálpsamur og greiðvikinn við þá.
Við Halldór vorum mjög náin.
Móðir okkar þurfti að vinna mikið
eftir skilnaðinn við föður hans, svo
tengslin styrktust enn betur. Ég
hef alltaf sagt að hann væri fyrsta
barnið mitt.
Halldór var einhleypur og átti
ekki börn, þannig að sonur minn,
Hrói, fannst hann vera drengurinn
hans.
Halldór átti við erfið veikindi að
stríða síðustu 20 ár, sem heftu að
hæfileikar hans gætu að fullu notið
sín.
Eitt af lokaverkum hans var að
sjá um að gróðursetja tré í van-
hirtan garð blokkarinnar þar sem
hann bjó.
En við vinir og fjölskylda hans
munum mest eftir blíðleikanum,
kímnigáfunni, umhyggjunni og
hjálpseminni sem stórri gjöf til
okkar.
Elsku Dóri, þú fylgir mér í minn-
ingunni. Þín systir,
Pía Rakel.
Með þessu fallega ljóði langar
okkur að kveðja ástkæran bróður:
Þau ljós sem skærast lýsa,
þau ljós sem skína glaðast,
þau bera mesta birtu
en brenna líka hraðast
og fyrr en okkur uggir
fer um þau harður bylur
er dauðans dómur fellur
og dómi þann engin skilur.
En skinið logaskæra
sem skamma stund oss gladdi,
það kveikti ást og yndi
með öllum sem það kvaddi.
Þótt burtu úr heimi hröðum
nú hverfur ljósið bjarta
þá situr eftir ylur
í okkar mædda hjarta.
(Friðrik Guðni Þórleifsson.)
Hvíl í friði.
Örn Þór og
Anna Margrét.
Okkar besti fjölskylduvinur,
hann Dóri, bankar ekki lengur upp
á til að spjalla og drekka kaffi með
okkur. Sú tilhugsun er ömurleg.
Hann Dóri var snillingur, ljúflingur
og höfðingi.
Ætli við höfum kynnst manni
sem jafn oft sá ástæðu til að gefa í
kringum sig, bæði af sjálfum sér og
líka hluti sem hann vissi að myndu
gleðja vini hans. Tilfinning hans og
innsæi fyrir hvernig öðrum leið var
ótrúleg. Það var ekki þannig að
hann byði upp á samræður til að
brjóta hlutina til mergjar, heldur
vissi hann hvernig hægt var að
nálgast fólk í verki til að sýna hlut-
tekningu. Sjaldgæfur eiginleiki í
manni sem var jafn hikandi í mann-
legum samskiptum og Dóri alltaf
var. Honum leið best í þröngum
vinahópi, en fjölmenni forðaðist
hann. Hógværð og lítillæti eru eig-
inleikar sem Dóra prýddi frekar en
aðra menn. Hann hefur reynst okk-
ur yndislegur vinur og hjálplegur
okkur öllum.
Hversu oft hefur hann ekki
hjálpað Rósu minni og ekið henni
hvert sem hana vantaði, náð í hana
í vinnuna og verið henni innan
handar með alla hugsanlega hluti
sem hún ekki réð við. Fórnfýsi
hans og greiðasemi hef ég hvergi
annars staðar séð hliðstæðu.
Börnin okkar hafa sannarlega
notið örlætis hans. Dæmi um það
er þegar einn daginn birtist hann
með par af ScanSpeak hátalarakeil-
um sem voru rándýrir og aðeins
notaðir í dýrustu hátalaraboxum
„High End“ framleiðenda, og gaf
stráknum okkar þá. Auðvitað smíð-
aði Daníel vönduð box sem hann lét
lakksprauta eftir kúnstarinnar
reglum. Allir undrast hljómgæðin
og ánægðastur allra held ég að
Dóri hafi verið yfir árangrinum.
Hljómtæki og gott sánd voru líf
og yndi Dóra. Þar áttum við sam-
eiginlegt áhugamál. Hann var ótrú-
legt séní varðandi rafmagnsfræði
vönduðustu hljómtækja, af ástríðu-
fullum áhuga. Til eru nokkrir kraft-
magnarar og formagnarar sem
hann hannaði og smíðaði sem taka
öllu fram í hljómgæðum sem ég hef
heyrt. Þótt útlitið hafi verið auka-
atriði hjá Dóra, voru þeir samt í
vönduðum svörtum stálboxum.
Kraftmagnararnir voru jafnvel á
þriðja tug kílóa!
Ófáar stundir höfum við hlustað
saman á tónlist til að kafa ofan í
viðkvæmustu eiginleika góðs flutn-
ings af plötum og CD-diskum. Góð-
ar stundir eru liðnar, sterkir kaffi-
bollar, græjublöðin sem við
köfuðum saman í, spjölluðum fram
og aftur og pældum í sándinu.
Hann gat tekið teikningar af CD-
spilurum, mögnurum og hverju
hljómtæki sem var og lesið þær
eins og aðrir lesa bækur. Hann sá
alltaf hvar betur mátti gera í smíð-
inni og tók marga CD-spilara fyrir
vini sína og uppfærði þá með eigin
lausnum upp í gæðaflokk spilara
sem engum venjulegum manni
hefði dottið í hug að kaupa. Snilli
hans var aðeins takmörk sett með
hógværð hans og lítillæti.
Dóri var örlátur við stelpurnar
okkar líka... hann gaf Sigrúnu bíl-
inn sinn þegar hún flutti norður á
Akureyri. Fyrir stuttu síðan kom
hann með línuskautana sína sem
hann hafði notað tvisvar og gaf
Eddu okkar ásamt fylgihlutum.
Hans Dóra er sárt saknað á
þessu heimili og mörg tár hafa fall-
ið síðan fréttir um fráfall hans bár-
ust. Við biðjum Jehóva Guð um að
geyma Dóra til upprisunnar á efsta
degi þegar upp munu rísa réttlátir
og ranglátir, til betra lífs þar sem
harmur, vein né kvöl er ekki fram-
ar til. (Opinberunarbókin 21:1-4)
Þar verða fagnaðarfundir. (Jóhann-
es 5:28, 29)
Sigurður Valur,
Rósa og börnin.
Í dag kveðjum við góðan vin,
Halldór Halldórsson. Það fór
kannski ekki mikið fyrir Halldóri
og feimnin og veikindi hans gerðu
það að verkum að hann leitaði helst
leiða til að vera sem minnst áber-
andi væri hann í margmenni. Það
var þegar hann var einn með vinum
sínum (og það ekki of mörgum í
einu) sem mannkostir hans komu í
ljós. Feimnin hvarf og hann gat
leyft sér að vera til eins og hann
átti að sér. Skopskynið og létta
skapið voru þá ekki langt undan og
gaman að vera til.
Hann var hjálpsamur með af-
brigðum, alltaf boðinn og búinn að
skutlast með hvern þann sem
þurfti, rétta hjálparhönd, laga eitt-
hvert rafeindatækið sem var til
vandræða eða hvaðeina sem þörf
var á. Hljómtæki hvers konar voru
hans sérgrein, hvort sem var að
laga eða smíða. Það veitti honum
reyndar meiri ánægju að hanna og
smíða tækin en að nota þau, nema
þá helst til að fínstilla hljóminn.
Hann var mikill grúskari og var
alltaf að leita leiða til að gera eins
vel og hægt var. Það gilti þá einu
þó nokkur ár voru liðin, einu sinni
bankaði hann upp á hjá mér með
lóðbolta og eitthvert rafeindadót í
höndunum. Hann hafði þá séð leið
til að bæta hljóminn í hátölurunum
heima sem hann hafði smíðað
mörgum árum fyrr!
Fyrst og fremst var þó Halldór
hlý og notaleg manneskja sem gott
var að þekkja. Mönnum leið vel ná-
lægt honum og alltaf var maður í
betra skapi er hann kvaddi eftir
gott kaffispjall eða eftir að hafa
grúskað eitthvað úti í skúr. Hann
hlakkaði til þess tíma sem Biblían
lofar er allir geta lifað við aðstæður
sem eru þeim eiginlegar og lausir
við veikindi og aðra óáran sem við
lifum við í dag. Hann skilur eftir
sig skarð í hjörtum okkar sem
verður ekki fyllt fyrr en sá tími
kemur. Bilið þangað til verðum við
að brúa með von og fallegum minn-
ingum um góðan dreng.
Þorsteinn Þorsteinsson.
HALLDÓR HJÁLMAR
HALLDÓRSSON
REYNSLA • UMHYGGJA • TRAUST
Þegar andlát ber að höndum
Önnumst alla þætti útfararinnar
ÚTFARARSTOFA
KIRKJUGARÐANNA
Vesturhlíð 2 • Fossvogi • Sími 551 1266 • www.utfor.is