Morgunblaðið - 12.11.2005, Qupperneq 6
6 LAUGARDAGUR 12. NÓVEMBER 2005 MORGUNBLAÐIÐ
FRÉTTIR
STAÐA Framsóknarflokksins í
skoðanakönnunum er óásættanleg
og ekki í samræmi við öll þau fram-
faramál sem flokkurinn hefur komið
til leiðar á síðustu árum og áratug-
um. Þetta sagði Halldór Ásgrímsson
forsætisráðherra og formaður
Framsóknarflokksins, í ræðu sinni
við upphaf miðstjórnarfundar
flokksins í gær. Í ræðunni fjallaði
hann talsvert um efnahagsmál og
sagði m.a. að engar forsendur væru
fyrir frekari vaxtahækkunum Seðla-
bankans, þvert á móti væru forsend-
ur fyrir lækkun vaxta.
Gangi stoltir til kosninga
Halldór sagði að margir hefðu
áhyggjur af verðbólgu og háu gengi.
Það væri raunar eðlilegt að gengið
væri hátt þar sem Íslendingar hefðu
ætlað sér mikið. Framsóknarmenn
hefðu lagt áherslu á mikla atvinnu.
„Viljum við ekki frekar meiri spennu
heldur en atvinnuleysi með þeim
hörmungum sem það hefur í för með
sér fyrir heimilin í landinu. Ef ég á
að velja þar á milli þá vil ég frekar
mikla spennu og mikla uppbyggingu
frekar en atvinnuleysið. Það er hins
vegar ljóst að það eru ákveðin þol-
mörk í þeim efnum,“ sagði Halldór.
Hann bætti við að nú væru merki um
verðlækkanir, hægst hefði um á hús-
næðismarkaði og vextir á húsnæð-
islánum væru byrjaðir að hækka á
húsnæðislánum. Þetta myndi hafa
áhrif á gengið enda hefði það verið
að breytast. Við þessar aðstæður
væri ekki ástæða til að hækka vexti.
„Að mínu mati eru engar forsendur
fyrir því, eins og nú standa sakir, að
Seðlabankinn haldi áfram að hækka
sína vexti um næstu mánaðamót.
Það eru miklu fremur forsendur fyr-
ir því að vextir byrji að lækka á nýj-
an leik,“ sagði Halldór.
Greinilegt var að sveitarstjórnar-
mál voru ofarlega í huga Halldórs
enda sveitastjórnarkosningar á
næsta leyti. Hann fagnaði því að
framsóknarmenn í Kópavogi hefðu
ákveðið að halda prófkjör, sem raun-
ar fer fram í dag, og sagði mikilvægt
að prófkjör yrðu haldin sem víðast
því þau hleyptu krafti í starf flokks-
ins. Hann hvatti flokksmenn til dáða,
sagði að þeir gætu verið stoltir af
Framsóknarflokknum enda hefði
flokkurinn komið mörgu góðu til
leiðar og framsóknarmenn mættu
ekki vera of feimnir eða of hógværir
til að minna á það þegar gengið væri
til kosninga. Halldór minnti á að frá
því hann hóf þátttöku í stjórnmálum
fyrir rúmlega 30 árum hefði Fram-
sóknarflokkurinn verið í ríkisstjórn
nánast allan þann tíma, að undan-
skildum fjórum árum, og á þessum
tíma hefðu orðið gríðarlegar fram-
farir á Íslandi. Hann nefndi nokkur
lykilatriði í þeim árangri; breytingar
á fiskveiðistjórnunarkerfinu, samn-
inginn um aðild Íslands að Evrópska
efnahagssvæðinu, uppbyggingu
stóriðju og loks einkavæðingu bank-
anna sem hefði leyst úr læðingi gríð-
arlega verðmætasköpun. Íslenskir
bankar væru nú komnir í hóp þeirra
stærstu á Norðurlöndunum og það
hefði aldrei gerst ef þeir hefðu áfram
verið í eigu ríkisins. Einnig hefði
Orkuveita Reykjavíkur staðið fyrir
mikilli atvinnuuppbyggingu á höfuð-
borgarsvæðinu. Að lokum benti
Halldór á að þar sem Síminn hefði
verið seldur væri nú hægt að ráðast í
ýmis verkefni, s.s. byggingu nýs há-
tæknisjúkrahús, vegagerð og ný-
sköpun, sem ekki hefðu verið mögu-
leg að öðrum kosti.
Skýringin á slæmu gengi flokks-
ins skv. skoðanakönnunum væri því
ekki vegna þess að flokkurinn hefði
staðið sig illa, heldur væru á því aðr-
ar skýringar, nefnilega þær að
flokknum hefði ekki gengið nægi-
lega vel að koma sínum málum á
framfæri og flokksmenn ekki verið
nægilega stoltir af verkum flokksins.
Þetta yrði að breytast því afar mik-
ilvægt væri að flokkurinn næði góð-
um árangri í sveitarstjórnarkosning-
unum.
Halldór ræddi töluvert um mál-
efni aldraðra og sagði að tekist hefði
að gera áætlun um úrbætur í mál-
efnum aldraðra þannig að góður
friður gæti ríkt um þann málaflokk.
Það mætti þó ekki eingöngu horfa til
ríkisins heldur einnig til einstaklinga
og samfélagsins alls. Það hlyti t.a.m.
að vera hægt að koma upp sjálfboða-
liðasamtökum sem tækju þátt í að
sinna öldruðum sem byggju einir.
Halldór Ásgrímsson hvatti flokksmenn til að vera stoltir af verkum flokksins á miðstjórnarfundi
Morgunblaðið/Brynjar Gauti
Engar forsendur fyrir frekari
vaxtahækkunum Seðlabankans
Eftir Rúnar Pálmason
runarp@mbl.is
„Viljum við ekki frekar meiri spennu heldur en atvinnuleysi með þeim hörmungum sem það hefur í för með sér
fyrir heimilin í landinu,“ sagði Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra á miðstjórnarfundinum í gær.
„ÞAÐ er skemmtilegra að hafa
hrl. á legsteininum,“ segir Jón
Einar Jakobsson lögmaður, sem
flutti á dögunum sitt fyrsta próf-
mál í Hæstarétti, en hann er nú
kominn á eftirlaunaaldur. Jón seg-
ist hafa viljað klára þetta og ljúka
málflutningsréttindum til æðsta
dómstigsins, þótt hann hafi alla
sína starfsævi flutt mál fyrir hér-
aðsdómi og einnig sín eigin mál
fyrir Hæstarétti.
Jón hefur að vísu lengi haft
leyfi til að flytja sín eigin mál fyr-
ir Hæstarétti. „Þannig að það er
ekkert nýjabrum að því fyrir mig
að flytja mál fyrir Hæstarétti,“
segir Jón. „Hitt er annað að mér
þótti skrýtið að vera að ganga
undir próf hjá skólasystkinum
mínum. Það var líka svolítið
skondið að lögfræðingurinn sem
flutti prófmálið á móti mér var
Ragnheiður Harðardóttir vararík-
issaksóknari. Hún var leiksystir
dætra minna og ólst upp í ná-
grenninu og var hún heimagangur
hjá mér frá því hún var pínulítil.“
Kjánaleg lög um réttindin
Jón segir margt hafa orðið til
þess að það „tafðist“ að sækjast
eftir málflutningsréttindum fyrir
Hæstarétti. „Það eru svo kjánaleg
lög í landinu sem gera það að
verkum að menn þurfa að flytja
prófmál fyrir Hæstarétti þótt þeir
hafi nákvæmlega sömu menntun
og allir héraðsdómslögmenn og
séu alveg jafn hæfir til að flytja
mál,“ segir Jón. „Hæstaréttar-
lögmennirnir hafa reynt að halda
þessu út af fyrir sig, kannski í at-
vinnuskyni eða kannski til að geta
montað sig eitthvað af því að vera
æðri en við hinir. Þetta hefur líka
dregist á langinn vegna þess að
menn þurfa að betla prófmálin hjá
kollegunum og mér leiðist að
þurfa að ganga með betlistaf í
hendi og sníkja mál hjá kollegum
mínum. Það er mjög leiðinlegt. Ég
hugsa að ég hefði verið búinn að
þessu fyrir löngu ef það væri ekki
fyrir það.“
Mun stunda starfið
til dauðadags
Flutningur prófmálsins gekk
ágætlega hjá Jóni enda ekki hægt
að kvarta yfir reynsluleysi. „Ég
hef í sjálfu sér voða lítið þurft á
því að halda að vera með þessi
réttindi, því ég hef fengið að flytja
mín eigin mál, sem ég hef flutt í
héraði, fyrir réttinum,“ segir Jón.
„Kannski er þetta smáspurning
um hégóma hjá mér. Sumir halda
að það sé einhver óæðri staða að
vera héraðsdómslögmaður eða að
maður viti minna.“
Jón segist vera þeirrar skoð-
unar að hver einasti maður ætti að
fá að flytja mál og ætti ekki að
binda það við lögmenn. „Svo ef
einhver er svo vitlaus að fela öðr-
um málið, þá ætti hann að mega
það, því það er líka í lögum að
menn mega flytja mál sitt sjálfir.
Mér dettur oft í hug þegar talað
er um mismuninn á milli héraðs-
dómslögmanns og hæstaréttarlög-
manns gamansaga um það þegar
einum þingmanni var legið það á
hálsi á framboðsfundi að hafa ver-
ið áratugum saman á þingi og
vera enn í neðri deild.“
Jón hefur átt farsælan feril sem
lögmaður og flutt aragrúa mála
fyrir héraðsdómi. Hann hyggst
hins vegar ekki setjast í helgan
stein fyrr en tærnar snúa upp.
„Það er einn kosturinn við lög-
mannsstarfið að það eru engin
aldurstakmörk og þá getur maður
haft gaman af því alveg fram á
grafarbakkann,“ segir Jón að lok-
um.
Morgunblaðið/Ómar
Jón E. Jakobsson er ánægður með að vera orðinn hæstaréttarlögmaður.
Jón Einar Jakobsson flytur sitt fyrsta prófmál fyrir Hæstarétti
Leiksystir
dætranna flutti
málið á móti
Eftir Svavar Knút Kristinsson
svavar@mbl.is
RISABORVÉL 1 við Kárahnjúka
setti tvöfalt met í borun í síðustu viku.
Hún boraði 83,2 metra í byrjun vik-
unnar (mánudaginn 7. nóvember) og
alls 292 metra, meira en nokkru sinni
áður á einni viku. Árangurinn er ekki
síst athyglisverður í ljósi þess að bor-
inn var stopp í einn sólarhring vegna
eðlilegrar viðhaldsvinnu, ella hefðu
metrarnir vafalaust orðið eitthvað á
fjórða hundraðið.
Þess má geta að í desember 2004
boraði bor 3 nákvæmlega 83 metra á
einum sólarhring, örlítið skemmra en
bor 1 nú. Bor 2 er kominn á nokkurn
skrið á nýjan leik. Hann boraði 38
metra í síðustu viku og miðaði hægt
en örugglega framan af. Undir lok
vikunnar var hann kominn í hart berg
þannig að afköst ættu að aukast.
Setti tvöfalt
met í borun