Morgunblaðið - 26.11.2005, Qupperneq 55
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 26. NÓVEMBER 2005 55
MINNINGAR
✝ Björn VignirSæmundsson,
framkvæmdastjóri
Byggingarfélagsins
Klakks í Vík, fædd-
ist í Svínadal í
Skaftártungu 18.
mars 1945. Hann
lést á Landspítalan-
um við Hringbraut
14. nóvember síð-
astliðinn. Foreldrar
hans voru Sæmund-
ur Björnsson, f.
21.2. 1907, d. 2.4.
1999, bóndi í Svína-
dal og síðar í Múla í Skaftár-
tungu, og Jóhanna Guðmunds-
dóttir, f. 22.7. 1918, d. 4.6. 2002,
húsfreyja frá Steinsmýri. Systkini
Björns eru: Andvana drengur, f.
og d. 8.5. 1941, Þórhallur, f. 22.8.
1943, og Oddsteinn, f. 8.11. 1947,
Guðmundur Emil, f. 30.4. 1952.
Björn kvæntist hinn 15. apríl
1967 Kolbrúnu Matthíasdóttur, f.
8.11. 1948. Foreldrar hennar
voru Matthías Einarsson, tré-
smíðameistari í Vík, f. 24.5. 1904,
d. 3.1. 1999, og Jónína Þórðar-
dóttir, húsfreyja og starfsmaður
á hóteli KS í Vík, f. 3.6. 1911, d.
24.7. 1999. Börn Björns og Kol-
brúnar eru: 1) Matthías Jón
Björnsson, f. 20.8. 1967, búsettur
í Vík, maki Hafdís Þorvaldsdóttir,
f. 2.12. 1968, börn þeirra Kolbrún
Magga Matthíasdóttir, f. 9.6.
1984, sambýlismaður hennar
Bjarki Már Fjeldsted, f. 2.1. 1984;
Þorvaldur Björn Matthíasson, f.
26.2. 1991; Ingibjörg Matthías-
dóttir, f. 9.12. 1994; Sæmundur
Örn Matthíasson, f.
27.10. 2003. 2) Sæ-
mundur Björnsson,
f. 7.5. 1972, d. 27.7.
1994, maki Kristín
Guðrún Ólafsdóttir,
búsett í Reykjavík,
f. 5.3. 1973. Barn
þeirra Sædís Birna
Sæmundsdóttir, f.
27.1. 1995. 3) Ingi
Már Björnsson, f.
12.4. 1976, búsettur
í Vík, maki Hjördís
Rut Jónsdóttir, f.
14.3. 1977. Börn:
Harpa Rún Jóhannsdóttir, f. 27.9.
1997; Birgitta Rós Ingadóttir, f.
17.8. 2002.
Skólaganga Björns var við
barnaskólann í Svínadal. Hann
var á vertíð í Grindavík og við
brúarvinnu sem unglingur. Fór
svo að vinna í Vík árið 1963 í
byggingarvinnu og múrverki.
Hann hóf svo störf hjá Kaupfélagi
Skaftfellinga í Vík árið 1964,
fyrst við nýbyggingar á kaup-
félagssmiðjum og á skrifstofu
fyrirtækisins en síðar á trésmiðju
Kaupfélags Skaftfellinga. Var um
tíma að vinna sjálfstætt í múr-
verki og bílasprautun. Þegar
Byggingarfélagið Klakkur var
stofnað 1975 hóf Björn að starfa
þar og tók svo fljótlega við starfi
framkvæmdastjóra þess. Árið
1993 kaupa þau hjón Björn og
Kolbrún Byggingarfélagið Klakk
og hafa rekið það síðan.
Útför Björns verður gerð frá
Víkurkirkju í dag og hefst at-
höfnin klukkan 11.
Elsku afi, okkur systkinin langar
að minnast þín hér í örfáum orðum
þótt allar góðu minningarnar sem
við eigum um þig gætu örugglega
fyllt heila bók. Það var svo sárt að
sjá þig svona mikið veikan eins og
þú varst orðinn síðustu vikurnar.
Þótt við vissum að þér gæti ekki
batnað héldum við samt alltaf í von-
ina um að fá að hafa þig lengur hjá
okkur en enginn veit hvenær ævin
endar, við höfum reynt það svo oft á
undanförnum árum þótt við séum
ekki orðin eldri.
Í minningum okkar eldri systk-
inanna eru ferðirnar inn að Græna-
lóni og Kirkjufellsvatni, veiðiferð-
irnar í Tungufljótið og helgar-
ferðirnar í sumarbústaðnum á árum
áður eins og ævintýri. Þú hafðir svo
gaman af því að veiða og gladdist
svo með okkur þegar við veiddum
eitthvað, hvort sem það voru smá-
tittir eða eitthvað ætt. Sæmi er svo
lítill að hann kemur sennilega ekki
til með að muna mikið eftir þér en
við hin pössum bara upp á að segja
honum frá þér, hann talar um þig á
hverjum degi og skoðar af þér
myndir, stundum vill hann fá að
hringja í þig og skilur ekkert í af
hverju það er ekki hægt. Ein af
dýrmætustu minningunum okkar er
þegar við vorum öll saman í sum-
arbústað uppi í Biskupstungum í
vor að halda upp á sextugsafmælið
þitt, það eru minningar sem koma
til með að ylja okkur um hjartaræt-
urnar um ókomin ár.
Nú ertu kominn til himna, von-
andi búinn að hitta Sæma frænda
sem dó svo skyndilega í slysi fyrir
ellefu árum og þú saknaðir svo sárt.
Okkur þykir svo óendanlega vænt
um ykkur og söknuðurinn sker okk-
ur í hjartað en við erum líka glöð yf-
ir að hafa átt ykkur að.
Jæja, elsku afi, við biðjum Guð að
varðveita þig fyrir okkur og líka að
styrkja ömmu sem hefur misst svo
mikið. Við vitum að tíminn læknar
ekki öll sár, hann mildar þau og
deyfir.
Er norðurljósin sindra,
ljá himnunum draumkenndann blæ,
mun minning ykkar beggja
tendra í hjarta mér þrá og bæn.
Þið voruð mér báðir svo kærir,
ég sakna ykkar beggja svo sárt.
Við munum svo hittast um síðir,
en kveðjumst í bili með ást.
Guð varðveiti þig, elsku afi.
Þín
Kolbrún Magga, Þorvaldur
Björn, Ingibjörg og Sæmundur.
Elsku afi. Það er ekki svo auðvelt
að skilja það þegar einhver deyr,
sérstaklega ekki þegar að maður er
bara þriggja ára afastelpa og afi er
dáinn. Ég er þó svo heppin að
Harpa stóra systir mín er dugleg að
hjálpa mér við það að skilja þetta
allt saman. Ég var ekki há í loftinu
þegar ég fór að fara til ömmu og afa
á Rennibrautina eins og ég orðaði
það til þess að dvelja um stund og
helst til að gista. Ef það leið of lang-
ur tími á milli þessara heimsókna
hafði afi oft orð á því hvort að ég
ætlaði ekki að fara að koma í heim-
sókn. Þá var sko gott að sitja hjá
honum afa í afastól og grandskoða í
brjóstvasann hans, en þar voru
ýmsar gersemar sem gaman var að
dunda við að handfjatla og skoða.
Afi sagði stundum ef ég var eitt-
hvað að ærslast að ég væri óþægð-
arskjáta og ef ég var spurð um nafn
á tímabili sagði ég sposk Birgitta
Rós óþægðarskjáta Ingadóttir.
Við mamma og Harpa heimsótt-
um þig þegar þú varst á spítalanum
og sagði ég frá því á leikskólanum
að hann afi væri lasinn og væri á
spítala og síðan bætti ég við hróðug:
Hann er alveg ofsalega stilltur. Ef
ég var spurð hver ætti mig þá tiltók
ég mömmu og pabba, Hörpu og líka
ömmu og afa, ekki mátti nú gleyma
þeim.
Það er skrítið að koma á Renni-
brautina og hitta engan afa og til-
hugsunin um að nú sé amma bara
alein er ekki góð. En ég ætla sko að
vera dugleg við að passa ömmu og
gefa henni knús, því ég elska hana
svo mikið. Hún Halla mín kenndi
mér lag á leikskólanum sem er í
miklu uppáhaldi hjá mér og vil ég,
elsku afi, tileinka þér það og syng
fyrir þig með minni ljúfu rödd.
Snert hörpu mína himinborna dís,
svo hlusti englar guðs í paradís.
Við götu mína fann ég fjalarstúf,
og festi á hann streng og rauðan skúf.
Úr furutré sem fann ég út við sjó,
ég fugla skar og líka úr smiðjumó.
Í huganum til himins oft ég svíf,
og hlýt að geta sungið í þá líf.
Þeir geta sumir synt á læk og tjörn,
og sumir verða alltaf lítil börn.
En sólin gyllir sund og bláan fjörð,
og sameinar með töfrum loft og jörð.
Ég heyri í fjarska villtan vængjaþyt.
Um varpann leikur draumsins perluglit.
Snert hörpu mína himinborna dís,
svo hlustið, englar guðs í paradís.
(Davíð Stefánsson.)
Guð geymi þig, elsku afi minn.
Þín (óþægðarskjáta)
Birgitta Rós Ingadóttir.
Elsku afi Bjössi. Ég skal vera
dugleg að hjálpa Birgittu að skilja
að þú sért dáinn og fara með henni í
kirkjugarðinn með kerti. Ég ætla að
kenna henni þessa bæn og er hún til
þín:
Vertu, Guð faðir, faðir minn
í frelsarans Jesú nafni,
hönd þín leiði mig út og inn,
svo allri synd ég hafni.
(Hallgr. Pét.)
Guð geymi þig, elsku afi Bjössi.
Þín
Harpa Rún.
Við áttum ljós, er lýsti skært
og ljóma brá á okkar reit,
og lífið var svo ljúft og vært.
Lýsti náðarsólin heit.
Minningin um mætan dreng
mun um aldur lifa hér.
Þó brugðið sé á sterkan streng
stendur merkið eftir sér.
Við þökkum allt sem okkur varst,
ævinlega á höndum barst,
aldrei neitt við neglur skarst,
nautn og gleði öðrum varst.
Guð blessi og gefi frið,
Guð þig leið á æðri mið
Guð þér lýsi ljós sitt við
um lífsins björtu himnasvið.
(Valgeir Helgason.)
Hvíl í friði, kæri bróðir.
Elsku Kolla, synir og fjölskyldur.
Okkar innilegustu samúðarkveðj-
ur.
Emil og Guðrún.
Fegurðin sem blasir við frá
Svínadal í Skaftártungu, þegar
horft er yfir Eldvatnið og hraunið
mikla til austurs, er eitt af furðum
veraldarinnar. Þessi sýn á heiminn
varð mörgum ungum mönnum
hvatning til að láta gott af sér leiða.
Þannig urðu þeir Svínadalsbræður
til að virkja hina óblíðu náttúru,
fólkinu til farsældar. Þeir létu
hvorki veður, vatn né vind standa í
vegi fyrir framkvæmdavilja ung-
menna nýrrar aldar.
Það var eitt mesta gæfuspor mitt
að lenda aðeins 13 ára í höndunum
á Valmundi Björnssyni brúarsmiði
frá Svínadal. Hann hafði meiri
þekkingu á jökulvötnum en flestir
aðrir. Ógleymanlegt var hvernig
hann útskýrði að yfirborð vatnsins
opinberaði hvar sandbleytu væri
von í fljóti. Uppvöxturinn við Eld-
vatnið og hraunið var honum það
farteski sem ól upp fjölda ungra
manna sem fengu nýja sýn á náttúr-
una og vatnið og urðu ekki samir
síðan.
Nú er bróðursonur Valmundar,
Björn Vignir Sæmundsson frá
Svínadal, allur langt fyrir aldur
fram. Hann hafði um langa tíð bar-
ist við hinn banvæna sjúkdóm sem
herjar á menn, hvort heldur unga
sem aldna. Þrátt fyrir það stóð
hann keikur við vinnu fram á síð-
ustu stund.
Björn var sá völundur á smíð sem
einkennt hefur ættmenn hans alla,
hvort heldur var á tré, járn eða vél-
ar. Þeir tóku upp merkið af Bjarna
frá Hólmi, byggðu túrbínur úr
strandjárni, settu upp rafstöðvar
víða um land og komu á sam-
göngum á Suðurlandi með ein-
stökum brúarframkvæmdum.
Eftir að Björn kom til Víkur setti
hann á fót byggingarfyrirtækið
Klakk ásamt konu sinni, sem þau
hafa síðan rekið með sonum sínum
af mikilli reisn. Konu Björns, Kol-
brúnu Matthíasdóttur, kynntist ég
þegar í æsku. Hún er dóttir Jónínu
Þórðardóttur frá Hryggjum í Mýr-
dal og Matthíasar Einarssonar, hins
færa trésmíðameistara af Þórisholt-
sætt. Fjölskyldan er samhent,
byggði upp öflugt fyrirtæki við erf-
iðar aðstæður eins og allt atvinnulíf
í Mýrdalnum býr við enn í dag. Með
óvenjulegri natni, fórnfýsi og fram-
kvæmdavilja tókst að skapa öflugt
fyrirtæki á skaftfellskan mæli-
kvarða. Fyrirtækið Klakkur stend-
ur fyrir uppbyggingu og þjónustu
við fólk, fyrirtæki og sveitarfélög
um allt Suðurland með miklum
ágætum.
Björn er öllum mikill harmdauði.
Vandvirkni og gæði í verkum hans
eru umtöluð um héraðið endanna á
milli. Hann lagði sig ávallt fram af
lífi og sál um allt sem hann tók sér
fyrir hendur. Þannig tók hann mér
sem viðskiptavini með óvenjulega
vinsamlegum hætti og reyndi eftir
mætti að leysa þau vandamál sem
við stóðum frammi fyrir af hugsjón
frumkvöðulsins, sem vill leggja sig
allan fram í þágu fólksins. Mér þótti
sárt að vita hann þjást, en dáðist
þeim mun meir að því hugrekki sem
hann sýndi þegar hann steig upp
hvað eftir annaðog hélt ótrauður
áfram að sinna þeirri köllun sem
hann helgaði sig allan.
Björn var glæsimenni. Hann bar
með sér einstakan þokka og öllum
leið vel í návist hans. Hann var fag-
maður í besta skilningi hinnar
skaftfellsku hefðar. En Björn var
líka andríkur og yfirvegaður maður,
með næmt fegurðarskyn og ágætan
húmor.
Við Anna kveðjum Björn með
miklum söknuði. Um leið biðjum við
góðan Guð að blessa Kolbrúnu,
hennar góðu syni og fjölskyldur
þeirra. Veri Björn á Guðs vegum nú
sem áður.
Baldur Óskarsson.
Mér er þungt í sinni er ég sest
niður og minnist vinar míns og ná-
granna, Björns Vignis Sæmunds-
sonar, sem lést hinn 14. nóvember
síðastliðinn, langt um aldur fram.
Þegar ég hugsa til liðinna sam-
verustunda kemur margt upp í
hugann en einna hæst ber hversu
traustur félagi Björn var, hvort
heldur var í leik eða starfi. Betri
nágranni held ég að hafi verið
vandfundinn, óáreitinn og ávallt
tilbúinn að aðstoða ef eitthvað bját-
aði á.
Ég minnist þess þegar ég var að
byggja við húsið mitt og var að
tengja saman þakið á nýja part-
inum við þann gamla og lenti í aus-
andi rigningu. Þá kom Björn með
hamarinn sinn, eftir sinn langa
vinnudag, og spurði hvort hann
gæti nokkuð aðstoðað. Þar er Birni
vel lýst. Annars var það með ólík-
indum hvað honum lá í augum uppi
öll vinnubrögð við byggingar og
verklegar framkvæmdir og var
hann þó ekki skólagenginn á því
sviði. Enda fundu menn fljótt þeg-
ar Björn og hans fjölskylda fóru að
reka byggingarfyrirtækið Klakk hf.
hér í Vík, hversu gott var að leita
til Björns varðandi ráðleggingar,
útvegun á efni og smíðar. Þá hefur
fyrirtækið verið mikil lyftistöng
fyrir atvinnulífið í þessu litla bæj-
arfélagi.
Björn var sérlega skemmtilegur
ferðafélagi og minnist ég margra
fjalla- og veiðiferða sem við fórum
saman í. Í þeim ferðum var Björn
ávallt sá besti að leita til ef eitthvað
bjátaði á eða óvænt kom upp á.
Eftir 35 ára nágrenni er komið
að leiðarlokum og sá tími virðist
hafa liðið svo ótrúlega hratt þegar
ég minnist þessa góða drengs. Við
fjölskyldan á Ránarbraut 11 viljum
votta Kolbrúnu, Matthíasi, Inga
Má og fjölskyldum þeirra okkar
dýpstu samúð.
Birgir Hinriksson.
BJÖRN VIGNIR
SÆMUNDSSON
✝ Sigurlaug Mar-grét Eðvarðs-
dóttir fæddist á
Helgavatni í Vatns-
dal 16. ágúst 1914.
Hún lést 16. nóvem-
ber síðastliðinn.
Foreldrar hennar
voru hjónin Signý
Böðvarsdóttir og
Eðvarð Hallgríms-
son á Helgavatni.
Sigurlaug ólst upp í
hópi systkina sinna
sem voru fimm að
tölu: Albert, f. 23.
júní 1909, d. 4. júlí 1940, Stef-
anía, f. 4. des. 1910, d. 30. ágúst
1985, Hallgrímur, f. 14. mars
1912, d. 18. nóv. 2000, og Að-
alheiður, f. 26. ágúst 1920, d. 23.
jan. 1987.
Sigurlaug stundaði nám við
Kvennaskólann á Blönduósi í
einn vetur. Annars vann hún á
búi foreldra sinna þar til hún
giftist Jóhannesi Hinrikssyni (f.
21. jan. 1904) árið 1937 en þau
hófu búskap að Hólabaki í Þingi
en fluttu eftir sex ár til Skaga-
strandar og settust að í Háa-
gerði. Árið 1947 keyptu þau
jörðina Ásholt í Höfðakaupstað
þar sem þau bjuggu þar til Jó-
hannes lést 27. okt. 1973. Börn
þeirra Sigurlaugar og Jóhann-
esar eru: 1) Drengur, óskírður, f.
30. nóv. 1939, d. 1.
des. sama ár. 2) Eð-
varð, f. 2. nóv.
1941, kvæntur Mar-
gréti Sigurgeirs-
dóttur, f. 23. ágúst
1944, og eiga þau
þrjú börn og átta
barnabörn. 3)
Helga M., f. 17. nóv.
1943, gift Sveini S.
Ingólfssyni, f. 14.
ágúst 1941, og eiga
þau þrjú börn og
fjögur barnabörn.
4) Hinrik, f. 15. des.
1952, kvæntur Svövu Svavars-
dóttur, f. 14. sept. 1950, og eiga
þau tvö börn og þrjú barnabörn.
Fljótlega eftir lát Jóhannesar
seldi Sigurlaug jörðina og flutti
til Reykjavíkur þar sem hún
gerðist ráðskona á heimili Helga
Daníelssonar. Á sumrin vann hún
á ferðaskrifstofu Guðmundar
Jónassonar. Um sjötugsaldur
keypti Sigurlaug íbúð í Breið-
holti í húsi sonar síns og tengda-
dóttur þar sem hún bjó í átta ár.
Árið 1993 flutti Sigurlaug á
Dvalarheimilið Sæborg á Skaga-
strönd þar sem hún bjó til dauða-
dags.
Sigurlaug verður jarðsungin
frá Hólaneskirkju á Skagaströnd
í dag og hefst athöfnin klukkan
13.30.
Elsku amma, þá er þinni vist á
þessari jörð lokið og þú er komin til
afa, sem lengi hafði verið ósk þín.
Ævin var orðin löng og veikindi farin
að hrjá þig. Sorg mín er þess vegna
ekki eins mikil, heldur er það sökn-
uður sem ég ber í hjarta mínu. Ég
veit að þú munt fylgjast með mér og
vernda líkt og afi hefur lengi gert.
Ég á minningarnar og í hjarta ég
geymi þig.
Kveðja.
Jóhannes Bjarni.
Langamma.
Lengi lifði gamla sú
sem syrgjum við hér og nú,
allir elskuðu voða heitt,
en var hún orðin allt of þreytt.
Heimabærinn Skagaströnd
hélt alltaf tryggðarbönd.
Jóhannes elskaði út í eitt
og börnum sínum afar heitt.
En farinn er hún nú
til Guðs okkar trú.
Vaki hún yfir oss dag og nótt
þar til við verðum líka sótt.
Una Hildardóttir.
SIGURLAUG
EÐVARÐSDÓTTIR