Fréttablaðið - 26.04.2003, Blaðsíða 32

Fréttablaðið - 26.04.2003, Blaðsíða 32
Ég er svona að fara hægt og ró-lega af stað aftur í söngnum eftir að hafa eignast fyrsta barnið mitt í byrjun febrúar,“ segir Kristjana Stefánsdóttir djass- söngkona. Ragnheiður Lóa Ólafs- dóttir heitir stúlkan sem kom í heiminn 2. febrúar. „Ég hef tekið því rólega að mestu frá því í desember. En al- veg fram að jólum var ég á fullu eiginlega. Jólamánuðurinn er alltaf mjög annasamur, maður er að jólast út um allt einhvern veg- inn. Svo var ég að kenna alveg fram á síðasta dag í FÍH. Dóttir mín fæddist aðeins fyrir tímann. Ég kom heim úr vinnunni klukkan sjö um kvöldið og vatnið fór þá um nóttina.“ Nú þegar dóttirin er að verða þriggja mánaða finnst Kristjönu tími kominn til að fara aftur af stað, þótt rólega sé keyrt til að byrja með. „Þetta eru engin veikindi að eignast barn, maður er alveg heil- brigður. Ég er byrjuð að kenna aftur og er svo með þessa tónleika í Norræna húsinu núna síðdegis í dag.“ Þrjár söngdívur Í Norræna húsinu ætlar Krist- jana að syngja lög sem söngdív- urnar Ella Fitzgerald, Sarah Vaughan og Nancy Wilson gerðu fræg á sínum tíma. Með henni spila þeir Agnar Már Magnússon píanóleikari, Gunnar Hrafnsson bassaleikari og Erik Qvick trommuleikari. „Þetta eru tíu lög sem ég syng, flest komin frá Ellu Fitzgerald en svo skýt ég inn á milli lögum frá hinum tveimur. Þetta er mjög hefðbundinn djass og fullkomlega í anda þessara söngkvenna.“ Kristjana segir að þessar söng- konur hafi allar haft mikil áhrif á sig. „Þetta er sú tónlist sem ég hlustaði á þegar ég var að byrja að hlusta á djass. Þær eru dásam- legar söngkonur allar þrjár. Ella er kannski stærsta nafnið hér á landi, þökk sé Jóni Múla. Nancy er hins vegar þekktari úti í Evrópu og í Bandaríkjunum. Hún gerði ógleymanlega plötu með Cannon- ball Adderley og þessi eina plata nægir alveg til þess að Nancy sitji í manni.“ Tvær vikur í Hollandi Í september síðastliðnum brá Kristjana sér til Hollands þar sem hún söng með hollenskum kvint- ett á tónleikaferðalagi undir yfir- skriftinni „Kristjana Swings the Divas“. Þar söng hún einmitt þessi sömu lög og hún ætlar að leyfa Íslendingum að heyra í Nor- ræna húsinu. „Landinn er samt ekki búinn að heyra þetta prógram þannig að við ákváðum að dusta af því rykið. Mér finnst gott að byrja á því að rifja bara upp þessi lög sem ég þekki síðan í haust.“ Kristjana ferðaðist með kvint- ettinum vítt og breitt um Holland. Samtals voru haldnir tíu tónleikar á tveimur vikum. „Í þessum kvintett eru strákar sem ég kynntist meðan ég var í námi þarna úti í Hollandi. Saxó- fónleikarinn Jasper Staps hringdi í mig og bauð mér að koma út. Við héldum tónleika á klúbbum úti um allt landið.“ Kristjana segir ekki síst hafa verið gaman að vinna með trompetleikarann Michael Varen- kamp í þessari ferð. „Hann er orð- inn stórt nafn úti í Hollandi. Hann er af súrínömskum ættum, svart- ur strákur og spilar og syngur í anda Louis Armstrong án þess þó að vera bara að herma neitt eftir honum beinlínis, hann gerir þetta alveg á sínum forsendum.“ Stelpujazz Kristjana gaf út fyrstu sóló- plötuna sína árið 2001. Hún hét einfaldlega Kristjana og fékk glimrandi dóma víðast hvar. Nú í nóvember kom svo út platan Fagra veröld, þar sem Kristjana söng lög eftir Sunnu Gunnlaugs- dóttur við ljóð eftir Tómas Guð- mundsson, Stein Steinarr, Sigur- björgu Þrastardóttur og fleiri. „Þetta er svona stelpudjass,“ segir Kristjana. „Ofsalega ljóð- ræn og falleg tónlist. Það er miklu meiri mýkt yfir þessari plötu heldur en fyrstu plötunni minni, sem er hrjúfari og harðari. Fyrri platan er líka hefðbundnari en platan hennar Sunnu er meira módern ljóðamúsík.“ Sunna lék sjálf á píanóið á nýju plötunni og Sigurður Flosason spilaði á saxofón. „Svo mætti Sunna í upptökurn- ar með stórstjörnu frá New York, bassaleikara sem heitir Drew Gress og er eitt stærsta nafnið í nútímadjassi þar í borg. Svo er hún gift bandarískum trommu- leikara sem spilaði líka á plötunni, Scott McLemore, þannig að þetta voru miklar kanónur allt saman.“ Komin á spjöld sögunnar Óhætt er að segja að Krist- jana sé komin á spjöld sögunnar sem fyrsta íslenska atvinnu- söngkonan í djassi. Því til staðfestingar má fletta upp í lokabindinu í þriggja binda verki Illuga Jökulssonar, Ísland í aldanna rás, sem kom út nú fyr- ir jólin. „Meira að segja þar rakst ég á grein um mig,“ segir Kristjana og er ekki laust við að undrunar gæti í röddinni. Kristjana kennir nú söng við djassdeildina í Tónlistarskóla FÍH. Forveri hennar við deildina var kanadíska söngkonan Tena Palmer. „Tena Palmer var búin að vera hér í nokkur ár en er lögst í tónleikaferðalög til Hollands og Kanada. Hún er mjög flink tón- listarkona, útsetur lög og spilar á saxofón líka held ég.“ Á undan Tenu var það Jóhanna Linnet sem sá um söngkennsluna við djassdeildina. Margar á leiðinni Þótt Kristjana sé fyrsta ís- lenska atvinnusöngkonan sem haslar sér völl í djassheiminum er engin hætta á að hún verði sú eina, því strax á næstu misser- um má búast við fleiri lærðum íslenskum djasssöngkonum fram á sjónarsviðið. „Það virðist vera mikill áhugi á þessu núna. Ég er með ellefu stelpur í djassdeildinni í tónlist- arskóla FÍH, og svo eru fjörutíu manns á biðlista.“ Kristjana segist reyndar hafa nokkrar áhyggjur út af nýrri reglugerð, sem takmarkar að- gang að Tónlistarskóla FÍH þannig að þar eiga einungis nemendur búsettir í Reykjavík rétt á að stunda nám. Reyndar geta aðrir komist að ef sveitar- félag viðkomandi fellst á að greiða fyrir námið. Engin vissa er þó fyrir því að um semjist í öllum tilvikum. „Ég vona samt að það gangi, því ég er með margar flottar dömur utan af landi að læra hjá mér í skólanum.“ Byrjaði á sveitaböllunum Nú í vor er svo ein íslensk söngkona að ljúka námi úti í Hollandi í djasssöng við sama skóla og Kristjana var í. Sú heitir Guðlaug Dröfn Ólafsdóttir. „Hún er dóttir Labba sem var í Mánum, sem er nú minn lærifaðir í rauninni. Ég byrjaði átján ára að syngja á sveitaböllum með Labba og fékk þar mikið og gott uppeldi. Svo var ég það heppin að Karl heitinn Sighvatsson var organisti í Hveragerðiskirkju þegar ég var að klára stúdentinn frá Fjöl- brautaskóla Suðurlands. Hann dró mig inn í djassinn ef svo má segja. Eftir sveitaballabröltið fór ég reyndar af stað og dreif mig í söngnám í Söngskólanum og kláraði þar áttunda stig, var sex ár að stúdera þar. En djassinn var alltaf eitthvað svo spennandi.“ Framhjáhaldið olli tog- streitu Kristjana viðurkennir að ákveðin togstreita hafi verið á milli djasssöngsins og klassíska söngsins meðan á náminu stóð. „Sérstaklega síðasta árið þegar maður var að gera upp við sig hvað maður í raun og veru vildi. Ég var líka alltaf að syngja ein- hvers konar djass eða popp með- fram, var alltaf í bölvuðu fram- hjáhaldi. Söng mikið raddir og auglýsingar fyrir sjónvarp og út- varp og teiknimyndir. Kennarinn setti mér svo stólinn fyrir dyrnar þegar ég var að undirbúa loka- prófið og sagði að ég yrði að ein- beita mér að því. Ég lagðist því síðustu mánuðina alveg í námið í skólanum.“ Eftir sex ára nám í Söngskólan- um hélt Kristjana til náms í djasssöng í Hollandi. „Ég ætlaði að prófa það og sjá til hvernig gengi. En þegar ég kom þarna út í djassinn var eins og ég væri kom- in heim. Reyndar var ég hálf- svekkt fyrstu tvö árin. Það var enginn kennari sem passaði al- mennilega fyrir mig. Ég kom því heim í eitt ár, en vissi af kennara í Haag sem ég fór svo til og gat klárað þar á einu ári.“ Lögin hans Tómasar R. Kristjana ætlar ekki að sitja aðgerðalaus á næstunni, frekar en venjulega. Meðal annars ætlar hún að ferðast eitthvað um landið með félögum sínum að flytja lögin þeirra Ellu, Söruh og Nancy. Í júlí ætla þau Agnar Már pí- anóleikari svo að flytja lög bassa- leikarans Tómasar R. Einarssonar á tónleikum í Listasafni Sigurjóns og fá þar til liðs við sig Helgu Björk Ágústsdóttur sellóleikara. „Tómas hefur samið svo rosa- lega mikið af alveg dásamlegri tónlist. Þetta er samt mikil vinna, það er ekkert grín að brjótast í gegnum laglínurnar hans þótt þær séu mjög fallegar. Hann er flóknari en maður heldur og kem- ur manni alltaf á óvart.“ gudsteinn@frettabladid.is 32 26. apríl 2003 LAUGARDAGUR Kristjana Stefánsdóttir djasssöngkona fer rólega af stað aftur í söngnum eftir að hafa eignast dóttur í febrúar. Hún er byrjuð að kenna aftur og heldur tónleika í Norræna húsinu í dag. Fyrsta atvinnusöngkonan í djassi – en ekki sú síðasta KRISTJANA STEFÁNSDÓTTIR DJASS- SÖNGKONA Syngur lög Ellu Fitzgerald, Söruh Vaughan og Nancy Wilson í Norræna húsinu í dag. KRISTJANA OG RAGNHEIÐUR LÓA Kristjana hefur tekið því rólega síðan Ragnheiður fæddist. ■ TÓNLIST FR ÉT TA B LA Ð IÐ /B IL LI Iðnaðarlóð óskast til leigu á höfuðborgarsvæðinu. Vegagerðin óskar eftir húsnæði og lóð til leigu fyrir þjónustumiðstöð Reykjanesumdæmis. Lóðin skal vera afgirt, u.þ.b. 8.000-10.000 m 2 , staðsett í útjaðri höfuðborgarsvæðisins, með mjög gott vegasam- band við annað hvort Hringveginn (Vesturlandsveg, Suð- urlandsveg) eða Reykjanesbraut. Húsnæði á lóðinni skal vera tvískipt, annars vegar um 150 m2 skrifstofur og hins vegar um 300 m2 véla- og tækjasalur. Lóðin skal vera staðsett í útjaðri höfuðborgarsvæðisins, með mjög gott vegasamband við annað hvort Hringveg- inn (Vesturlandsveg, Suðurlandsveg) eða Reykjanes- braut. Lóðin, ásamt húsnæðinu, skal vera tilbúin til afhending- ar eigi síðar en 1. apríl 2004. Leigusamningur verður skal gerður til 10 ára. Áhugasamir sendi inn upplýsingar um húsnæði og lóð og áætlaða leigu fyrir 12. maí n.k. merkt Vegagerðin, Daníel Árnason rekstrar- deild, Borgartún 7, 105 Reykjavík.

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.