Fréttablaðið - 24.09.2004, Side 2
2 24. september 2004 FÖSTUDAGUR
Flugvél missti afl og endaði í fjörunni við flugvöllinn:
Flugmaður á gjörgæslu
FLUGSLYS Flugmaður lítillar eins
hreyfils flugvélar af gerðinni
Cessna 152 er á gjörgæslu eftir
að stutt flugferð hans endaði í
fjörunni við norðurenda flug-
brautarinnar á Akureyri.
Flugmaðurinn, sem ætlaði að
fara í hálfrar klukkustundar
flugferð um nágrenni Akureyr-
ar, tók á loft skömmu fyrir
klukkan ellefu í gærmorgun.
Skömmu eftir flugtak missti
flugvélin afl og brá flugmaður-
inn þá á það ráð að lenda vélinni
við enda flugbrautarinnar. Flug-
vélin kom niður við öryggis-
svæðið á norðurenda flugbraut-
arinnar og rann þaðan út af flug-
brautinni og niður í fjöru.
Slökkvilið og lögregla voru
strax kölluð út en þegar þau
komu á vettvang hafði flugmað-
urinn komið sér út úr flugvél-
inni af sjálfsdáðum. Hann var
fluttur með sjúkrabíl á Fjórð-
ungssjúkrahúsið á Akureyri.
Ekki er að fullu ljóst hvað olli
því að flugvélin missti afl en
Rannsóknarnefnd flugslysa fer
með rannsókn málsins.
Samkvæmt upplýsingum frá
vakthafandi lækni á Fjórðungs-
sjúkrahúsinu fótbrotnaði mað-
urinn og fór hann í aðgerð í gær.
Líðan hans er eftir atvikum en
hann er ekki talinn í lífshættu. ■
Hafró undan
valdi ráðherra
Formaður Samfylkingarinnar vill að rannsóknastofnanir atvinnuveg-
anna færist undir viðeigandi háskóladeildir. „Sovésk kredduhugsun“
þrífst hjá Hafró, segir hann. Formaður sjávarútvegsnefndar ósammála.
STJÓRNMÁL Össur Skarphéðinsson,
formaður Samfylkingarinnar,
segir ástæðu til að kanna hvort
ekki sé rétt að færa starfsemi
rannsóknastofnana atvinnuveg-
anna undan viðkomandi fagráðu-
neytum. Össur nefnir sem dæmi
það sem hann kallar „sovéska
kredduhugsun“ hjá „Hafró“ eins
og Hafrannsóknastofnunin er
nefnd í daglegu tali. „Það er engu
líkara en það sé einhvers konar
ríkistrú sem menn séu beygðir
undir í hafrannsóknum, þar sem
allir virðast verða að hafa sömu
skoðun.“
Össur nefnir einnig að alþing-
ismenn hafi haft aðgang að ein-
stökum starfsmönnum stofnun-
arinnar en nú hafi verið girt
fyrir það; allt verði að fara í
gegnum forstjórann.
„Ég tel í rauninni ekki eðlilegt
að rannsóknir á ástandi auðlinda
og ákvarðanir um nýtingu þeirra
séu á sömu hendi“, segir Össur:
„Hér er í rauninni um hagsmuna-
árekstur að ræða“. Samfylking-
arformaðurinn telur að færa
verði Hafrannsóknastofnunina
undan beinu boðvaldi ráðherra
enda þótt ekki sé bein lína frá
ráðherra til einstakra starfs-
manna stofnunarinnar. „Ég tel
betra að rannsóknir atvinnuveg-
anna færist til háskólans því þar
eru menn algjörlega frjálsir. Ég
held að með þessu yrði mikill
kraftur leystur úr læðingi.“
Guðjón Hjörleifsson, formað-
ur sjávarútvegsnefndar Alþing-
is, er ekki sammála Össuri. „Ég
held að það sé fullkomlega eðli-
legt að Hafrannsóknastofnunin
heyri undir ráðherra, þar sem
mikið samspil er milli ráðuneyt-
isins og stofnunarinnar þegar
kemur að ákvörðun aflaheimilda
á grundvelli vísindalegrar ráð-
gjafar. Að mínu viti væri það
óeðlileg skipan mála ef stofnunin
heyrði ekki undir ráðuneytið,“
sagði Guðjón og benti á að nú
þegar væri til staðar samstarf
Hafrannsóknastofnunarinnar og
háskóladeilda, til dæmis við Há-
skólann á Akureyri.
a.snaevarr@frettabladid.is
KOMA TIL HJÁLPAR
Hermenn komu blaðamanni til aðstoðar
eftir að hann var skotinn.
Ráðist á varðstöð:
Sex féllu í
skotbardaga
GAZASTRÖND, AP Þrír palestínskir
vígamenn skutu þrjá ísraelska
hermenn til bana áður en þeir
féllu sjálfir fyrir skotum her-
manna í gærmorgun. Vígamenn-
irnir höfðu læðst inn á ísraelska
varðstöð við landnemabyggðina
Morag á sunnanverðu Gaza-svæð-
inu og hafið skothríð á hermenn.
Skotbardaginn stóð yfir í um 45
mínútur. Auk þeirra sem létust
særðist einn ísraelskur hermaður
lífshættulega. ■
„Nei, það er allt í lagi. Þeir hafa
þvílíkt langlundargeð, blessaðir.“
Sveinn Andri Sveinsson hæstaréttarlögmaður fer
fyrir hópi lögmanna sem hefur hrundið af stað und-
irskriftasöfnun til stuðnings Jóni Steinari Gunnlaugs-
syni hæstaréttarlögmanni vegna skipunar dómara
við Hæstarétt, en Jón hlaut ekki náð fyrir augum
sitjandi dómara við réttinn í umsögn þeirra.
SPURNING DAGSINS
Sveinn Andri, er ekki frekar óskyn-
samlegt að vera að ergja dómarana
með þessum hætti?
Ríkislögreglustjóri:
Um tólf
hundruð
fíkniefnabrot
FÍKNIEFNABROT Tæplega tólf hundruð
ætluð brot á fíkniefnalöggjöfinni
hafa komið á borð lögreglu frá ára-
mótum, að því er fram kemur í frétt
frá embætti Ríkislögreglustjóra.
Allt síðasta ár voru skráð 1.385
fíkniefnabrot en þau eru nú orðin
1.185 það sem af er árinu.
Flest brotanna í ár varða vörslu
og neyslu fíkniefna, 837 brot, en
fæst brotin falla undir framleiðslu,
eða 24 brot. Hald hefur verið lagt á
34,6 kíló af hassi, 15,3 kíló af am-
fetamíni, tæp þrjú kíló af kókaíni og
um 7.500 e-töflur. Miðað við undan-
farin ár er umtalsverð aukning á
magni amfetamíns sem hald hefur
verið lagt á. ■
ÖSSUR SKARPHÉÐINSSON
Hagsmunaárekstur að sami aðili meti ástand auðlindar og ákveði nýtingu hennar.
DÓMSMÁL Tryggingastofnun ríkis-
ins var sýknuð í gær í Héraðs-
dómi Reykjavíkur af kröfum Al-
þýðusambands Íslands um viður-
kenningu á rétti foreldra í fæð-
ingarorlofi til orlofslauna úr
Fæðingarorlofssjóði á þeim tíma
sem þeir eru í fæðingarorlofi.
ASÍ höfðaði í ársbyrjun mál á
hendur TR og setti fram kröfur
um að viðurkennt yrði með dómi
að foreldrar í aðildarfélögum
ASÍ, sem ávinna sér ekki rétt á
orlofslaunum í launalausu fæð-
ingarorlofi úr hendi launagreið-
anda, eigi rétt á orlofslaunum úr
Fæðingarorlofssjóði. Trygginga-
stofnun hafnaði kröfunni og Hér-
aðsdómur Reykjavíkur hefur nú
tekið undir þann rökstuðning að
orlofslaun greiðist eingöngu
vegna launagreiðslna, ekki af
orlofslaunum, og því greiðist
orlofslaun ekki vegna greiðslna í
fæðingarorlofi. Í dómnum segir
að ekki verði fallist á að lög eða
aðrar reglur leiði til þess að for-
eldrar eigi þann rétt sem Alþýðu-
sambandið krefst í málinu að
verði viðurkenndur.
Málskostnaður var felldur
niður. ■
SÝKNUN
Tryggingastofnun þarf ekki að fara að kröfum ASÍ, samkvæmt niðurstöðu Héraðsdóms.
Tryggingastofnun sýknuð í Héraðsdómi Reykjavíkur í fæðingarorlofsmáli:
Kröfu um orlofslaun hafnað
GUÐJÓN HJÖRLEIFSSON
Óeðlilegt ef stofnunin heyrði ekki undir
ráðuneytið.
Kærunefnd jafnréttismála:
Stöð 2 braut
jafnréttislög
JAFNRÉTTISMÁL Kærunefnd jafnrétt-
ismála hefur úrskurðað að Ís-
lenska útvarpsfélagið og yfir-
menn fréttastofu Stöðvar 2 hafi
brotið jafnréttislög fyrir rúmu ári
þegar fjórum fréttakonum var
sagt upp störfum.
Uppsagnirnar voru skýrðar
þannig að verið væri að hagræða í
rekstri og var sagt að starfsaldur
hefði ráðið mestu. Fréttastofa
Stöðvar 2 greindi frá því í gær að
í það minnsta þrír karlar með
styttri starfsaldur hefðu unnið á
fréttastofunni þegar konunum
var sagt upp. ■
42 mánaða fangelsi:
Nauðgari
dæmdur
DÓMSMÁL Hæstiréttur hefur dæmt
karlmann til þriggja og hálfs árs
fangelsisvistar fyrir að halda
fyrrum sambýliskonu sinni nauð-
ugri í íbúð hennar og nauðga
henni þrívegis auk þess að
skemma ýmsar eignir hennar. Þá
á hann að greiða konunni 1,4 millj-
ónir króna í skaðabætur.
Maðurinn neitaði sök en sýnt
þótti að hann hefði haldið konunni
gegn vilja hennar í sex og hálfa
klukkustund, beitt hana ofbeldi og
neytt hana til samfara hvort
tveggja með ofbeldi og hótunum
um ofbeldi.
Eftir að maðurinn var sakfelld-
ur í héraðsdómi framvísaði hann
yfirlýsingu frá konunni þar sem
hún dró kæru á hendur honum til
baka. Á sama tíma kærði hún
hann fyrir að neyða sig til að
undirrita yfirlýsinguna. ■
FLUGVÉLIN Í FJÖRUNNI
Engum var hleypt nálægt slysstaðnum þegar Rannsóknarnefnd flugslysa var þar að rann-
saka tildrög slyssins.