Fréttablaðið - 22.06.2005, Síða 34
MIÐVIKUDAGUR 22. JÚNÍ 2005 MARKAÐURINN10
F R É T T A S K Ý R I N G
KredittBanken í Álasundi, sem er alfarið í
eigu Íslandsbanka, leggur mikla áherslu á
sjávarútveg. Kjartan Ólafsson fer fyrir
sjávarútvegssviði bankans en hann starfaði
áður sem viðskiptastjóri hjá Íslandsbanka
með áherslu á alþjóðasjávarútveg. Hann nam
í Tromsö og er öllum hnútum þaulkunnugur
þegar kemur að því að ræða um norskan
sjávarútveg og horfurnar í greininni.
KRAFA UM HAGKVÆMNI
Kjartan segir að undanfarin áratug hafi
Norðmenn tekið skref til hagræðingar í
sjávarútvegi, enda var það óumflýjanlegt
eftir langt tímabil tapreksturs. Landvinnslan
hefur verið gerð upp með tapi, sem og útgerð-
in. Eina útgerðarformið sem hefur verið að
gera það gott er uppsjávarveiðar, það er veið-
ar á kolmunna, síld og makríl.
Nú hefur verið opnað fyrir ákveðnar
breytingar í norskum sjávarútvegi sem eiga
að auka hagkvæmni greinarinnar. Í mars á
þessu ári var frystitogurum og togurum leyft
sameina þrjá kvóta á eitt skip. Sams konar
breyting átti sér stað um áramótin í smábáta-
útgerðinni. Einn kvóti í kerfinu er um það bil
1.500 tonn. Í gamla kerfinu dugði einn kvóti
togara í þrjá mánuði. Einnig var opnað meira
fyrir tilfærslur þó þannig að hluti af kvóta er
löndunarskyldur á ákveðnum stöðum. „Áður
fyrr var kerfið mjög þungt í vöfum. Óheimilt
var erfitt að færa kvóta á milli skipa og gerð-
ar miklar kröfur um hvar aflanum væri land-
að. Það mátti ekki færa kvóta frá Norður-
Noregi til suðurs þótt það hafi mátt færa frá
suðri til norðurs,“ segir Kjartan.
Mun betri nýting næst á fiskiskipaflotan-
um og fiskistofnunum með þessum breyting-
um. Nú verður hægt að gera sama skipið út
allt árið um kring og veiða aflann jafnar á ár-
inu, sem stuðlað að því að gæði fisksins
aukast og afurðaverð hækkar.
Smábátarnir eru kallaðir strandveiðiflot-
inn og fiska um 70 prósent af öllum afla sem
er landaður á markaði. Kjartan segir að þessi
hlutföll lýsi mjög vel norskum kúltúr. Það er
eftirsóknarvert að eiga skip og stunda dálitla
sjósókn, það er að geta veitt síld og þorsk,
einkum yfir vertíðina.
SAMFÉLAGSLEGT VÆGI
Stóri munurinn á norskum og íslenskum sjáv-
arútvegi er tvenns konar: Í Noregi er alveg
skilið á milli veiða og vinnslu. Útgerðin verð-
ur að vera í eigu sjómanna, það er þeirra sem
hafa haft sjómennsku að aðalstarfi á síðustu
þremur árum af fimm. Þeir einir mega vera
skráðir fyrir kvóta á skip. Hitt sem skilur að
er svokölluð löggjöf frá 1938 sem segir að all-
ur fiskur verður að fara á markað. Allar
breytingar sem síðar hafa orðið má skýra af
þessu tvennu.
Markmiðið með norsku fiskveiðistjórn-
unarlögunum er ferns konar. Í fyrsta lagi að
tryggja sjómanninum atvinnu en norskir
sjómenn eru þrisvar sinnum fleiri en þeir ís-
lensku. Byggðarsjónarmið vega þungt á
metunum og á sjávarútvegur að tryggja at-
vinnu með ströndinni og í nyrstu héruðun-
um. Eðlileg endurnýjun fiskistofnanna
skiptir miklu máli þannig að auðlindin sé vel
nýtt og sjálfbær. Fjórði þátturinn er hag-
kvæmni og hagkvæm nýting. „Þú sérð það
sjálfur að þessir fjórir þættir fara illa
saman og erfitt að hámarka hvern og einn,“
segir Kjartan. „Breytingar verða ekki innan
kerfisins án þess að þær komi ekki illa við
aðra þætti. Frystihúsum í Noregi hefur
fækkað úr 54 niður átta á fáeinum árum og
fólki hefur fækkað á mörgum stöðum sem
gera út á fiskveiðar. Það er lán í óláni að
olíuiðnaðurinn hefur á sama tíma verið að
færast norður á bóginn og komið í staðinn,“
segir hann.
FJÖLGUN Í KAUPHÖLL
Á sama tíma og skráðum sjávarútvegs-
félögum hefur fækkað ört í íslensku kaup-
höllinni er þróunin þveröfug í Noregi. Nú eru
fimm útgerðarfélög skráð í norsku kauphöll-
ina og hafa þau gert góða hluti á undanförn-
um vikum. Kjartan nefnir að seint í apríl hafi
Aker Seafoods, stærsta sjávarútvegsfyrir-
tækið í veiðum og vinnslu á Norður-Atlants-
hafi, verið skráð á markað. Félagið veltir 25
milljörðum norskra króna og er markaðs-
verðmæti þess um sautján milljarðar króna.
Á dögunum keyptu íslenskir fjárfestar
skuldabréf í Aker Seafoods fyrir fjóra millj-
arða króna. Íslandsbanki sá um útboðið í sam-
vinnu við DnB Nor.
Flestir telja að hér sé um mjög jákvæða
þróun ræða og fjölmiðlar eru farnir að beina
sjónum sínum að sjávarútvegi. „Pan Fish,
sem hefur verið vandræðabarn í norsku fisk-
eldi og hrundi þegar fiskeldið lenti í hvað
mestu basli, hefur rokið upp síðustu vikurnar.
John Fredriksen, ríkasti maður Noregs,
keypti um helmingshlut í því á dögunum.
Þessi maður hefur aldrei fengist við sjávar-
útveg þannig að þetta er mjög jákvætt fyrir
greinina,“ bendir Kjartan á.
Fyrir utan Aker Seafood og Pan Fish eru
fyrir í norsku kauphöllinni Domstein, sem
stundar veiðar og vinnslu á villtum tegund-
um, fiskeldisfélagið Fjord Seafood og Leröy
Seafood, sem eru norsku sölusamtökin. Leröy
er sterkt og stöðugt félag sem hefur alltaf
skilað jákvæðri afkomu þrátt fyrir mikila
erfiðleika í atvinnugreininni á undanförnum
árum.
Kjartan býst við frekari fjölgun skráðra
útgerðarfyrirtækja á næstu tveimur árum og
telur að hagræðingin í sjávarútvegi verði
mun hraðari fyrir vikið og opni leið fyrir nýtt
folk inn í greinina.
ÍSLAND MIKIL FYRIRMYND
Norðmenn hafa verið að átta sig á því að
þeir eru tíu til fimmtán árum á eftir Íslend-
ingum í sjávarútvegi og þær breytingar sem
hafa orðið á fiskveiðakerfi þeirra tekur mið
af því íslenska. Arðsemin í íslenskum
sjávarútvegi batnaði mikið eftir að kerfi
frjálsra framsala aflaheimilda var komið á
fót. Framlegðarhlutfall hækkaði meðal ann-
ars úr fimm prósentum í 25 á tíu árum.
Þannig gat útgerðin fært kvóta á milli skipa
og veitt á færri skip. Stjórnendur Aker
Seafoods telja að í nýja kerfinu geti sparast
þrír til fjórir milljarðar króna með því að
fækka skipum úr sautján í 10-12.
„Norðmenn horfa mjög til Íslands við
breytingar sínu fiskveiðistjórnunarkerfi og
spyrjast mikið fyrir hjá Íslandsbanka um
hitt og þetta. Þeir hafa áhuga á að skoða
hvernig við högum okkar kerfi og uppbygg-
ingu fiskistofna.“
Norðmenn líta til Íslands
Norðmenn hafa gert miklar breytingar á sínu fiskveiðistjórnunarkerfi til þess að bregðast við miklum
rekstrarvanda greinarinnar. Kjartan Ólafsson hjá KredittBanken lýsir því í samtali við Eggert Þór
Aðalsteinsson hvernig sjávarútvegurinn er smám saman að færast í átt til þess sem er á Íslandi en
verkefnið er langt í frá auðvelt vegna rómantískrar sýnar og samfélagslegra sjónarmiða.
KJARTAN ÓLAFSSON HJÁ
KREDITTBANKEN Norskur
sjávarútvegur er á mikilli sigl-
ingu þessa dagana. Með
breytingum á fiskveiðistjórn-
unarkerfinu vonast Norð-
menn til að rekstur greinar-
innar batni til muna. Á móti
eru byggðar- og samfélagsleg
sjónarmið í sjávarútvegi ríkj-
andi sem falla ekki endilega
saman við arðsemissjónar-
mið.
Sjávarútvegsfyrirtæki í
norsku kauphöllinni
AKER SEAFOODS
Eitt stærsta útgerðarfélag Noregs
með 30 prósent af togarakvótanum
og helming landvinnslunnar.
Gengishækkun frá áramótum: 20,0%
Markaðsvirði: 17 milljarðar
Hagnaður (2004): 310 millljónir
DOMSTEIN
Félagið stundar veiðar og vinnslu.
Flytur ferskan og frosinn fisk til
Evrópu. Stærsti hluthafinn í Fjord
Seafood með um 15 prósenta hlut.
Gengishækkun frá áramótum: 24,8%
Markaðsvirði: 4,9 milljarðar
* Hagnaður: 80 millljónir
FJORD SEAFOOD
Leiðandi fyrirtæki í laxeldi. Stundar
vinnslu og sölu á laxi og silungi.
Gengishækkun frá áramótum: 30,4%
Markaðsvirði: 23 milljarðar
* Hagnaður: 3.500 millljónir
LERÖY SEAFOOD GROUP
Ein stærstu sölusamtök Noregs í
sjávarútvegi. Stór fjárfestir í fram-
leiðslu sjávarafurða í Noregi,
Svíþjóð og Bretlandi.
Gengishækkun frá áramótum: 39,3%
Markaðsvirði: 19 milljarðar
* Hagnaður: 398 millljónir
PAN FISH
Einn laxeldisframleiðandi í heimi sem
rekur stöðvar í Noregi, Danmörku,
Bandaríkjunum, Færeyjum og víðar.
Gengishækkun frá áramótum: 12,9%
Markaðsvirði: 26 milljarðar
* Hagnaður: 2.400 millljónir
* Á fyrsta ársfjórðungi
▲
Fr
ét
ta
bl
að
ið
/V
al
li