Fréttablaðið - 01.12.2005, Blaðsíða 6
6 1. desember 2005 FIMMTUDAGUR
ENGINN DAGUR EINS
ENGIR TVEIR ÍSLENDINGAR EINS
BÓK EFTIR ÍSLENDINGA
Skálholtsútgáfan
KJÖRKASSINN
Á ríkið að jafna rafmagnskostn-
að fyrirtækja eftir landshlutum?
Já 59%
Nei 41%
SPURNING DAGSINS Í DAG
Ætlarðu til útlanda um jólin?
Segðu þína skoðun á visir.is
SÖFNUN Fjáröflun er hafin fyrir
Særúnu Sveinsdóttur Williams.
Eins og kunnugt er missti Særún
neðan af báðum fótum í bílslysi í
Nebraska í Bandaríkjunum um
miðjan síðasta mánuð. Það eru
fyrrum bekkjarfélagar Særúnar
úr Öldutúnsskóla sem hafa tekið
sig saman og hyggjast koma fram-
lagi til Særúnar fyrir jólin.
„Upphaflega ætluðum við
aðeins að hafa þetta okkar á milli
en þegar við ræddum þetta við
fjölskyldur og vinnufélaga þá kom
á daginn að mjög margir vildu
taka þátt í þessari söfnun,“ segir
Guðfinna Guðmundsdóttir, einn
þeirra bekkjarfélaga Særúnar
sem standa að söfnuninni.
Enn líður Særún talsverðar
kvalir og í gær var fyrirhug-
uð enn ein aðgerð á henni. Hún
segist standa straum af sjúkra-
kostnaði með tryggingum. Á
hinn bóginn sé með öllu óljóst
hvernig hún tekst á við að halda
uppi þremur börnum og heimili.
Særún er einstæð fimm barna
móðir, en tvö barnanna eru upp-
komin.
Söfnunarreikningurinn er
í Sparisjóði Reykjavíkur með
reikningsnúmeri 1150-05-414746
með kennitölu 010560-2689. - saj
Bekkjarfélagar safna fé fyrir Særúnu Sveinsdóttur sem missti fæturna:
Söfnun hafin fyrir Særúnu
SÆRÚN SVEINSDÓTTIR WILLIAMS Særún
missti neðan af báðum fótleggjum í
hörmulegu umferðarslysi í Bandaríkjunum.
Særún býr ein með þremur barna sinna.
DÓMSMÁL Farbann yfir mold-
óvskum manni sem gildir til 7.
desember hefur verið staðfest í
Hæstarétti. Lögreglan í Reykja-
vík fékk í nóvember tilkynningu
um að maðurinn væri hér líklega
á fölsuðu grísku vegabréfi. Hann
var í kjölfarið handtekinn, en
hingað kom maðurinn, ásamt konu
og tveimur börnum, með flugi frá
Færeyjum 24. október.
Í Héraðsdómi Reykjavíkur
neitaði maðurinn því að vera með
fölsuð vegabréf, hann hafi feng-
ið þau með lögmætum hætti og
notað þau í góðri trú. Hjá lögreglu
viðurkenndi maðurinn hins vegar
að vegabréfin væru fölsuð. - óká
Farbannsúrskurður staðfestur:
Moldóvi má
ekki fara héðan
BANDARÍKIN Þótt bandarísk stjórn-
völd geri ráð fyrir að Írakar taki
fljótlega yfir stjórn öryggismála í
landinu hafa þau engin áform um
að slá nokkru föstu um hvenær
Bandaríkjaher snýr aftur heim.
Þetta kemur fram í nýrri stefnu-
skrá stjórnarinnar í málefnum
Íraks.
„Bandaríkin munu ekki snúa
baki við Írak á meðan ég er yfir-
maður hersins,“ sagði George W.
Bush þegar hann kynnti áætlanir
stjórnarinnar í herforingjaskóla
bandaríska sjóhersins í Annapolis í
Maryland í gær. Ræðan er sú fyrsta
í röð ávarpa sem forsetinn hyggst
flytja fram að írösku kosningunum
15. desember til að sýna fram á að
stjórn hans hafi skýra stefnu um
hvernig ná skuli fram sigri í Írak.
Bush lagði áherslu á að uppbygg-
ing íraska hersins gengi svo vel að
brottför Bandaríkjahers væri í
sjónmáli. Hins vegar sagði hann
engin áform um að slá því nákvæm-
lega föstu hvenær brottflutningur-
inn hæfist, því myndu aðstæður í
Írak ráða frekar en „tímaáætlanir
stjórnmálamanna í Washington“.
Fyrr um daginn kynnti Hvíta
húsið „Þjóðaráætlun til sigurs í
Írak“ þar sem efnahagsleg og póli-
tísk markmið Bandaríkjastjórnar
með hernámi Íraks eru tíunduð.
Fátt nýtt var að finna í skýrslunni
heldur voru þar teknar saman
helstu röksemdir fyrir hernaðinum
þar.
Megininntak áætlunarinnar er
að helstu markmið stjórnarinnar
séu að nást en fullnaðarsigur taki
tíma og ýmis ljón séu á veginum.
Gert er ráð fyrir að smám saman
verði dregið úr fjölda bandarískra
hermanna í landinu, en þeir eru
um 160.000 í dag, eftir því sem
stjórnmála- og hernaðaruppbygg-
ing Íraks vindur fram. Staðfesta er
nauðsynleg því annars verður Írak
að griðastað hryðjuverkamanna,
íbúar Mið-Austurlanda munu
aldrei treysta bandarískri íhlutun
aftur og hagsmunir Bandaríkjanna
á svæðinu myndu bíða skipbrot
brjótist borgarastyrjöld út í land-
inu í kjölfar ótímabærs brotthvarfs
hersins.
Rúmlega tvö þúsund banda-
rískir hermenn eru fallnir í Írak
og stuðningur þjóðarinnar við for-
setann og hernámið hefur aldrei
verið minni. AP-Ipsos könnun frá
því fyrr í þessum mánuði sýnir að
62 prósent Bandaríkjamanna eru
andvígir stefnu stjórnarinnar í
Írak og einungis 37 prósent segjast
almennt ánægð með forsetann.
sveinng@frettabladid.is
Herinn ekki frá Írak
fyrr en verkinu lýkur
George W. Bush Bandaríkjaforseti kynnti í gær stefnu stjórnar sinnar í mál-
efnum Íraks. Hann hafnaði því að setja bandaríska herliðinu í landinu nokkur
tímamörk heldur sagði það munu snúa heim þegar aðstæður leyfðu.
FRAM TIL SIGURS 160.000 bandarískir hermenn eru í Írak í dag og segir Bush aðstæður í landinu ráða því hvenær þeir verði kallaðir heim.
ÁLVER Tólf fulltrúar á vegum verk-
efnastjórnar sem heldur utan um
staðarvalsrannsóknir vegna hugs-
anlegs álvers á Norðurlandi héldu
til Kanada síðastliðinn þriðjudag.
Tilgangur ferðarinnar er meðal
annars að skoða álver Alcoa í
nágrenni Montreal og ræða við full-
trúa fyrirtækisins um nýtt álver á
Íslandi.
Tryggvi Finnsson, fram-
kvæmdastjóri Atvinnuþróunarfé-
lags Þingeyinga, á sæti í íslensku
sendinefndinni og segir hann að
álverið sem skoðað verði sé af svip-
aðri stærð og rætt sé um að reisa
á Íslandi. „Þetta er álver með um
200 þúsund tonna ársframleiðslu og
samfélagslegar aðstæður á svæðinu
eru svipaðar og á Norðurlandi,“
segir Tryggvi.
Þrír staðir koma til greina varð-
andi staðsetningu álvers á Norð-
urlandi, Húsavík, Eyjafjörður og
Skagafjörður, og eru fulltrúar frá
öllum svæðunum þremur með í ferð-
inni. „Verkefnastjórnin mun ljúka
sinni vinnu um áramót og ákvörðun
um hvort álver verði reist á Norð-
urlandi, og þá hvar, verður tekin í
byrjun nýs árs,“ segir Tryggvi. - kk
Verkefnastjórn vegna álvers á Norðurlandi:
Skoða álver Alcoa í Kanada
HÚSAVÍK Ein af þeim forsendum sem sagðar eru liggja til grundvallar staðsetningu álvers á
Norðurlandi er samstaða heimamanna og Húsvíkingar vilja ólmir fá álver.