Fréttablaðið - 22.11.2007, Blaðsíða 46
22. NÓVEMBER 2007 FIMMTUDAGUR2 ● fréttablaðið ● hafnarfjörður
Bæjarbíó tók til starfa árið 1945
og hefur frá fyrstu tíð staðið fyrir
reglulegum kvikmyndasýningum,
þótt hlé hafi nokkrum sinnum
verið gert á starfseminni. Húsið
er rekið af Kvikmyndasafni Ís-
lands, sem hefur undanfarið sýnt
þar hvert stórvirkið á fætur öðru.
Næst á dagskrá er kvikmynd
frá árinu 1971 eftir meistara Ing-
mar Bergman, Snertingin eða Be-
röringen eins og hún heitir á frum-
málinu.
Þar segir af sænsku eiginkonunni
og móðurinni Karenu sem tekur
upp ástarsamband við nágranna
sinn, David, en hann er gyðing-
ur sem komst lífs af úr útrýming-
arbúðum nasista. Sambandið veit-
ir henni þó ekki hamingjuna sem
hún vonaðist eftir og loks verður
hún að ákveða hvort hún vill verja
ævinni með David eða snúa aftur
heim til fjölskyldu sinnar.
Með helstu hlutverk fara Elliott
Gould, Bibi Anderson og stórleik-
arinn Max von Sydow sem lék
í mörgum af eftirminnilegustu
myndum Bergmans, þar á meðal
í Sjöunda innsiglinu, Det Sjunde
Inseglet.
Myndin verður sýnd í Bæjar-
bíói laugardaginn 24. nóvember
klukkan 16.00. Miðaverð er 500
krónur. Allar nánari upplýsingar á
www.kvikmyndasafn.is
Í bíó með Berg-
man um helgina
Kvikmyndasýningar eru á þriðjudögum
klukkan 20 og á laugardögum klukkan
16. FRÉTTABLAÐIÐ/HÖRÐUR
Systir Agnes kveikir á kerti í kapellunni í Karmelklaustrinu þar sem bænahald fer meðal annars fram. Nunnurnar verja miklum tíma í bænir og handavinnu þess á milli.
FRÉTTABLAÐIÐ/GVA
Jólaundirbúningur er nú víða
hafinn og er Karmelklaustrið í
Hafnarfirði þar engin undan-
tekning, en þar verja nunn-
urnar nú löngum stundum í
undirbúning fyrir Jólaþorpið í
Hafnarfirði sem verður opnað
á laugardag.
„Hafnarfjarðarbær hafði sam-
band og bað okkur um að vera með
fyrsta árið þegar Jólaþorpið fór af
stað. Fólk tók svo vel á móti okkur
að þetta er orðið að föstum lið. Við
höfum tekið þátt frá byrjun,“ segir
Systir Agnes í Karmelklaustrinu
í Hafnarfirði, þar sem nunnurn-
ar búa sig nú undir þátttöku í Jóla-
þorpinu í ár. Karmelsystur verða
venju samkvæmt með handgerða
muni í Jólaþorpinu, svo sem mynd-
skreytt kerti og jólaskreytingar,
sem hafa notið mikilla vinsælda
um árin. „Ekkert af þessu er fram-
leitt,“ tekur Systir Agnes skýrt
fram. „Allt er handgert og sumt
búið til úr íslenskri náttúru, svo
sem hrauni, mosa og trjágreinum.“
Að sögn Systur Agnesar fer mikil
vinna í handverkið sem allar nunn-
urnar inna af hendi ásamt bæna-
haldi, sem er daglegur hluti af
klausturlífinu eins og algengt er og
veitir íbúum þess mikla gleði.
Þess utan sinna nunnurnar
meðal annars ýmsum húsverk-
um og garðvinnu, en umhverfis
klaustrið er fallegur garður þar
sem þær rækta grænmeti, ávexti,
eins og jarðarber og rifsber, og
blóm. Blómin nota nunnurnar
meðal annars til að skreyta kapell-
una en annars fara þær ekki mikið
út og þá sjaldan meðal fólks.
Með hliðsjón af því vaknar sú
spurning hvort ekki skapist mikil
eftirvænting á meðal Karmel-
systranna vegna þátttökunnar í
Jólaþorpinu þar sem samneytið við
umheiminn verður sjaldan meira
en einmitt þá. „Jú,“ svarar Systir
Agnes yfirveguðum rómi. „En við
höldum þó alltaf okkar ró. Fylgj-
um okkar áætlum og gerum allt í
bænaanda.“ - rve
Allt gert í bænaanda
Meðal þess sem nunnurnar verða með á
boðstólum eru þessi skrautlegu kerti.
Jóladagskrá Bókasafns Hafnar-
fjarðar, Kynstrin öll, er hafin og
dagskráin fjölbreytt að vanda.
Kennsla í borðsiðum, bóka-
upplestur og ilmandi kaffi eru
meðal þess sem er í boði.
„Hér er yfirleitt skemmtileg og
notaleg baðstofustemning. Ljósin
dempuð niður og kveikt á kertum
úti í glugga. Bókahillum ýtt til
hliðar til að veita borðum og stól-
um pláss, sem fólk situr við úti um
allan sal til að hlýða á bókaupp-
lestur. Hér verður síðan rjúkandi
kaffi sem Súfistinn selur.“
Þetta segir Anna Sigríður
Einars dóttir, forstöðumaður Bóka-
safns Hafnarfjarðar, um jóladag-
skrá safnsins, Kynstrin öll, sem
fer nú fram í fimmta sinn. Dag-
skráin hefur verið vel sótt síðustu
ár þótt Anna Sigríður viðurkenni
að aðeins hafi dregið úr henni í
fyrra, hverjar svo sem ástæðurn-
ar kunna að vera. Hún segist þó
reikna með mikilli mætingu í ár.
„Þrjú kvenskáld lásu úr verk-
um sínum í þarsíðustu viku og
Ragnheiður Gröndal söng. Hún
sagðist ekki hafa sungið á jafn vel
sóttri dagskrá og hjá okkur. Það er
því viðbúið að það verði fullt hjá
okkur í kvöld og eins í næstu viku.
Ég held bara að Kynstrin öll séu
að festa sig í sessi.“
Óhætt er að segja að dagskráin
í kvöld verði fjölbreytt en þá mun
Edda Andrésdóttir lesa úr bókinn
Í öðru landi – saga úr lífinu, Yrsa
Sigurðardóttir úr Ösku og Þráinn
Bertelsson úr Englum dauðans. Þá
verður gert hlé en eftir það les Vig-
dís Grímsdóttir úr Sögunni af Bibí
Ólafsdóttur og Lóa Pind Aldísar-
dóttir úr Sautjándanum. Vikuna á
eftir mun Bergþór Pálsson flytja
erindi um veislur og borðsiði í til-
efni af útgáfu nýrrar bókar sinnar,
Vinamót: veislur og borðsiðir.
„Svo má ekki gleyma sýn-
ingu í barnadeildinni sem kallast
Börn og bókalestur,“ segir Anna
Sigríður. „Hún er unnin í sam-
starfi við kennara og nemendur
í Lækjarskóla sem hafa búið til
skúlptúra af fólki að lesa. Sýn-
ingin er hluti af dagskránni, sem
sýnir að Kynstrin öll stendur fyrir
allt mögulegt. Hér ættu allir að
finna eitthvað við sitt hæfi.“
Í því samhengi bendir Anna Sig-
ríður á að safninu hafi einmitt bor-
ist kassi af pólskum bókum. „Við
höfum skammast okkur þegar
Pólverjar kíkja hingað. Þeir nota
mikið netið og langar til að lesa
en hér hefur verið lítið úrval af
bókum á pólsku. Við pöntuðum
því bækur á pólsku og þær eru
komnar í hús.“ Nánar á www.hafn-
arfjordur.bokasafn.is
- rve
Ilmandi kaffi og pólskar bækur
Anna Sigríður Einarsdóttir, Ingibjörg Óskarsdóttir, deildarstjóri barnadeildar á
safninu, og Harpa Rut Harðardóttir og Linda Rós Arnardóttir sem halda utan um
dagskrána. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON
Ljóst er að mikill tími hefur farið í
handavinnuna.
Hafnarborg, menningar- og lista-
stofnun Hafnarfjarðar, verður
með ýmislegt á dagskránni á kom-
andi mánuðum. Meðal annars
spennandi tónlistarviðburði.
Tríó Reykjavíkur verður með
tónleika í húsinu sunnudaginn
2. desember undir yfirskriftinni
Klassísk við kertaljós, þar sem
verk eftir Brahms, Rakhmanínov
og Sjostakovitsj eru meðal ann-
ars á dagskránni. Þess má geta að
Tríó Reykjavíkur er að hefja sitt
átjánda starfsár í samvinnu við
Hafnarborg.
Antonía Hevesi píanóleikari
hefur staðið fyrir hádegis tónleikum
fyrsta fimmtudag hvers mánað-
ar síðan í ágúst, þar sem hún velur
þá listamenn sem koma fram. Ing-
veldur Ýr Jónsdóttir messó sópran
verður gestur Antoníu fimmtu-
daginn 6. desember klukkan 12 á
tónleikum sem bera yfirskriftina
Sópran úr skápnum.
Allar nánari upplýsingar um
viðburðina, listamennina og annað
sem er á dagskrá Hafnarborgar
er að finna á heimasíðunni www.
hafnarborg.is
Klassískir tónar
Það er margt fram undan í Hafnarborg í
Hafnarfirði, þar á meðal ýmsir tónlistar-
viðburðir.