Réttur - 01.01.1986, Qupperneq 56
Allir kannast við Sigfinn á 16 skóm,
hinn landskunna vatnsbera Reykvíkinga.
Það voru ýmsar manneskjur í þorpum og
kaupstöðum um allt land, sem fengust við
þennan starfa, að bera vatn.
Ég ætla nú að minnast með fáeinum
orðum á einn vatnsberann, sem ég þekkti
og kynntist um nokkurra ára skeið.
Það eru nú um 40 ár liðin síðan ég sá
hana Bjöggu gömlu í fyrsta sinn. Mér
varð starsýnt á hana, þar sem hún rogað-
ist áfram með vatnsföturnar. Klæðnaður
hennar var allur hinn nöturlegasti. Gúmmí-
skógarma hafði hún á fótum, þríhyrnu á
höfði. Pilsgopinn trosnaður og óhreinn,
treyjugarmurinn var einnig mjög snjáður.
Stundum klæddi hún sig í háleista utan
yfir skóna, einkum er sleipt var. En oft
vildi verða sleipt í kringum brunninn, ef
frost var.
Þannig var nú útgangurinn á henni
Bjöggu gömlu daglega. Ég sá hana nærri
daglega um 15 ára skeið og alltaf eins
klædda. — Hún Bjagga gamla var ekki
margmál, en ansaði þó glaðlega, ef á
hana var yrt.
Hún sást venjulega á ferli um götur
þorpsins frá því fyrir hádegi og langt fram
á kvöld. Hún bjó ein í ofurlitlum timbur-
skúr, innarlega í þorpinu. Kofinn var rétt
niðri á sjávarkambinum. Fyrir neðan var
stórgrýtis fjara. Þegar hvasst var, eða
brim var, heyrðist þungur niður, þegar
hafaldan skall á fjörusteinum. — Þetta
surg gerði slíkan hávaða að aðkomufólk
sem svaf í húsum á sjávarkambinum, gat
ekki sofið. En íbúar þorpsins létu þetta
ekki á sig fá. Þeir voru þessu svo vanir.
Þetta verkaði á þá eins og rokkhljóð, sem
mörgum fannst í gamla daga svo gott að
sofna við. Það sást aldrei reyk leggja upp
úr reykháfnum á kofanum hennar Bjöggu.
Aldrei vissu menn til að hún keypti neitt
í verslunum, enda kannske átt fáa aura til
að kaupa fyrir. Þó voru það allmargir,
sem gáfu henni aura fyrir vatnsburðinn.
En enginn vissi til að hún keypti nokkurn
tíma nokkuð.
Hún var alltaf í sömu fötunum, að því
er virtist, en þegar þau biluðu, hefur hún
líklega fengið einhverjar notaðar flíkur
gefins hjá góðhjörtuðu fólki. — Menn
voru stundum að undrast hvernig hún
Bjagga gamla héldi starfskröftum, þar
sem hún keypti aldrei neitt matarkyns.
Ekki svo að skilja að henni væri ekki boð-
inn biti í húsunum, sem hún kom í, er
hún var að sækja vatnið, — en mat þáði
hún næstum aldrei. Ef henni var boðinn
biti sagði hún oftast: „Nei, þakka þér
fyrir. En áttu ekki kaffisopa? Er ekki
heitt á könnunni?“ Hún drakk þau ósköp
af kaffi að undrum sætti. Það var sama í
hve mörg hús hún kom, — aldrei neitaði
hún kaffi. En aldrei vildi hún neitt með
kaffinu, nema sykur og mjólk. — Menn
ályktuðu að hún lifði næstum eingöngu á
kaffi.
Marga langaði til að gleðja hana, eink-
um fyrir hátíðar, þar sem sýnt var að hún
hugsaði lítt um matargerð og keypti aldrei
neitt. — Þeir bjuggu stundum út matar-
pinkla handa henni, hangikjöt, svið og
þessháttar góðgæti, og ætluðust til að
gamla konan hefði þetta fyrir sig yfir há-
tíðisdagana. Hún þakkaði hlýlega fyrir
sig, gamla konan, tók pakkann. — En
fólk sá brátt að þetta var tilgangslaust,
því venjulega skildi hún pakkann eftir
einhversstaðar á leið sinni um þorpið. Og
gjöfin kom því að litlu haldi.
Aldrei vissu menn til þess að hún
Bjagga gamla hleypti neinum inn í kof-
ann sinn. Hún hafði hlaðið nokkurs konar
garð umhverfis kofann, tínt steina upp úr
fjörunni og hlaðið upp með veggjunum.
56