Morgunblaðið - 24.01.2006, Blaðsíða 20

Morgunblaðið - 24.01.2006, Blaðsíða 20
20 ÞRIÐJUDAGUR 24. JANÚAR 2006 MORGUNBLAÐIÐ MENNING „ÞAÐ er enginn vandi að mála mynd. Maður tekur bara smá olíulit og dreifir úr honum á strigann, rétt eins og þegar konur maka framan í sig andlitskremi.“ Þannig komst Hall- grímur Helgason að orði árið 1994 og árið 2006 gerir hann þessi orð sín að yfirskrift sýningar sinnar í Galleríi Turpentine. Hann leitast þannig við að fjarlægja sig myndum sínum, slá þeim upp í hálfkæring, farða yfir raunveruleikann. En eins og mál- verkin sem eru máluð á árunum 1992–96 sýna er engin ástæða til að taka mark á slíku, þessi verk eru unn- in í fúlustu alvöru. Hallgrímur sýnir allnokkur verk á þessari sýningu, portrettmyndir stór- ar og smáar, sjálfsmyndir og myndir af ótilgreindu fólki. Það er þungt yfir þessum myndum og hinar björtu hlið- ar lífsins eru ekki í fyrirrúmi hjá lista- manninum þegar þær eru málaðar. Það er frekar eins og dauði og djöfull sæki á hann, draugar og demónar stíga upp úr sálardjúpunum og birt- ast hvert sem hann lítur. Húmorinn er ískaldur, nákaldur mætti segja. Kaldhæðnin, angistin og sorgin ná hámarki í myndum eins og Afterglow og á hinum stærri portrettmyndum er eins og andlitin nái varla að kom- ast í gegn á myndfletinum, þeim ligg- ur við köfnun og eru á mörkunum að hverfa. Hallgrímur er fær málari eins og hann hefur margoft sýnt og það fer heldur ekki milli mála í þessum verkum. Í vinnuaðferð og litavali bera þau tíðaranda sínum nokkurt vitni og þeim málurum sem þá voru ofarlega á baugi, málurum á borð við Luc Tu- ymans og Marlene Dumas. Hinir grá- brúnu litatónar sem oft eru ráðandi í verkum þessara beggja hafa haft gríðarmikil áhrif á málara í dag og þá má einnig sjá í þessum verkum Hall- gríms. Bæði Tuymans og Dumas hafa málað þó nokkuð af portrettmyndum, sérstaklega þó Marlene Dumas og myndir hennar eru ekki alltaf glað- legar. Stóra sería Hallgríms sem samanstendur af 36 andlitsmyndum minnir mig t.a.m. á verk Dumas frá 1994, Chlorosis (Love sick), en þar eru andlitin í brúngráu og tilviljunin að einhverju leyti þáttur í myndsköp- uninni eins og hún er augljóslega hjá Hallgrími. Hér virðist hann einmitt hafa byrjað myndirnar með því að taka smá olíulit og dreifa úr honum á strigann á tilviljunarkenndan máta en síðan hefur listamaðurinn tekið yf- ir og haldið áfram vinnunni, fundið sína mynd út úr óreglulegum form- um. Stærri málverkin eru unnin á annan hátt, hér er það ekki tilviljun sem ræður. Það er sjálfsagt að skoða portrettmyndir Hallgríms í samhengi við aðrar mannlýsingar hans á striga og í skáldsögum hans, en oftast er þó ádeila á samfélagið og samtímann þar í fyrirrúmi, hér er persónulegri nálg- un á ferð. Nú þegar tíu ár og meira eru liðin frá því að þessi verk eru máluð fer ekki hjá því að áhorfandinn spyrji sig að því hvers vegna listamaðurinn velji að sýna þessi verk í dag en ekki fyrir tíu árum síðan. Þegar til höfund- arverks Hallgríms er litið í heild, bæði málverka hans, myndasagna og skáldsagna er hér þó augljóslega um að ræða verk sem eiga fyllilega erindi til áhorfenda. Hinn þungi undirtónn verður síðan til þess að sú tilfinning verður yfirráðandi að listamaðurinn sé eftir nokkuð langan tíma nú fyrst að afgreiða eitthvert listrænt tímabil sem vafist hefur fyrir honum, hann geti horfst í augu við verk sem virðast hafa verið honum erfið á sínum tíma og gefið þeim sinn stað og sitt vægi sem hluta af höfundarverki. Það felst því ákveðin dirfska í þessari sýningu og list Hallgríms birtist lesendum hans og áhorfendum sem auðugri fyr- ir vikið. Draugar og demónar MYNDLIST Gallerí Turpentine Olía borin á striga. Málverk frá árunum 1992–96. Til 31. janúar. Gallerí Turpentine er opið þriðjud. til föstud. frá kl. 12–18 og laug- ardaga 11–16. Hallgrímur Helgason Ragna Sigurðardóttir Morgunblaðið/Ásdís „Það felst því ákveðin dirfska í þessari sýningu og list Hallgríms birtist les- endum hans og áhorfendum sem auðugri fyrir vikið.“ Í LEIKSKRÁ Naglans má ráða það af greinum höfundar og leikstjóra að nokkur alvara búi að baki verkinu, hér eigi að ganga á hólm við karl- mennskuna og leita að kjarna hennar og stöðu í nútímasamfélaginu. Og öðrum þræði er alvöru þessa að finna í verkinu sjálfu. Eða kannski er „al- vara“ ekki alveg rétta orðið. „Ein- lægni“ gæti verið réttari lýsing á efn- istökunum. En svo veit maður aldrei með Jón Gnarr, sem er sá listamaður íslenskur sem hefur gengið lengst í að gera yfirborðseinlægni að skop- aðferð. Það er tvíeggjað sverð, því hvað ef svoleiðis mann langar allt í einu að segja eitthvað í alvöru? Hver trúir honum? Ég hef meira að segja heyrt því haldið fram að Fréttablað- spistlar Jóns og önnur tjáning á trúarreynslu hans séu ein risastór grínsýning í anda hins ameríska Andy Kaufman. Hvað veit ég? Svo er auðvitað ekkert sjálfkrafa útilokað að segja mikilvæga og alvarlega hluti með aðferð gamanleiksins. Öðru nær reyndar. Hirðfíflið má eitt segja kónginum sannleikann. Vandinn er sá að grín byggist á því sem flytj- endur og áhorfendur eiga sameig- inlegt – lífsafl hlátursins er þegar ný- stárlegri sýn er brugðið á sameigin- lega reynslu, eða einfaldlega að hlutir eru orðaðir sem ekki hefur mátt eða þótt viðeigandi að tala um. Þá er stutt í klisjurnar. Það er flókinn galdur að skrifa innihaldsríkt grín í alvöru. Það hefur Jóni ekki tekist að þessu sinni. Til þess er Naglinn of fastur í hjólförum klisj- unnar sem nú um stundir er við- tekin sýn leikhúss og skemmtana- iðnaðarins á karl- menn. Jóni tekst ekki að bæta neinu áhugaverðu við myndina af ropandi, tilfinningaheftu, lokuðu, bjórþambandi, fótboltagláp- andi, skrúfvélarveifandi, klámgláp- andi og ráðvilltu ístrubelgjunum og vinnuölkunum sem okkur er sífellt sagt að við séum. Myndin af kon- unum er síðan jafn fyrirsjáanleg. Vissulega er víða komist vel að orði og margar samtalssenurnar eru hnyttilega skrifaðar inn í þessa „hellisbúahefð“. Það örlar sums stað- ar á nýjum flötum, kannski sterkast þegar formúlukenndu samtali þar sem kona segir manni upp er snúið upp á föður og son. En það er of lítið af slíku nýjabrumi – búið að segja þetta of oft til að maður geti trúað því. Bygging sýningarinnar er heldur ekki nógu markviss. Frá höfundarins hendi vantar stígandi í afhjúpun aðal- persónunnar og sjálfsskoðun. Og ramminn, ristilspeglunin sem bíður hans, er illa nýttur til að gefa sýning- unni heildarsvip. Hvað sviðsetn- inguna varðar hafa of margar hug- myndir fengið að komast alla leið; myndbönd, ljósmyndir, skuggaleik- hús, talandi klósett, álitsgjafar um karlmennskuna. Valgeir hefði þurft að ydda sýninguna betur. Það ánægjulega er að sýningin hefur ekki á sér kaldhæðnislega gróðavon- arslikjuna sem svona efnistök gefa í skyn og sveif yfir vötnum í Bless Fress í Loftkastalanum fyrir nokkr- um árum og loddi við Typpatal í fyrra. Það er eins og Jóni, Gunnari, Valgeiri og félögum finnist þeir í al- vöru vera að segja eitthvað merkilegt og mikilvægt. Aftur: það er einlægni og hlýja í sýningunni. Þessir eiginleikar birtast ekki síst í framgöngu Gunnars Sigurðssonar. Gunnar hefur að sumu leyti sambæri- legan hæfileika og höfundurinn, að virðast algerlega hversdagslegur í fasi og framgöngu við jafn skringi- legar aðstæður og standa upp á sviði og afhjúpa sig. Að túlka hinn algera meðaljón án þess að gera hann ann- aðhvort fullkomlega óáhugaverðan eða þannig að „tækni“ eða „skólun“ leikarans fari í forgrunn er ekki á allra færi, kannski síst þeirra sem við myndum kalla „stórleikara“. En Gunnar hefur þetta. Maður trúir á hann, myndi treysta honum til að reisa hjá sér millivegg eða losa stíflu úr klósetti. Mótleikara Gunnars gefst ekki kostur á að reyna við einlægn- ina. Verkefni Jóns St. Kristjánssonar er að bregða sér í ótal gervi eig- inkvenna, föður, barna, lækna, sál- fræðinga og annarra samferðamanna Naglans. Sumar voru sannfærandi, aðrar eins og þær væru enn á skissu- stiginu frá leikarans hendi, nokkuð sem vel má vera að setjist betur með tímanum. Það var mikið hlegið á frumsýningunni. Kannski er enn áhugi fyrir léttmeti um „karlmann- inn“ og vandræði hans í samfélagi sem gerir aðrar kröfur til hans en feður hans bjuggu hann undir. Kannski réttlætir kátínan vankant- ana sem leikhúsrýnir staldrar við. Má vera, en kannski stendur sú geð- hreinsun sem hláturinn er á endanum í vegi fyrir að meinin sem Naglinn þó tæpir á séu skoðuð í alvöru. „Svona erum við, en sniðugt“, gætum við sagt á leiðinni út í bílinn og hlammað okk- ur svo þegjandi og prumpandi í sóf- ann með bjórinn og leikinn. Hvað veit ég? Maður eins og ég? LEIKLIST 540 Gólf og Borgarleikhúsið Höfundur: Jón Gnarr. Leikstjórn: Valgeir Skagfjörð. Leikmynd: Þórarinn Blöndal. Búningar og gervi: Helga Rún Pálsdóttir. Lýsing: Skúli Gautason. Kvikmyndun: Sveinn M. Sveinsson. Myndvinnsla: Sig- urþór Heimisson. Leikendur: Gunnar Sig- urðsson og Jón St. Kristjánsson. Borg- arleikhúsið 21. janúar 2006. NAGLINN Þorgeir Tryggvason Jón Gnarr Það var fullt út úr dyrum áRitþingi sem ListamiðstöðinGerðuberg efndi til á laug- ardaginn um skáldið Thor Vil- hjálmsson. Komust reyndar færri að en vildu og segir það meira en mörg orð um áhuga fólks á skáld- inu og skáldskap þess. Thor var í essinu sínu, ljúfur og kátur, sagði sögur, vék sér fimlega undan fag- legum og fræðilegum spurningum, svaraði eins og skáldi einu er lagið og tók áheyrendur með sér í ferðalag um hugarheima þegar hann var spurður um ferðalög í bókum sínum, hrósaði spyrlum óspart fyrir gáfur og vitsmuni og sagði þetta allt hafa verið indælt stríð; „Ó, þetta er indælt stríð“ sagði hann og mátaði setninguna á tungunni einum tvisvar sinnum áð- ur en hann var sáttur við hvernig haga skyldi áherslunni. Áheyr- endum leiddist sannarlega ekki þessa dagstund og voru ívið fót- vissari á svellinu framan við Gerðuberg að henni lokinni.    Skáldsögur, ljóð, ferðabækur,leikrit, þýðingar. Höfund- arverki Thors Vilhjálmssonar verða ekki gerð skil í stuttum pistli úr því ekki tókst að komast yfir nema brot af því í nærri þriggja stunda yfirferð undir stjórn Halldórs Guðmundssonar með Sigurð Pálsson skáld og Ást- ráð Eysteinsson bókmenntafræð- ing sér til fulltingis. Þá er ónefnd myndlist Thors sem nú er til sýnis í Gerðubergi og verður fram til 5. mars. Áhugi Thors á kvikmynda- list og tónlist er einnig alþekktur og líklega hafa fáir haft jafnmikil áhrif og Thor á síðustu öld í að beina hingað því sem hvað hæst hefur borið í kvikmyndalist heims- ins. Áhrif Thors á menningarstig þjóðarinnar eru líklega meiri en gerð verður grein fyrir í fljótu bragði; sem einn af ritstjórn- armönnum Birtings um 13 ára skeið, sem einn af hvatamönnum Listahátíðar í Reykjavík, sem einn af hvatamönnum kvikmyndahátíð- ar, sem óþreytandi boðberi merkra tíðinda úr alheimi list- arinnar, en auðvitað fyrst og síð- ast sem skáld og listamaður sjálf- ur. Lítið þurfti til að skara í þeim glæðum eldmóðs sem enn loga í skáldinu því hann efldist allur við hið „elskulega viðmót“ sem hann kvaðst finna fyrir í Gerðubergi á laugardaginn og sagði ómögulegt að vita nema hann tæki uppá ein- hverju í framhaldinu. Myndin sem fékkst af Thor Vil- hjálmssyni á ritþinginu var bæði fróðleg og skemmtileg. Spyrlarnir voru vel heima í skáldskap hans og höfundarferli og veittu fjöl- breyttar upplýsingar í tölum sín- um og spurningum. Thor svaraði aldrei spurningunum en svaraði þeim þó, með því að víkja sér und- an fræðilegum vangaveltum um aðferðir, innihald og tilgang verka sinna; benti með því á að það getur ekki verið viðfang skáldsins að segja til hvers hann skapar eða hvert erindi hans er; það er hins vegar fullgilt viðfangsefni fræð- anna og þarna féllust skáldið og fræðin brosandi í faðmlög og stað- festu að þau geta ekki án hvort annars verið.    Thor er af þeirri kynslóð skáldasem trúa á hugljómun,“ sagði Halldór Guðmundsson. Sigurður Pálsson líkti sagnagerð Thors við klassískt form fúgunnar en einnig við jazzinn þar sem fer saman yf- irburða tæknikunnátta og frelsi spunans. Sigurður velti því fyrir sér hvort jassistinn Charlie Parker hefði haft áhrif á Thor á Parísar- árunum í kringum 1950. Thor kvaðst ekki hafa vitað af Parker í París á þeim tíma en hann hefði hins vegar kynnst frænda hans í Róm nokkru síðar. Skemmtilegum manni sem hefði kunnað að halda góðar veislur. Ástráður Eysteinsson benti á hversu mikilvægu hlutverki ferða- lagið gegni í öllum skáldskap Thors. Lesandinn væri leiddur í ferðalag og persónur sagnanna væru á ferðalagi, sjálfur væri höf- undurinn ferðalangur, bæði í lífi sínu og verkum. Ferðabækur væru einnig hluti af höfundarverki hans svo ætla mætti að „ferðalagið“ væri höfundinum hugstætt. Thor brá ekki af venju, hrósaði Ástráði fyrir glöggskyggni hans og sagði síðan bráðskemmtilega sögu af sjálfum sér á gönguferð um byggðir forfeðra sinna í Þingeyj- arsýslum, með tjald á bakinu sem Kjarval hafði gefið honum. Þar var fólk forvitið en ekki hnýsið sagði Thor, það spurði tíðinda og sagði tíðindi, fræddist og fræddi, en var ekki eins og maðurinn sem Thor hitti á Mokkakaffi eitt sinn og sagði eingöngu almælt tíðindi. Áheyrendur skemmtu sér vel við frásögn Thors og Halldór Guð- mundsson hitti naglann á höfuðið með þeim orðum að spurður um ferðalag hefði Thor svarað spurn- ingunni með því að taka áheyr- endur með sér í ferðalag. Halldór benti einnig á að lengi framan af ferli sínum hefði Thor háð baráttu sem sjálfstæð rödd í íslenskum skáldskap og ekki alltaf fundið hljómgrunn hjá íhalds- sömum lesendum. En árið 1986 kom út skáldsagan Grámosinn gló- ir sem varð metsölubók það haust og tveimur árum síðar hlaut Thor Bókmenntaverðlaun Norður- landaráðs fyrir Grámosann. Nokkru síðar hefðu honum einnig fallið í skaut norræn verðlaun Sænsku akademíunnar, hinnar sömu og veitir Nóbelsverðlaunin. „Var stríðinu lokið?“ spurði Hall- dór. Thor kvaðst ætíð kunna að meta að verðleikum velvild í sinn garð en það hefði ekki áhrif á baráttu hans við eigin listsköpun eða fyrir því sem hann teldi réttlátt eða nauðsynlegt. „Þetta var allt indælt stríð,“ sagði hann og spurði svo salinn hvort ekki hefði verið leik- rit með þessum ágæta titli, Ó, þetta er indælt stríð. Salurinn samsinnti því. „Ó, þetta er indælt stríð,“ sagði skáldið með áherslu og salurinn fagnaði honum inni- lega í lokin. Allt var það indælt stríð ’Myndin sem fékkst afThor Vilhjálmssyni á ritþinginu var bæði fróð- leg og skemmtileg.‘ AF LISTUM Af listum eftir Hávar Sigurjónsson havar@mbl.is Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson Thor Vilhjálmsson

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.