Morgunblaðið - 03.02.2006, Blaðsíða 36
36 FÖSTUDAGUR 3. FEBRÚAR 2006 MORGUNBLAÐIÐ
MINNINGAR
✝ Sigríður G. Stef-ánsdóttir fædd-
ist á Rauðafelli í A-
Eyjafjallahreppi í
Rangárvallasýslu
hinn 7. september
1918. Hún lést á
Elliheimilinu Grund
hinn 25. janúar síð-
astliðinn. Foreldrar
hennar voru Sigur-
lína Sigurðardóttir
frá S-Grund, f.
18.10. 1883, d. 13.12.
1932 og Stefán Hall-
dórsson bóndi frá
Rauðafelli, f. 15.6. 1887, d. 13.3.
1962. Systkini hennar eru Gísli, f.
1905, d. 1983, Sigurbjörg, f. 1908,
d. 1992, Geirlaug, f. 1910, d. 1981,
Elín Ásbjörg, f. 1912, d. 1914, Har-
aldur, f. 1913, d. 1966, Einar, f.
1915, d. 1940, Marta, f. 1921, d.
1923, og Anna Sigurlaug, f. 1926.
Hinn 31.12. 1948 giftist Sigríð-
ur Valgarði Klemenzsyni, f. í
Reykjavík 2.11. 1913, d. 20.9.
1994. Synir þeirra eru: 1) Sæ-
mundur Einar, f. 20.12. 1950,
kvæntur Þórunni Hermannsdótt-
ur, f. 25.3. 1948. Börn hans eru: a)
Valgarður, f. 14.1. 1971, dóttir
hans er Margrét Rebekka, f. 1999,
kona hans Eva Ósk
Guðmundsdóttir og
dóttir þeirra Lilja
Rut, f. 2002, b) Íris
Lind, f. 10.9. 1976, c)
Sigríður Kristín, f.
24.6. 1978, og d)
Berta Björg, f. 8.8.
1981. Börn Þórunn-
ar eru Jóhannes, f.
25.7. 1981, Anna, f.
7.3. 1983 og Auður,
f. 7.3. 1983. 2) Flosi
Sigurvin, f. 30.10.
1953, kvæntur
Eygló Aðalsteins-
dóttur, f. 28.10. 1953. Börn þeirra
eru: a) Gyða Rós, f. 27.7. 1974,
maður hennar er Snorri Magnús-
son og börn þeirra Viktor Andri,
f. 1996 og Arnór Sigurvin, f. 2002,
og b) Sigurður Garðar, f. 28.6.
1978. 3) Rafn, f. 8.4. 1955.
Árið 1938 flytur Sigríður til
Reykjavíkur, þá tvítug að aldri og
vann hún við ýmislegt á yngri ár-
um en lengst af starfaði hún á Elli-
heimilinu Grund eða frá 1974 til
1996. Síðustu árin bjó hún á Litlu
Grund.
Útför Sigríðar verður gerð frá
Fríkirkjunni í Reykjavík í dag og
hefst athöfnin klukkan 13.
Móðir mín er farin. Það er margs
að minnast og ein fyrsta minning mín
er af Háteigsvegi 2 sem var fyrsta
heimili foreldra minna, ég er bundinn
í beisli úti í innkeyrslunni, tveggja til
þriggja ára og hafði náð í stein og
brotið rúðu, einhver sá til kauða og
ég var skammaður og fór að skæla en
mamma var ekki langt undan og
bjargaði drengnum sínum. Svona var
mamma, alltaf til staðar þegar maður
datt á andlitið, sprengdi varir, stakk
sig á nöglum eða eitthvað annað.
Einni lautarferð man ég eftir þegar
við vorum flutt í Meðalholt 3 og við
bræður vorum orðnir þrír en þá fór
mamma með okkur upp að vatns-
veitugeyminum efst á Háteigsvegi, á
góðviðrisdegi, mjólk á flöskum og
kökur í boxi, þvílíkur dagur, því í dag
er þetta í miðri borg en þarna var
bara sveit. 1963 flytjum við í Álfta-
mýri 42 og þar bjó mamma þar til í
apríl 1998 er hún flytur á Litlu
Grund.
Móðir mín var mikil sveitakona
enda alin upp á Rauðafelli, Austur-
Eyjafjöllum. Sögurnar af krumma
sem setti glitrandi steina og gler í
hreiðrið sitt, kindunum, hundunum,
hestunum var gaman að hlusta á.
Huldufólk og álfar voru sérgáfa
mömmu en hún lagði áherslu á góða
umgengni við kletta og steina því þar
áttu þau heima.
Síðastliðið sumar fórum við í lang-
þráða ferð í sveitina hennar undir
Eyjafjöllum með börnum og barna-
börnum, ásamt systur hennar og
gistum við á Seljavöllum í blíðskapar
veðri í tvo sólarhringa, skoðuðum
bæinn hennar og fórum um alla sveit,
gleymdum ekki Skógum eða Skóga-
fossi, sem mamma sagði að væri feg-
ursti foss á Íslandi. Daginn sem við
fórum frá Seljavöllum ákváðum við
að keyra að lokum fram hjá Rauða-
felli og var keyrt rólega, viti menn
kemur ekki rauður hestur hlaupandi
meðfram girðingunni með veginum,
fram fyrir bílinn, stekkur yfir girð-
inguna, hleypur yfir veginn, yfir girð-
inguna hinum megin því þar var
hrossastóð. Þvílík sýning, þetta var
eitthvað fyrir mömmu.
Takk fyrir allt, ég kveð þig móðir
mín með söknuði.
Sæmundur Einar.
Við andlát Sigríðar tengdamóður
minnar reikar hugur minn víða.
Það eru liðin þrjátíu og þrjú ár síð-
an ég kynntist henni tengdamóður
minni. Sigga var myndarleg og vönd-
uð kona. Sigga var mikið náttúrubarn
og hafði gaman af því að ferðast með
okkur fjölskyldunni í sumarbústaði
vítt og breitt um landið. Hún naut sín
mikið að vera úti í náttúrunni og inn-
an um dýrin, fuglar voru í miklu
uppáhaldi hjá henni og þekkti hún
nær allar fuglategundir. Margar góð-
ar stundir áttum við Sigga saman í
gegnum árin, það er mér mjög minn-
isstætt atvik sem átti sér stað í einni
af sumarbústaðarferðum okkar. Ég,
Sigga og Gunna systir mín fengum
okkur göngutúr um sveitina, og í
bakaleiðinni ákváðum við að stytta
okkur leið aftur í bústaðinn. Við
þurftum að fara yfir girðingu þar sem
naut var á beit, Gunnu systur og mér
leist nú ekkert á að fara þessa leið.
Siggu fannst þetta hins vegar ekki
mikið mál og sagði að þetta væri nú í
lagi, nautið væri alveg saklaust enda
væri þetta bara kálfur. Ég ákvað að
láta slag standa og fara með Siggu yf-
ir girðinguna, en áður en ég vissi af
var nautið komið á blússandi ferð og
stefndi beint á mig. Ég tók til fótanna
æpandi af hræðslu, Sigga gat sig
hvergi hreyft því hún hló svo mikið að
tengdadóttur sinni hlaupandi um allt
tún með nautið á eftir sér. Lengi á
eftir átti Sigga það til að rifja þetta
upp og hlæja dátt. Sigga var vel á sig
komin líkamlega og við góða heilsu í
gegnum árin, seiglan og dugnaðurinn
í henni var með ólíkindum. Sigga
hætti að vinna á elliheimilinu Grund
eftir 22 ára starf þar, þá að verða 78
ára gömul. Árið 1998 flutti Sigga á
Litlu-Grund, þar undi hún sér ágæt-
lega og var dugleg að sækja fé-
lagsstarf. Heilsu hennar hrakaði í
nóvember 2005, þá fór hún inn á
hjúkrunardeild á Grund. Sigga var
sjálfstæð kona og það átti ekki alveg
við hana að vera upp á aðra komin, en
það var þó ekki lengi svo, því hún
skildi við að kvöldi 25. janúar.
Ég kveð Siggu með þakklæti og
bið Guð að blessa minningu hennar.
Eygló Aðalsteinsdóttir.
Elsku amma Sigga er haldin á vit
ævintýranna. Það er sárt að kveðja
en ég veit að hún hleypur nú um eng-
in, hlær með afa, Oddi og öllum hin-
um, knúsar dýrin og finnur ilminn af
blómunum.
Ég man eftir heimsóknum í Álfta-
mýrina. Amma bjó alltaf til pönnu-
kökur með sykri, það besta sem mað-
ur fékk. Svo var hlaupið út og rólað í
stóru rólunni í garðinum. Þegar við
héldum heim á leið var amma alltaf
úti í glugga, veifandi með bros á vör.
Eitt af því sem manni þótti mest
spennandi var að fá að gista í Álfta-
mýrinni. Amma sagði alltaf skemmti-
legar sögur úr sveitinni, af dýrunum
hennar, litlu kisunum, lömbunum og
hestunum. Stundum tók amma í
höndina á okkur og fór með þulu:
Fagur, fagur, fiskur í sjó,
brettist upp á halanum,
með rauða kúlu á maganum,
vanda, banda
gættu þinna handa.
Vingur, slingur
vara þína fingur.
Fetta, bretta,
brátt skal högg á hendi detta.
Ég gleymi aldrei fyrsta skiptinu
sem ég fór ein í heimsókn í Álftamýr-
ina. Amma lýsti strætóleiðinni en
eitthvað misskildi ég hana, ýtti á
hnappinn á öllum stöðvum en við
Álftamýri bað ég vagnstjórann um að
stoppa, hér ætti hún amma heima.
Mér er minnisstæð heimsókn á
menntaskólaárunum. Amma vildi
dekra sérstaklega við mig í það skipt-
ið. Hún rölti með mig í búð, keypti
hangikjöt, malt og appelsín og skellti
í jólamáltíð þrátt fyrir að langt væri í
jól. Þetta er minnisstæðasta jólamál-
tíðin með ömmu.
Á Grund naut amma sín í hann-
yrðum, lagin við allt sem hún tók sér
fyrir hendur. Hún töfraði fram marg-
litar silkislæður, púða og annað fal-
legt. Ég gleymi ekki kattafjölskyld-
unni sem hún prjónaði, hafði hjá
sjónvarpinu svo hún gæti nú ávallt
fylgst með þeim og gætt þeirra.
Í sumar fórum við með ömmu í
sveitina. Mikið var gaman að eyða
svo yndislegum stundum með henni
þar sem hún naut sín best, úti í nátt-
úrunni umlukin angan af grasinu og
dýrunum. Ég þakka fyrir þær stund-
ir og hugsa til þeirra með bros á vör.
Elsku amma mín, ég kveð þig með
tárum en brosi á vör því ég veit að
þér líður vel núna. Þú ert besta amma
í heimi.
Íris Lind.
Elsku amma Sigga okkar, nú hefur
þú kvatt okkur og munum við syst-
urnar sakna þín sárt og mikið. Marg-
ar góðar minningar koma upp í huga
okkar þegar við lítum til baka.
Hangikjöt hjá afa og ömmu á jól-
unum var alltaf yndislegt að fá og
þegar þú puðraðir í hálsakotin okkar,
okkur til mikillar ánægju. Það var
alltaf yndislegt að koma í heimsókn í
Álftamýrina, ávallt pönnsur eða ann-
að góðgæti á boðstólum svo ekki sé
talað um kleinurnar sem þú kenndir
okkur að búa til. Oft á tíðum gistum
við líka hjá ykkur afa og þá er það
okkur minnisstætt þegar fara átti
sofa að þú hélst í hendurnar á okkur
og straukst þær og fórst svo með þul-
una
Fagur, fagur, fiskur í sjó,
brettist upp á halanum,
með rauða kúlu á maganum,
vanda, banda
gættu þinna handa.
Vingur, slingur
vara þína fingur.
Fetta, bretta,
brátt skal högg á hendi detta.
og lést svo höndina detta ofan á
okkar og við reyndum eftir bestu
getu að kippa okkar höndum frá. Þú
sagðir okkur sögur úr sveitinni þar
sem þú ólst upp en þá allra helst frá
dýrunum sem þú unnir svo mikið.
Það skemmtilegasta var að þegar þú
sagðir okkur frá hestunum, beljun-
um, hundunum og köttunum þá gerð-
irðu öll tilheyrandi hjóð með hverju
dýri og lékst þetta svo skemmtilega
fyrir okkur, alveg yndislegt. Já, þér
var sko annt um dýrin og ekki bara
úr sveitinni heldur líka hann Goliat
sem fékk þig alltaf til að brosa og tala
við sig. Útilegan sem við fórum öll
saman í síðastliðið sumar er okkur
minnisstæð, það var yndisleg ferð í
alla staði. Við fengum að sjá æsku-
slóðirnar þínar og þú sagðir okkur
frá æsku þinni þar. Við vorum líka
svo heppin að fá yndislegt veður, við
grilluðum og sungum í sólinni, þessi
ferð gaf okkur ómetanlega góðar
minningar með þér, elsku amma.
Elsku amma okkar, við munum
geyma þessar og allar okkar minn-
ingar inn við hjarta okkar alla tíð. Við
eigum eftir að sakna þín.
Þínar
Sigríður og Berta.
Í dag kveð ég Siggu ömmu mína og
langar mig að minnast hennar með
fáeinum orðum.
Minningarnar frá því ég var lítil
sitja fast í huga mér, ég var mikið í
pössun hjá ömmu og afa í Álftamýri
fyrstu árin mín á meðan mamma og
pabbi voru í vinnu, ég man að ég gat
endalaust setið og hlustað á ömmu
segja mér sögur. Svo eftir að ég varð
eldri var amma dugleg að rifja upp
sögur af mér frá því ég var barn, ein
sagan er af því þegar ég var tveggja
ára, þá hafði amma verið að sækja
mig til Gyðu ömmu heitinnar, sem
hafði verið að passa mig fyrir hádegi.
Við vorum á leiðinni í Álftamýrina og
var ég orðin þreytt á að labba og vildi
ég að amma héldi á mér, amma gat
ekki borið mig enda með fullt fangið
af matarpokum. Hún reyndi að fá
mig til þess að labba sjálfa og sagði,
Gyða, sjáðu, þarna er húsið hennar
ömmu, þá sneri ég mér að henni og
sagði fýlulega „lóda hús“. Þessa sögu
rifjaði amma reglulega upp fyrir mér
og hló að litlu rósinni sinni eins og
hún kallaði mig oft.
Amma var dugleg að ferðast með
okkur í gegnum tíðina, hún var mikið
náttúrubarn og naut þess að vera úti í
náttúrunni og innan um dýrin í sveit-
inni enda var hún sjálf fædd og upp-
alin í sveit. Hún sagði mér og Sigga
bróður skemmtilegar sögur af dýr-
unum og frá því að hún var lítil stelpa
í sveitinni sinni. Eins og gengur og
gerist urðu þessar ferðir færri með
árunum, þangað til síðasta sumar að
ákveðið var að halda lítið ættarmót
og fara ásamt ömmu og Önnu systur
hennar á þeirra æskuslóðir, austur
undir Eyjafjöll þetta var skemmtileg
ferð og er ég þakklát því að látið var
verða af henni.
Margs er að minnast,
margt er hér að þakka.
Guði sé lof fyrir liðna tíð.
Margs er að minnast,
margs er að sakna.
Guð þerri tregatárin stríð.
(V.Briem.)
Ég er þakklát fyrir allar þær góðu
stundir sem ég og amma áttum sam-
an og allar minningarnar sem ég
geymi í hjarta mínu.
Elsku amma mín, ég kveð þig með
miklum söknuði.
Hvíl í friði, þín
Gyða Rós.
Ég sendi þér kæra kveðju,
nú komin er lífsins nótt.
Þig umvefji blessun og bænir,
ég bið að þú sofir rótt.
Þó svíði sorg mitt hjarta
þá sælt er að vita af því
þú laus ert úr veikinda viðjum,
þín veröld er björt á ný.
Ég þakka þau ár sem ég átti
þá auðnu að hafa þig hér.
Og það er svo margs að minnast,
svo margt sem um hug minn fer.
Þó þú sért horfinn úr heimi,
ég hitti þig ekki um hríð.
Þín minning er ljós sem lifir
og lýsir um ókomna tíð.
(Þórunn Sigurðardóttir.)
Flosi Sigurvin.
Hún elskulega Sigga amma mín er
látin. Amma skilur eftir sig margar
skemmtilegar minningar sem ég
mun varðveita alla mína ævi. Árið
1992 fórum við í sumarbústað á Hrís-
um í Eyjafirði, og það sem gladdi
hana Ömmu mest var að sumarbú-
staðurinn var við sveitabæ. Þar sem
hún naut þess mikið að vera úti í nátt-
úrunni, og hafði mikið dálæti á dýr-
um. Var þar einn heimalningur að
nafni Móri sem ég og amma lékum
okkur við á hverjum degi, bæði í felu-
leikjum og fótbolta. Amma og ég
ræddum oft um heimalninginn Móra
og hlógum að þeim skemmtilegu tím-
um sem við áttum saman með hon-
um.
Hver minning dýrmæt perla að liðnum
lífsins degi,
hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.
Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleym-
ist eigi,
og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast
þér.
(Ingibjörg Sigurðardóttir.)
Sigga amma var með okkur öll að-
fangadagskvöld, en var sárt saknað
um síðustu jól vegna veikinda. Áttum
við góðar og skemmtilegar stundir á
aðfangadag. Einnig er minnisstætt
litla ættarmótið sem var haldið síð-
asta sumar, amma og við fjölskyldan
fórum á æskuslóðir hennar við Selja-
landslaug.
Það gladdi hana og okkur mjög að
geta verið saman eina útilegu. Nú
munu leiðir ömmu og afa sameinast á
ný.
Vertu sæl, elsku amma mín, og
takk fyrir allar skemmtilegu minn-
ingarnar.
Hvíldu í friði og Guð varðveiti þig.
Sigurður Garðar.
Fyrri part síðustu aldar var það
hlutskipti íslensku sjómannskonunn-
ar að halda utan um allt er varðaði
uppeldi barna og heimilishald þar
sem nýtni og sparsemi var í hávegum
höfð.
Verður seint fullþakkað þeirra
mikilvæga og fórnfúsa starf.
Ein af þessum konum er Sigríður
G. Stefánsdóttir er við kveðjum
hinstu kveðju í dag. Hún lést á Elli-
og hjúkrunarheimilinu Grund 25.
janúar síðastliðinn. Þar starfaði hún
um árabil af mikilli trúmennsku og
samviskusemi sem er í eðli þeirra er
unnið hafa í sveita síns andlits.
Við Sigga vorum í hlutverki afa og
ömmu og nutum við þess í ríkum
mæli.
Í þeim hópi leið okkur vel. Hún
fylgdist vel með afkomendum sínum
og gladdist yfir hverju því sem þau
tóku sér fyrir hendur í námi og starfi.
Hún giftist Valgarði Klemenssyni
sjómanni, harðduglegum og eftir-
sóttum af skipstjórum togaraflotans.
Það voru aðeins rúmir tveir mán-
uðir á milli fráfalls Gyðu minnar og
Siggu. Nú eru þær komnar saman,
ömmurnar, og geta litið yfir hópinn
sinn sem var þeim svo einkar kær.
Sigga var afar hógvær og hlédræg
kona sem vann störf sín hávaðalaust
og lauk hlutverki sínu sem eiginkona,
móðir, amma og langamma með mik-
illi sæmd.
Ég þakka Sigríði G. Stefánsdóttur
fyrir vegferð hennar og samstarfið í
ömmu- og afahlutverkinu. Ég votta
ástvinum hennar mína dýpstu sam-
úð.
Veri hún að eilífu Guði falin.
Aðalsteinn Dalmann Októsson.
SIGRÍÐUR G.
STEFÁNSDÓTTIR
REYNSLA • UMHYGGJA • TRAUST
Þegar andlát ber að höndum
Önnumst alla þætti útfararinnar
ÚTFARARSTOFA
KIRKJUGARÐANNA
Vesturhlíð 2 • Fossvogi • Sími 551 1266 • www.utfor.is