Morgunblaðið - 03.02.2006, Síða 41
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 3. FEBRÚAR 2006 41
MINNINGAR
merkjum þeirra í þessum efnum og
hringdi nær daglega í flesta fjöl-
skyldumeðlimi til að fá fréttir og oftar
en ekki til að segja fréttir. Vinnutími
afa var oft langur því ekki einungis
gegndi hann stöðu stöðvarstjóra
Pósts og síma á Hellissandi í 40 ár
heldur stundaði hann alla tíð útgerð
meðfram störfum sínum á pósthúsinu
auk þess að gegna mörgum trúnaðar-
störfum fyrir sína heimabyggð. Hann
starfaði mikið í Sjálfstæðisflokknum
og var einn af stofnendum Sjálfstæð-
isfélagsins á Hellissandi og á 60 ára
afmæli þess var hann gerður að heið-
ursfélaga Sjálfstæðisfélaganna í
Snæfellsbæ. Aldrei skorti hann þrek
til að verja stefnu flokksins eða for-
rystumenn hans, og gat hann enda-
laust þrefað um pólitík.
Ásta amma sá um að búa þeim
glæsilegt heimili og stóð þétt að baki
sínum manni. Samheldni þeirra var
aðdáunarverð og er okkur til efs að
þeim hafi nokkurn tímann orðið
sundurorða í þeirra 60 ára sambúð.
Það var afa mikið áfall að sjá á eftir
ömmu eftir svo langa samveru en
hann sýndi fádæma æðruleysi og tók
því sem að höndum bar. Sama æðru-
leysi sýndi hann síðustu dagana sem
hann lifði þó svo að hann gerði sér
fulla grein fyrir því að hverju stefndi.
Hélt hann sinni andlegu reisn og léttu
lund allt þar til yfir lauk. Sem dæmi
um glettni hans má nefna að 4 dögum
áður en hann dó komu þau Ásbjörn
og Margrét í heimsókn til afa og
höfðu meðferðis blóm. Þegar afi sá
þau birtast með blómin spurði hann
hvort þau væru mætt með blóm á
gröfina.
Síðustu níu árin dvaldi afi á dval-
arheimili aldraðra í Stykkishólmi og
naut þar mikillar hlýju og góðrar
þjónustu, sem við viljum koma á
framfæri þakklæti fyrir. Bjó hann í
eigin íbúð allt þar til fyrir tæpu ári
síðan er hann fluttist í herbergi.
Eignaðist hann marga góða vini í
Hólminum og mat hann vinskap
þeirra mikils. Það er sjálfsagt ekki á
neinn hallað þó að Bjarna Lárussyni
sé sérstaklega þökkuð umhyggja
hans og vinátta í garð afa.
Afi var orðinn vegmóður og lúinn
undir það allra síðasta og virtist mjög
sáttur við að kveðjustundin nálgaðist.
Það var jafnvel ekki laust við að
nokkurrar tilhlökkunar gætti að fá að
hitta Ástu ömmu við vistaskiptin.
Við minnumst elskulegs afa með
þakklæti og hlýju.
Ásbjörn, Tryggvi Leifur og
Júníana Björg Óttarsbörn.
Af þessum heimi horfinn afi
minn
en hjartkær minning skín í huga
mínum.
um allt hið liðna, ást og
kærleik þinn
er ung ég hlaut í traustum
faðmi þínum.
Mig leiddi forðum ljúfa höndin
þín
á leiðir mínar ætíð gleði barstu.
Og blessun vafðir bernsku sporin
mín,
á barnsins þarfir skilningsríkur
varstu.
Á hljóðri stund við hinsta
beðinn þinn
ég heitar þakkir færi þér að
hjarta.
Þín gæði aldrei gleymast, afi
minn,
ég geymi þína minning fagra og
bjarta.
Elsku afi, við þökkum allar stund-
irnar sem við áttum með ykkur
ömmu, þær eru ómetanlegar og eru
styrkur á þessari stundu.
Guð blessi minningu þína.
Ástrós og Ásgerður Alda.
Einn af mínum tryggu og góðu vin-
um af Snæfellsnesi hefur kvatt þetta
jarðlíf. Við Sveinbjörn Benediktsson
á Sandi kynntumst fljótt eftir að ég
flutti vestur. Við bundumst vináttu-
böndum sem aldrei hafa brostið né
bilað. Sveinbjörn var ungur valinn til
forystu fyrir sitt bæjarfélag og aldrei
verkefnalaus.
Hann reyndist eftirsóttur til fé-
lagsstarfa og traustur í hverju því
sem hann tók sér fyrir hendur. Við
áttum langa samfylgd eftir að hann
gerðist stöðvarstjóri Pósts og síma á
Hellissandi og ég umdæmisstjóri
símans við Breiðafjörð. Á milli heim-
ila okkar myndaðist þráður vináttu
og velvildar, tengsl sem styrktust
með árunum. Sveinbjörn á Sandi var
traustur í bindindismálum og þar
stóðum við saman.
Hann átti sérstaklega gott og al-
úðlegt heimili sem stóð opið þegar
vini bar að garði. Ásta, kona Svein-
bjarnar, stóð fyrir þessu elskulega
heimili og öllum leið vel í návist
þeirra hjóna. Hjá þeim Sveinbirni og
Ástu var alúðin hrein og heimsóknir
til þeirra reyndust minnisverðar
stundir. Ásta var eins og Sveinbjörn
félagslynd og þau hjónin voru sam-
valin til forystu í byggðarlaginu. Til-
lögur þeirra og verk höfðu mannbæt-
andi áhrif á allan hátt.
Sveinbjörn var dugnaðarmaður.
Fyrir utan starf sitt sem símstöðv-
arstjóri var hann þátttakandi í at-
vinnumálum Hellissands. Hann rak
ásamt félögum sínum útgerð um
langt skeið og var starfsemin farsæl í
hans höndum og annarra.
Þau hjónin Sveinbjörn og Ásta
fluttu í Hólminn þegar dagsverki
þeirra var lokið. Þau keyptu íbúð á
Dvalarheimilinu í Stykkishólmi og
urðu samskipti okkar nánari enda
stutt að skreppa. Því miður nutu þau
þess ekki lengi að búa í þessari fal-
legu íbúð því Ásta dó eftir stutta bú-
setu í Hólminum. Sveinbjörn bjó
áfram á dvalarheimilinu og var virkur
þátttakandi í tómstundum fram á síð-
asta dag.
Ég vil þakka Sveinbirni fyrir langa
og trausta vináttu. Eftir farsælt ævi-
skeið hefur hann hitt konu sína að
nýju því þau hjón voru samhuga um
þá trú að eftir þetta líf tæki annað og
betra við. Ég veit að sá sem öllu ræð-
ur veitir þessum trúa og dygga þjóni
sínum laun að verðleikum. Blessun
guðs fylgi góðum vini á framtíðar-
braut.
Árni Helgason,
Stykkishólmi.
✝ Þórdís NannaNikulásdóttir
fæddist í Króktúni í
Hvolhreppi 14. maí
1922. Hún lést á
Dvalar- og hjúkrun-
arheimilinu Grund
27. janúar síðastlið-
inn. Foreldrar
hennar voru María
Þórðardóttir, f.
13.2. 1899, d. 18.9.
1978 og Nikulás
Jónsson, f. 18.9.
1892, d. 8.10. 1930.
Systkini Nönnu eru
Nikulás Már, f. 8.8. 1923, Óskar,
f. 25.8. 1926, d. 4.2. 2004, Helga, f.
16.4. 1929, d. 31.7. 1998, Sigþór, f.
15.3. 1938 og Gylfi, f. 8.8. 1940.
Nanna giftist 15. september
1945 Lárusi Halldórssyni presti,
f. 10.10. 1920. Foreldrar hans
voru Kristín S. Hafliðadóttir, f.
31.7. 1873, d. 9.9.
1960 og Halldór Þ.
Sveinsson, f. 16.2.
1880, d. 1.4. 1946.
Börn Nönnu og Lár-
usar eru: 1) Anna
María, f. 1946, hún
á þrjú börn, 2)
María Kristín, f.
1948, maki Birgir
Símonarson, þau
eiga þrjú börn og
tvö barnabörn, 3)
Sigríður, f. 1950,
maki Stig Henrik-
sen, d. 2003, þau
eiga eitt barn og tvö barnabörn,
og 4) Halldór Nikulás, f. 1954,
maki Árný Jóhannsdóttir, þau
eiga eitt barn og fimm barna-
börn.
Útför Nönnu verður gerð frá
Dómkirkjunni í dag og hefst at-
höfnin klukkan 15.
Í dag kveðjum við elskulega móð-
ur okkar hinstu kveðju. Við þökkum
Guði fyrir bestu mömmu í heimi, sem
studdi okkur og leiðbeindi, kenndi
okkur mun á réttu og röngu, bað fyr-
ir okkur og bar hag okkar fyrir
brjósti til hinstu stundar. Minning-
arnar eru margar og ljúfar og sökn-
uðurinn mikill. En fullvissan um að
hún er nú gengin inn í dýrð Drottins,
sem hún trúði á og fól líf sitt, er okk-
ur styrkur í sorginni.
Eftirfarandi ljóð Sumarliða Hall-
dórssonar lýsir vel hugsunum okkar
á þessum tímamótum.
Mamma, elsku mamma,
man ég augun þín,
í þeim las ég alla
elskuna til mín.
Mamma, elsku mamma,
man ég þína hönd,
bar hún mig og benti
björt á dýrðarlönd.
Mamma, elsku mamma,
man ég brosið þitt;
gengu hlýir geislar
gegnum hjarta mitt.
Mamma, elsku mamma,
mér í huga skín,
bjarmi þinna bæna,
blessuð versin þín.
Mamma, elsku mamma,
man ég lengst og best,
hjartað blíða, heita –
hjarta, er sakna ég mest.
(Sumarliði Halldórsson.)
Þakka þér fyrir allt elsku mamma.
Anna María, María Kristín,
Sigríður og Halldór
Ég varð að kveðja bestu tengda-
mömmu í heimi sl. föstudag. Það var
ekki auðvelt og skarðið er stórt sem
hún skilur eftir sig. Það sem huggar
mig í sorginni er að hún er komin á
besta stað sem hægt er að hugsa sér
og ég á eftir að hitta hana aftur þar.
Heimili þeirra Nönnu og Lárusar
tengdaforeldra minna var alltaf opið
upp á gátt. Mikill gestagangur og
gestrisnin alltaf hátt fyrir ofan með-
allag. Þar var auðfundinn kærleikur,
veitingar og umhyggja sem sóst var
í. Þau voru vinamörg hjónin.
Nanna elskaði Ísland og hún
hlakkaði alltaf til að koma heim frá
ferðalögum utanlands. Að ferðast
með henni um landið okkar var un-
un. Hún vissi yfirleitt hvað allt hét og
hvar áttirnar voru og það var glampi
í augum hennar þegar hún sagði frá.
Ef hún vissi það ekki, þá vissi Lárus
það. Hún fylgdist grannt með veðri
og fréttum.
Hún Nanna var bara alveg einstök
og það var heiður að þekkja hana að
ég tali nú ekki um að vera tengda-
dóttir hennar. Alltaf fylgdist hún vel
með manni, án þess þó nokkurn tím-
ann að skipta sér af og hún studdi
okkur í því sem við tókum okkur fyr-
ir hendur jafnvel þótt hún væri ekki
alltaf sammála öllu. Að syngja var
henni yndi og nú syngur hún af öllu
hjarta, huga og mætti í ríki Föðurins
á himnum. Örugglega altrödd, það
var hennar aðalsmerki í söng.
Ég gæti fyllt þetta Morgunblað af
hugsunum mínum og kynnum af
henni Nönnu, en ég ætla að láta stað-
ar numið hér, skoða myndir og lesa
bréf sem ég á urmul af í fórum mín-
um. Í minningabankanum mínum er
mikið af yndislegum minningum um
hana sem verður frábært að ylja sér
við og reyna að fylla tómarúmið með.
Það nefnilega getur enginn fyllt það
skarð.
Blessuð sé minning bestu tengda-
mömmu í heimi, hún var mér sönn
fyrirmynd.
Árný Jóhanns.
Ég get ekki látið hjá líða að minn-
ast elskulegrar vinkonu minnar, allt
frá æskudögum, Nönnu Nikulás-
dóttur. Hún lést hinn 27. janúar sl.,
mér og öðrum mikill missir.
Minningarnar hrannast upp um
allar samverustundirnar á heimili
hennar og manns hennar, sr. Lár-
usar Halldórssonar, og á heimili
mínu.
Fari ég langt aftur í tímann er of-
arlega í huganum dvölin í Flatey á
Breiðafirði, en það var fyrsta presta-
kall sr. Lárusar. Mér finnst hafa ver-
ið sólskin, hvern dag sem ég dvaldi
þar, og vart eru til orð yfir náttúru-
fegurðinni, fjallahringnum og skín-
andi hafinu. Eftir að þau fluttu suður
var sr. Lárus lengst af prestur í
Breiðholti.
Nanna var frábær húsmóðir,
myndarleg í öllum verkum. Ég held
að prestskonur verði að taka á ýmsu,
sem aðrar húsnæður þurfa ekki. Allt
fórst henni vel.
Fyrir um 15 árum fengu þau hjón-
in sér hjólhýsi, sem var komið fyrir í
Skriðufellslandi í Þjórsárdal. Þang-
að vorum við Guðni, maðurinn minn,
oft boðin. Þar var gott að vera, sama
gestrisnin og í borginni, og oft sól-
skin.
Eftir að ég missti manninn minn,
Guðna Árnason, gerðu þau hjónin oft
sitthvað til að létta mér lífið. Það
voru farnir bíltúrar í nærsveitir og
þá einhvers staðar komið við og
drukkið kaffi.
Ég á eftir að syrgja og sakna
Nönnu mikið. Lífið verður ekki það
sama.
Guð blessi minningu hennar.
Agnes Steinadóttir.
Þú komst í Flatey á kyrrlátu vori
með kærleika, ást þína og trú.
Þú söngst af gleði í sérhverju spori
þó svefninn þig geymi nú.
Við kveðjum þig Nanna,
sem vorum þar vestra,
já, vinirnir hverfa á braut.
Ég orð þessi mæli
fyrir munn okkar flestra,
sem munum þig,
far vel í drottins skaut.
(Einar Steinþórsson.)
Elsku Lárus, Anna María, María
Kristín, Sigga, Halldór og aðrir ást-
vinir Nönnu. Innilegar samúðar-
kveðjur til ykkar allra. Megi minn-
ingin um yndislega konu verða ljós í
lífi ykkar. Við erum þakklát fyrir að
hafa átt hana að vini. Hjartans þakk-
ir fyrir allt.
Gréta og Einar, Stykkishólmi.
ÞÓRDÍS NANNA
NIKULÁSDÓTTIR