Morgunblaðið - 17.05.2006, Side 22
22 MIÐVIKUDAGUR 17. MAÍ 2006 MORGUNBLAÐIÐ
MENNING
SEM barn hafði ég ekki gaman af brúðum og
eina brúðuleikhúsið sem ég sá var Baldur og
Konni. Fullorðin hef ég heillast, kannski þess
vegna mest af þeirri tegund brúðuleikhúss þar
sem brúðustjórnandi er sýnilegur, að horfa á
mann og brúðu; sjá hvernig andi hans eins og
hverfur úr líkamanum og flytst inn í brúðuna,
sjá manninn tæmast, líkjast hylki eða andlits-
lausum skugga sem þögull hreyfir strengi lif-
andi brúðunnar – og vita þó af einbeitingunni,
orkunni, tilfinningu hugsunarinnar sem er
þarna í skugganum, eða hvað? Það gerði mig
líka andaktuga í sýningu Bernds Ogrodnik og
að sjá umgengni hans milli atriða við brúð-
urnar og leikmunina, hve mjúkum, hægum
höndum hann fór um þau, hvernig hann eitt
sinn strauk undurblítt yfir einn leikmuninn,
eftir örlítið hnjask, svona eins og til að hugga
hann.
Bernd birtist okkur spilandi á banjó sitjandi
á heljarstóru hnattlíkani máluðu í brúnum,
grænum, bláum vatnslitum. Á þessum hnetti
gerist svo einnig fyrsta verkið, þar birtast
pínulitlir rauðir skór, fingur stinga sér í skóna
og úr verða fætur; trékúla milli annarra fingra
og úr verður haus „Grindahlauparans“, sem
gerir tilraunir til að hlaupa yfir heimsálfur,
óttast að dýfa fæti í úthafið, rennir sér yfir
norðurpólinn, lendir klofvega yfir grindina, úff
það var sárt! En eftir það opnast hnötturinn,
skiptist upp í þrjá hluta, og í þeim eru geymd-
ar allar brúðurnar og leikvellir fyrir hinar ör-
sögurnar eða ljóðin sjö sem hann segir fyrir
hlé um fegurð, drauma, æsku og elli, frels-
isþrána, grimmd, eyðileggingarhvöt mannsins
og dauða. Ótrúlegt að sjá hvernig persóna og
ævintýri, gleði og sorg spretta nánast upp úr
engu, verða til úr hendi, nokkrum fingrum,
einni slæðu.
Í „Fegurðarskyni“ verður brúðan hins veg-
ar til úr brúðuleikaranum öllum. Hann situr
með hana, slæðubrúðuna sem er hann, í fang-
inu; undan rauðum klúti fætur hans, berir að
ökkla, hnefi upp úr klúti með klút, á milli
fingra augu úr tré: Hún rigsar um konan, horf-
ir í spegil, henni bregður, nefið á henni lengist,
ó, ó, henni vex skegg, þvílík gæfa! Og áfram
umbreytist hún, hin höndin núna í kónguló,
marglyttu, fisk og loks fagran fugl sem flýgur
burt.
Viðkvæmnislegri, ljóðrænni eru slæðubrúð-
urnar „Móðir og dóttir“: tvær hendur, tvær
slæður, tvær grímur (margar grímur). Og úr
verður undursamleg einföld saga allra alda um
fæðingu, umönnun og ást, barnið sem vex úr
grasi og annast síðan hina eldri í elli og dauða.
Svo eru þarna strengjabrúður, klassískt stef í
brúðuleikhúsi; „Frelsi“, nakin brúðan berst við
brúðustjórnandann fyrir frelsi sínu, hún hegg-
ur á hvíta höfuðstrenginn, lífsþráðinn, hún
deyr. Einnig Bunrakubrúður eins og í
„Draumi drengsins“, nokkurs konar brúðu-
leikhús í brúðuleikhúsi, þar sem leik-
fangahestur verður lifandi og fer með sofandi
drenginn í ferðalag og mikil er furða hans og
tregi þegar hann vaknar. Og blómálfurinn í
„Ráninu“, stjórnað af örsmáum stöngum, feg-
urð hans er svívirt, hann brotnar undan of-
beldinu, bæklast. Þvílík hreyfingalist.
Seinni hluti sýningarinnar samanstendur af
þremur lengri verkum: „Ástarsögu“ fingra-
brúða, brúðkaupi, hjónabandi, mikilli gam-
ansögu; „Einari Einarssyni“ sem einnig er
gamansaga úr viku í lífi nútímamanns sem býr
einn með ketti. Verk byggt inn í kassa leik-
sviðs, strengjabrúður með lýsingu og hljóð-
effektum; og „Trúarstökki“ sem Bernd hefur
sagt í viðtali „að fjalli um að manneskjan hafi
alltaf val, hann sýni lítinn mann sem hlaupi í
átt að ljósinu, komi að hyldýpi og þurfi að taka
ákvörðun um hvort hann eigi að stökkva“.
Eitthvað gerðist í því verki sem hindraði skiln-
ing, andstæðan milli mannsins fasts í snún-
ingshjóli og mannsins sem hleypur varð ekki
skýr, hreyfingar brúðanna óljósar, umbún-
aðurinn of mikill, aðeins fagur dimmur helgi-
hljómurinn í lýsandi hljómskálinni verður eftir
í huganum af því verki.
Reyndar hreifst ég ætíð meir af þeim verk-
um þar sem umbúnaðurinn var lítill, því um-
búnaðurinn, leikhljóðin fjarlægja. Þau rjúfa
sambandið við brúðuleikarann og undrið mikla
sem á sér stað milli hans og brúðunnar; svipta
mig þeirri ró, mildi og hlýju sem mér er vagg-
að í og hrekja mig út úr tímanum langa, þeim
forna og nýja, sem brúðuleikarinn hefur gefið
mér.
Undur einfaldleikans
LEIKLIST
Þjóðleikhúsið
Brúðuleiksýning eftir Bernd Ogrodnik. Brúðuleikari,
brúðugerð, leikmynd og tónlist: Bernd Ogrodnik.
Leikstjóri: Ágústa Skúladóttir. Búningar: Þórunn
Elísabet Sveinsdóttir. Lýsing Páll Ragnarsson. Þjóð-
leikhúsið, Kassinn, sunnudagur 14. maí kl. 17.
Umbreyting – ljóð á hreyfingu
„Ótrúlegt að sjá hvernig persóna og ævintýri,
gleði og sorg spretta nánast upp úr engu,
verða til úr hönd, nokkrum fingrum, einni
slæðu,“ segir gagnrýnandi.
María Kristjánsdóttir
LANDSBÓKASAFN Íslands – háskólabókasafn í sam-
vinnu við Listahátíð í Reykjavík og Eddu – útgáfu opnar
á morgun, fimmtudag, sýninguna Myrkraverk og mis-
indismenn – Reykjavík í íslenskum glæpasögum.
„Við drögum fram borgarmynd íslenskra glæpasagna
frekar en að rekja sögu íslenskrar glæpasagnaritunar,“
segir Katrín Jakobsdóttir íslenskufræðingur, einn að-
standenda sýningarinnar. „Sýningin er Reykjavíkur-
miðuð og hefst á árinu 1932 með bókinni Leyndardómar
Reykjavíkur. Svo tökum við stikkprufur alveg til ársins
2005 og reynum að sýna þær borgarmyndir sem birtast í
sögunum.“
Lilja Gunnarsdóttir, ljósmyndari og teiknari, útbýr
myndskreytingar við texta sem Katrín hefur samið um
hverja sögu: „Þær bækur sem birta einna sterkastar lýs-
ingar á borginni fengu að vera með, sér í lagi þær sem
lýsa allt annarri Reykjavík en við verðum flest vör við
hversdagslega,“ segir Lilja. „Sumar lýsingarnar koma
skemmtilega á óvart og sýna allt annan reykvískan raun-
veruleika en var á hverjum tíma.“
Undirheimar Reykjavíkur verða til
„Það eru mjög ólíkar borgarmyndir sem við höfum
fundið í glæpasögunum; margar Reykjavíkur,“ bætir
Katrín við. „Íslenskir glæpasagnahöfundar eiga það
sammerkt að þeir reyna að búa til trúverðugar sögur og
þá skiptir máli að hafa trúverðugt sögusvið líka. Íslensku
undirheimarnir virðast hafa orðið til mjög snemma í bók-
menntunum en mismunandi hvernig höfundar nota sam-
tímann sem sögusvið. Í elstu bókinni er Reykjavík lýst á
ævintýralegan hátt sem mikilli stórborg með fjallháum
stórhýsum, bílastraumi og mannþröng, en á þessum tíma
bjuggu aðeins um þrjátíu þúsund manns í borginni. Höf-
undar draga ýmist upp mynd af Reykjavík sem lastabæli
eða draumalandi. Sumir nota alla borgina sem sögusvið
og aðrir halda sig niðri í Austurstræti. Sumir tjá út-
hverfin sem eyðibyggðir og aðrir sem lifandi hverfi. Svo
má finna skemmtilegar endurtekningar, til dæmis er
sumarbústaðabyggðin fyrir utan borgina vinsælt sögu-
svið líkamsmeiðinga, þangað sem fólk er dregið, barið og
skilið eftir. Það er líka algengt að Reykjavík virðist sam-
ansafn af sveitamönnum, sem komnir eru saman í ein-
hverri stórborg og ráða ekki alveg við það.“
Vetrarborgin í teiknimyndasögu
Á sýningunni eru 20 myndskreyttir flekar þar sem
sögusviði hverrar bókar eru gerð skil og sett í sagn-
fræðilegt samhengi við Reykjavík þess tíma. Til viðbótar
við framlag Katrínar og Lilju hefur Halldór Baldursson
myndlistarmaður unnið myndskreytingar við Vetrar-
borgina, bók Arnaldar Indriðasonar. Halldór kaus að
nota myndasöguformið og vinnur myndverk úr hundr-
uðustu hverri síðu bókarinnar. Hann ber þannig niður
með skipulögðum en þó tilviljanakenndum hætti í sögu-
þræði bókarinnar, eins og Katrín kemst að orði: „Það er
mjög spennandi að sjá lokaútkomuna. Hann hefur búið
til persónur Erlendar og félaga sem er skemmtilegt að
sjá. Ég hef fengið að kynnast því að Erlendur er persóna
sem á sér stað í hjörtum þjóðarinnar og allir eiga sinn
Erlend.“ Lilja bætir við: „Í því fólst ein stærsta áskor-
unin í myndskreytingunum, því þeir sem þekkja bæk-
urnar sem við tökum fyrir hafa gert sér ýmsar hug-
myndir um þær og sögupersónurnar. Ég forðast því að
reyna að setja nýtt andlit á söguhetjurnar, koma þeim á
mynd án þess þó að skemma fyrir fólki þeirra eigin hug-
myndir.“
Umsjónarmaður sýningarinnar er Emilía Sigmars-
dóttir.
Bókmenntir | Borgarmynd Reykjavíkur í glæpasögum
Myrkur miðbær og vara-
samir sumarbústaðir
Skuggaleg götumynd Reykjavíkur sem morar í leynilegum spilavítum og drykkjubúllum.
Eftir Ásgeir Ingvarsson
asgeiri@mbl.is
Sýningin Myrkraverk og misindismenn – Reykjavík í ís-
lenskum glæpasögum verður í Landsbókasafninu til 31.
ágúst og opin á afgreiðslutíma safnsins.
ÚTVARPSMAÐURINN og rithöf-
undurinn Garrison Keillor hefur
skemmt bandarískum hlustendum í
rúm þrjátíu ár með útvarpsþætti
sínum A Prairie Home Companion.
Þátturinn blandar saman tónlist og
gamansögum og er ávallt fluttur
fyrir framan áhorfendur í beinni út-
sendingu. Í gærkvöldi var þátturinn
fluttur frá stóra sviði Þjóðleikhúss-
ins fyrir framan íslenska áhorf-
endur og sendur út beint á Rás 2.
Blaðamaður náði að spjalla við
Keillor skömmu áður en þátturinn
fór í loftið í gærkvöldi.
Hvernig gengur undirbúning-
urinn?
„Við vinnum að þættinum alveg
fram á síðustu stundu. Þátturinn
hefst klukkan átta og ég býst við að
ég verði ennþá að skrifa hann í
kringum sjöleytið.“
Vinnurðu alltaf þannig?
„Ég hef verið að gera þetta í
þrjátíu og tvö ár og af einhverjum
ástæðum virðist ég aldrei ætla að
geta unnið fram í tímann. Öllu er
ýtt fram að síðustu metrunum. Ég
held að ég byrji aldrei að skrifa
þáttinn fyrr en í mesta lagi tveimur
dögum fyrir útsendingu.“
Af hverju ákvaðstu að gera þátt-
inn hérna?
„Ég á íslenskan vin í Bandaríkj-
unum sem kemur alltaf hingað á
sumrin. Hann hefur verið að reyna
að fá mig til að heimsækja Ísland í
mjög langan tíma en ég hef alltaf
sagt honum að ég hefði alls ekki
tíma til þess þar sem ég væri stöð-
ugt að vinna. Þá stakk hann upp á
því að ég skyldi þá einfaldlega
vinna hérna á Íslandi og flytja þátt-
inn hingað. Og það var það sem ég
gerði.“
Hver er meginhugmyndin á bak
við þennan þátt?
„Í þættinum eru sameinaðir mis-
munandi hlutir eins og brandarar,
sögur og tónlistarflutningur í eitt
og sama atriðið. Í kvöld reynum við
líka að bæta við örlítilli fræðslu um
Ísland fyrir bandarísku hlustend-
urna. Þetta snýst þannig um fjöl-
breytni og að setja mismunandi
hluti saman. Enn fremur snýst
þátturinn um útvarpið sjálft. Í
Bandaríkjunum er útvarpið að
koma sterkt inn aftur. Útvarpið er
mjög sterkur miðill og það er meðal
annars vegna þess að það getur far-
ið hvert sem er. Það hentar vel
fólki við vinnu, við ferðalög, við að
hjóla, við að ganga, við ýmiss konar
leikfimi og við annað sem fólk gerir
á laugardögum. Það er hægt að
taka útvarpið með í næstum hvað
sem er. Það sem við erum að reyna
að gera er að bjóða bandarískum
hlustendum upp á eitthvað sem er
ólíkt öllu öðru. Fréttirnar eru alltaf
á sínum stað og allar tónlistarteg-
undirnar hafa sína ákveðnu stöð.
Við sameinum allt þetta í eina sýn-
ingu með lifandi tónlistarflutningi
og við bætum síðan við gríni og höf-
um auk þess áhorfendur sem lífga
upp á stemninguna.“
Finnst þér mikilvægt að hafa
áhorfendur?
„Já, tvímælalaust. Þegar maður
er með uppistand er mjög mik-
ilvægt að hafa eitthvert fólk fyrir
framan sig. Það er tilgangur uppi-
stands, gamanmál er hlutur sem
hlegið er að. Ef það er ekki hlegið
að því þá er ekki hlegið að því.“
Menning | Þjóðleikhúsið hýsti í gær einn
vinsælasta útvarpsþátt Bandaríkjanna
Brian Velenchenko
Útvarpsmaðurinn snjalli Garrison Keillor.
Máttur útvarpsins
Eftir Þormóð Dagsson
thorri@mbl.is