Morgunblaðið - 11.06.2006, Page 36
36 SUNNUDAGUR 11. JÚNÍ 2006 MORGUNBLAÐIÐ
Dyrnar á lyftunni opnastog Masood Kharotistendur brosandi ádyrapallinum. Hann erhávaxinn og þrekinn
og tekur þétt í höndina á mér. „Vel-
komin, gakktu í bæinn!“ Út um
gluggann sést yfir Kópavog og út á
sjó. Masood býr á sjöundu hæð í
blokk í Engihjalla.
Meðleigjandi Masood situr í hæg-
indastól inni í stofu. Hann er líka
frá Afganistan. Hann hjúfrar sig
undir þykku teppi, lítur á rigning-
arsuddann út um stofugluggann og
kveður sposkur upp úr með: „Það
er kalt í kvöld.“
Félagarnir hittust á Íslandi
stuttu eftir að Masood kom til
landsins árið 2000. Ég spyr hvernig
þeir hafi frétt hvor af öðrum.
„Reykjavík er nú engin New
York …“ Þeir hlæja. Í jafnfámennu
samfélagi fréttist fljótt af ein-
hverjum frá sama landi, langt í
burtu. Félagarnir segja að hér á
landi séu samtals sex Afganar.
Masood býður sæti í sófanum og
lýsir því hvernig hann hafi sigtað
einn þeirra út á Borgarbókasafninu.
„Ég sá hann og fannst að hann hlyti
að vera frá Afganistan, jafnvel þótt
fólk í Afganistan sé mjög ólíkt í út-
liti. Ég sjálfur er til dæmis past-
úni,“ segir hann.
Afganar á Íslandi, Íslendingar í
útlöndum. Fólk þekkir hvað annað
úr fjöldanum.
En ég dó augljóslega ekki …
„Af hverju ég kom til Íslands? Nú
ég var að leita að norðurljósunum!“
segir Masood og brosir. Hann bætir
við að í Afganistan séu engin norð-
urljós. Masood kann vel við sig á Ís-
landi og talar fína íslensku.
Raunveruleg ástæða Íslandskom-
unnar er þó öllu alvarlegri en norð-
urljósaleit. Undir stjórn talibana
hafði hann þrisvar sinnum verið
settur í fangelsi og þótti sér ekki
vært í landinu lengur.
„Ef maður var á móti talibönum
lenti maður í vandræðum. Og þeir
sem voru með mikið vesen voru
drepnir,“ segir hann og bætir við:
„En ég dó augljóslega ekki!“
Aðspurður um aðbúnaðinn í fang-
elsunum svarar Masood glottandi
að þau hafi ekki verið eins og þau
íslensku „með sjónvarpi og tölvu“.
Þetta hafi verið lítil og dimm her-
bergi með engu inni í og enginn hafi
mátt heimsækja fangana. „Þú
varðst bara að vera þarna – og
reyna að skemmta þér …“ segir
hann og hlær.
Ég hvessi augun á Esjuna út um
gluggann og á allt í einu erfitt með
að sjá Masood fyrir mér í dimmri
kompu og á átakasvæði. Maímán-
uður í ár var blóðugur í Afganistan.
Mikið mannfall varð í suðurhluta
landsins og í Kabúl voru óeirðir.
Fyrirsagnirnar Með hörðustu bar-
dögum frá árinu 2001 og Talib-
analeiðtogi handtekinn? lifna
skyndilega við í glaðlegum ungum
manni sem situr makindalega í sófa
í Kópavoginum.
Ég geri mér ekki grein fyrir því
hve Masood er gamall og spyr
hvaða ár hann sé fæddur. „Miðað
við hvaða tímatal?“ spyr hann á
móti, skellir upp úr og segist vera
fæddur árið 1353 í Afganistan. Það
sé sama og árið 1975 á Íslandi.
Hann sýnir mér að gamni skilríki
og ég rek augun í afmælisdaginn 1.
janúar. Masood verður sposkur og
útskýrir að þegar skilríkin voru bú-
in til hafi ekki verið búið að reikna
hvað 23. dagur fimmta mánaðar,
samkvæmt afganska tímatalinu,
þýddi. Því var 1. janúar einfaldlega
skrifaður. Seinna kom í ljós að af-
mælisdagurinn fellur á 14. ágúst.
Foreldrar Masood eru í Afganist-
an, sem og bræðurnir tveir og syst-
urnar fimm. Sjálfur vildi hann í
raun ekki yfirgefa landið en fjöl-
skyldan lagði hart að honum að
fara. Hún var hrædd um að hann
lenti í frekari vandræðum við talib-
ana, hrædd um að hann „segði eitt-
hvað og það myndi fara illa“, eins
og hann orðar það. „Ef maður talar
of mikið endar maður á Íslandi!“
Komdu með byssurnar!
Ástæður talibana fyrir fangelsun
Masood voru út í hött. „Þeir sögðu
kannski við þig: Þú ert með byssu
og verður að láta okkur fá hana en
þú sagðir nei af því að þú áttir enga
byssu. Þá varstu tekinn á lög-
reglustöðina og kannski laminn
þangað til þú gast ekki gengið. Þá
var sagt: Komdu með byssurnar!
Og þú sagðir að þú ættir engar
byssur, varst þá laminn meira og
síðan settur í fangelsi. Þetta var fá-
ránlegt,“ segir hann.
Fjölskylda hans hafði enga
ákveðna hugmynd um hvert Maso-
od ætti að fara en vildi einungis að
staðurinn væri öruggur. Frá Afgan-
istan fór hann yfir til Pakistan og
þaðan til Sameinuðu arabísku
furstadæmanna. Eftir ýmsa áfanga-
staði endaði hann loks á Íslandi.
Kannski er vart hægt að fara á
milli ólíkari staða en Afganistans og
Íslands. Masood kinkar kolli og seg-
ir Ísland vissulega hafa verið allt
öðruvísi en það sem hann átti að
venjast í Afganistan. „Hér kyssist
fólk til dæmis úti á götu. Ég man
enn eftir því þegar ég sá það í
fyrsta skipti, það var á Hlemmi!“
segir hann og skellihlær. „Hérna
vaknar maður líka á morgnana án
þess að heyra að svo og svo margir
hafi látið lífið. Og það var skrýtið að
venjast birtunni og líka verðlaginu.
Síðan tók maður eftir því að bílar
eru greinilega mjög mikilvægir á
Íslandi,“ segir hann og glottir.
Fyrst eftir komuna til landsins
var Masood á gistiheimili í Grinda-
vík. „Um kvöldið heyrði ég bíla aka
um og spila tónlist. Ég spurði hvað
væri um að vera og þá var fótbolta-
leikur í gangi á milli Grindavíkur og
Keflavíkur. Ég fór á staðinn og
þurfti að ganga yfir eitthvert gras
til að ná í miðana og allt í einu
fannst mér ég vera á jarð-
sprengjusvæði. Ég gleymdi að ég
var ekki lengur í Afganistan heldur
kominn langt í burtu, til Íslands og
á leiðinni á einhvern fótboltaleik …“
Og hvar er þá Osama bin Laden?
Masood fékk meðal annars hjálp
frá Rauða krossinum hér á landi og
var fljótur að fá vinnu eftir að hafa
fengið atvinnuleyfi. Hann var ráð-
inn hjá Verktökum Magna þar sem
hann hefur verið síðan. Masood hef-
ur sótt námskeið, unnið sig upp og
ekur í dag stærstu flutningabíl-
unum sem ferja stórvirkar vinnu-
vélar.
„Það er mjög gott að vera þarna,
vinnufélagarnir eru fínir og enginn
greinarmunur gerður á mér og Ís-
lendingunum. Það er til dæmis ekk-
ert mál að ég sé múslimi,“ segir
Talibanar, norðurljós
og íslenska sumarið
Masood Kharoti frá Afganistan var þrisvar sinnum
settur í fangelsi undir stjórn talibana en yfirgaf landið
árið 2000, ferðaðist yfir hálfan hnöttinn og settist að hér
á landi. Masood er fæddur árið 1353 og sagði
Sigríði Víðis Jónsdóttur frá símtölum til Afganistan,
felugöngum og fangavist og spurningunni sem hann er
ævinlega spurður: Hvar er eiginlega Osama bin Laden?
Morgunblaðið/Ásdís
Masood Kharoti er frá Afganistan og flúði til Íslands fyrir sex árum. Hann kann vel við lífið hér á landi en segir margt öðruvísi en það sem hann átti að venjast þar, verðlagið hátt og bílar mun vinsælli.
Átök í Afganistan
1975 Masood fæðist í borginni Jalalabad í austurhluta Afganistan.
1979 Sovéskur her ræðst inn í Afganistan til að treysta í sessi komm-
únistastjórn sem verið hafði við völd um hríð en stóð höllum fæti. Sovéther-
inn berst við afganska uppreisnarflokka trúrækinna múslíma sem studdir
eru af Bandaríkjunum, Pakistan og fleirum.
1989 Sovétríkin draga herafla sinn til baka eftir tíu ára blóðugt stríð.
1992 Innanlandsátök magnast enn eftir fall kommúnistastjórnarinnar og
borgarastyrjöld brýst út.
1996 Talibanar komast til valda.
2000 Masood ákveður að yfirgefa Afganistan.
2001 Bandaríkjaher ræðst inn í Afganistan í leit að Osama bin Laden.
Stjórn talibana er steypt.