Morgunblaðið - 22.09.2006, Side 21
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 22. SEPTEMBER 2006 21
SUÐURNES
Eftir Svanhildi Eiríksdóttur
Innri-Njarðvík | „Börnin sem hafa
notað vinnuferli könnunaraðferð-
innar eru mun meðvitaðri um um-
hverfi sitt en þau sem það hafa ekki
gert og orðaforði þeirra hefur eflst.
Við finnum verulegan mun á börn-
unum og foreldrar þeirra hafa
margoft lýst yfir ánægju með verk-
efnið. Okkar áherslur eru þær að
verkefnið „Lifandi lestur“ sé komið
til að vera,“ sögðu Kristín Helga-
dóttir, leikskólastjóri á Holti, og
Anna Sofia Wahlström verkefnis-
stjóri.
Nýverið kom „Lifandi lestur“ út
á dvd sem heimildarmynd um að-
ferðafræði könnunaraðferðarinn-
ar, sem hófst sem þróunarverkefni
í leikskólanum Holti haustið 2004. Í
heimildarmyndinni er fylgst með
hópi stráka sem unnu með bókina
„Mánasteinar í vasanum“ eftir
Brian Pilkinton. Í sögunni kemur
m.a. fyrir bátur sem vakti áhuga
þeirra og ákveðið var að kanna
frekar. Fylgst er með ferli vinn-
unnar frá því að viðfangsefnið var
ákveðið þar til búið var að kryfja
efnið til mergjar.
Miklar upplýsingar um báta
„Við byrjum alltaf á því að kanna
hvaða vitneskju börnin búa yfir og
bætum síðan ofan á þá vitneskju
með því að leita að þekkingu. Bátar
voru skoðaðir og rannsakaðir út frá
mörgum hliðum,“ sagði Anna Sofia
Wahlström verkefnisstjóri í sam-
tali við Morgunblaðið.
Í heimildarmyndinni má sjá að í
Reykjanesbæ bjóðast margir
möguleikar fyrir öflun vitneskju
um báta. Hægt er að heimsækja
Bátasafn Gríms Karlssonar, fara
niður á bryggju, skoða víkingaskip,
tala við fróða menn og svo auðvitað
horfa út á hafið.
„Við tókum líka fyrir dreka. Það
viðfangsefni leiddi okkur út í um-
ræður og vinnu með eldinn sem
síðan þróaðist í þekkingarleit um
slökkviliðið. Einnig voru hús og
húsbyggingar vinsælt viðfangsefni
og kötturinn og fiskar, enda bregð-
ur þessu öllu fyrir í bókinni. Það er
svo misjafnt hversu langt hvert
könnunarferli er þar sem áhuginn
á viðfangsefninu er mismikill. Við
grípum svo tækifærið þegar þau
fara að sýna öðru áhuga eins og
stöfunum og stærðfræði og tengj-
um við og þannig kemur verkefnið
á endanum inn í allt leikskólastarf-
ið,“ sagði Anna Sofia og bætti við
að drekinn hefði verið mjög
skemmtilegt viðfangsefni sem
börnin tala um enn í dag þó að tvö
ár séu liðin síðan það var tekið fyr-
ir.
Meiri áhugi á bókum nú
Kristín Helgadóttir leikskóla-
stjóri sagði að framundan væri að
kynna þetta þróunarverkefni á
málþingi Kennaraháskóla Íslands í
næsta mánuði. Hún sagðist vona að
heimildarmyndin nýttist öðrum
leikskólum í landinu og að þeir sem
hefðu áhuga á verkefninu gætu
nálgast myndina á Holti.
„Við vorum byrjuð að nota þessa
aðferð áður en við fengum styrk
frá Þróunarsjóði leikskóla og
fannst það gefa góða raun, ekki síst
vegna þess hversu áhrifin eru
margþætt. Við fundum fyrir aukn-
um áhuga á bókum. Börnin í þrem-
ur elstu árgöngunum fengu bóka-
gjöf frá foreldrafélaginu og
foreldrar voru beðnir um að lesa
með þeim heima. Á þann hátt dróg-
ust þeir inn í verkefnið heima með
lestri. Þetta hefur einnig eflt for-
eldrasamstarf,“ sagði Kristín í
samtali við blaðamann. Hún sagði
jafnframt að haldið yrði áfram með
verkefnið í leikskólanum þó að því
væri lokið sem þróunarverkefni.
Þó yrði einungis hægt að færa elsta
árganginum bókagjöf vegna þess
hversu leikskólinn hefði vaxið. Aðr-
ir foreldrar hefðu verið beðnir um
að verða sér úti um bókina eftir
öðrum leiðum.
TENGLAR
............................................
www.reykjanesbær.is/holt
Heimildarmynd gefin út um verkefnið „Lifandi lestur“ á leikskólanum Holti
„Finnum verulegan mun“
Morgunblaðið/Svanhildur Eiríksdóttir
Könnunaraðferð á Holti Anna Sofia Wahlstöm verkefnisstjóri og Kristín Helgadóttir, leikskólastjóri á Holti, í
móanum umhverfis leikskólann. Móinn hefur alla tíð verið uppspretta könnunarleiðangra hjá börnunum.
Keflavíkurflugvöllur | Flugstöð Leifs Ei-
ríkssonar hf., Fríhöfnin ehf. og Golf-
klúbbur Suðurnesja héldu golfmót á dög-
unum. Þátttakendur keyptu högg af
atvinnukylfingum á vissum holum og fyr-
irtækin tvöfölduðu þá fjárhæð sem safn-
aðist. Söfnunarféð var afhent Þroskahjálp
á Suðurnesjum, samtals 300 þúsund kr.
Myndin var tekin við afhendinguna, f.v.
Halldóri Leví Björnsson, formaður
Þroskahjálpar á Suðurnesjum, Hlynur
Sigurðsson, framkvæmdastjóri Fríhafn-
arinnar, Elín Árnadóttir, staðgengill for-
stjóra FLE, Sóley Ragnarsdóttir, for-
stöðumaður starfsþróunarsviðs FLE, og
Gylfi Sigurðsson, framkvæmdastjóri GS.
Þroskahjálp á Suður-
nesjum fær styrk
Reykjanesbær | Bæjarstjórn Reykjanes-
bæjar hefur ákveðið að lækka gjald fyrir
vistun barna á leikskólum bæjarins. Eftir
breytingar mun átta tíma vistun með fullu
fæði kosta 23.790 krónur í stað 28.350 kr.
Jafnframt er systkinaafsláttur aukinn.
Lækkun á gjaldskrá leikskóla var á
stefnuskrá sjálfstæðismanna fyrir kosn-
ingarnar í vor. Einnig upptaka umönn-
unargreiðslna. Nú hefur bæjarstjórn sam-
þykkt bæði málin. Fulltrúar minnihlutans
greiddu atkvæði á móti tillögunum. Þeir
vildu lækka leikskólagjöldin enn meira og
töldu umönnunargreiðslur ekki rétta leið.
Leikskólagjöld lækk-
uð í Reykjanesbæ
Egilsstaðir | Nú er hjá Gunnars-
stofnun á Skriðuklaustri unnið að
skráningu á handritum og bréfasafni
Gunnars Gunnarssonar skálds í
samstarfi við Landsbókasafn Ís-
lands – háskólabókasafn og sömu-
leiðis verið að skanna inn mikið úr-
klippusafn sem Gunnar skildi eftir
sig og skrá svo það verði aðgengilegt
á tölvutæku formi.
„Einn þátturinn, sem snýr að ævi
Gunnars og verkum er að halda sögu
hans á lofti og til haga öllum hugs-
anlegum heimildum,“ segir Skúli
Björn Gunnarsson, forstöðumaður
Gunnarsstofnunar. „Hér á staðnum
á að byggja upp heimildasafn þannig
að hér verði til öll þau gögn sem
menn þurfa á að halda til að rann-
saka Gunnar og verk hans. Slíkt fel-
ur í sér markvissa söfnun á öllum út-
gáfum verka hans, hvort sem er í
bók eða á blaði. Þá þarf að hafa hér
aðgengileg í tölvu eða ljósritum
handrit að verkum, bréf, blaða-
úrklippur og ljósmyndir. Sömuleiðis
erum við byrjuð að safna viðtölum
og upplestrum hans úr sjónvarpi og
útvarpi. Þá hafa afkomendur Gunn-
ars hug á að færa höfundarrétt
skáldsins tímabundið til stofnunar-
innar sem gerir það að verkum að
við getum farið að vinna markvisst
að því að þrýsta á um útgáfu á verk-
um hans.“ Skúli Björn segir þar
mörg tækifæri. Gunnar hafi lítið ver-
ið gefinn út erlendis og bækur hans
að verða ófáanlegar á Íslandi.
„Stofnunin á ekki að mínu mati að
snúast einvörðungu um fortíðina
heldur einnig um að halda hug-
sjónum Gunnars lifandi,“ heldur
Skúli Björn áfram. „Við heiðrum
minningu skáldsins með því að hafa
verk hans aðgengileg og segja frá lífi
hans og starfi. Hann var á kafi í
mörgu öðru en skáldskapnum og
einkar framfarasinnaður. Úti í Dan-
mörku gerði hann t.d. töluvert af því
að styðja við bakið á ungum lista-
mönnum og var Kjarval þar á meðal.
Þekkti örbirgð á eigin skinni
Þá var hann alla tíð viljugur að
láta fé af hendi rakna til hvers konar
góðgerðarmálefna. Menn segja að
hann hafi þekkt örbirgðina á eigin
skinni eftir fyrstu árin sín í Dan-
mörku og því ætíð viljað rétta hjálp-
arhönd. Að mínu mati er mikilvægt
að Gunnarsstofnun reyni að fram-
fylgja og vinna að hugsjónum
skáldsins um leið og verkum hans er
haldið á lofti. Það er göfugra mark-
mið en margt annað.“ Skúli Björn
segir bækur Gunnars eiga fullt er-
indi við 21. aldar manninn, þótt nú
séu liðin eitt hundrað ár frá útgáfu
fyrstu bóka skáldsins. „Þær stand-
ast fyllilega tímans tönn.“
Bókmenntir sem eiga fullt
erindi til 21. aldar mannsins
Morgunblaðið/Steinunn Ásmundsdóttir
Hughrif Ritvél Gunnars við stofugluggann á Skriðuklaustri, hvar hann hefur vísast sótt innblástur í fagra útsýn.
Unnið að skráningu
handrita og bréfasafns
Gunnars skálds
Egilsstaðir | Enn eitt metárið í far-
þegafjölda um Egilsstaðaflugvöll
virðist í uppsiglingu.
97.517 farþegar fóru um völlinn
fyrstu átta mánuði ársins og er það
19% aukning frá því á sama tíma í
fyrra. Í fyrra fóru rétt undir 126.900
farþegar um völlinn og því meira en
líklegt að það met verði slegið í ár, en
sl. fjögur ár hefur verið stöðug aukn-
ing í nánast öllum þáttum þjónustu á
Egilsstaðaflugvelli, m.a. hefur orðið
11% aukning á fraktflutningum.
13% fleiri flugvélar hafa lent á
vellinum fyrstu 8 mánuði ársins en í
fyrra, eða 1.842 vélar.
Fjölgun lendinga er hlutfallslega
ekki jafn mikil og fjölgun farþega og
segir það að sætanýting í vélunum er
betri nú en í fyrra.
Í ár stóð að byggja viðbótarhús-
næði fyrir farþega, þar sem húsnæði
flugstöðvarinnar reynist mjög
þröngt í öllum þeim umsvifum sem
þar eru, en það frestast eitthvað.
Enn eykst
flug og far-
þegafjöldi
Egilsstaðir | Á miðvikudag hófust
beinar útsendingar frá fundum
bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs.
Eru þeir sendir út á Netinu þannig
að hægt er að horfa og hlusta á full-
trúa bæjarstjórnar í beinni útsend-
ingu. Hver fundur verður auk þess
vistaður á vefþjóni þannig að hægt
verður að kalla þá fram hvenær
sem óskað er eftir að fundi lýkur.
Reglulegir fundir bæjarstjórnar
eru haldnir tvisvar í mánuði og þá
að jafnaði fyrsta og þriðja miðviku-
dag mánaðarins.
Bæjarstjórnar-
fundir í beinni
LANDIÐ
♦♦♦