Morgunblaðið - 26.02.2007, Blaðsíða 31

Morgunblaðið - 26.02.2007, Blaðsíða 31
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 26. FEBRÚAR 2007 31 menning SÝNINGIN sem spannar allan list- feril Jóns Óskars er svo þéttskipuð málverkum, teikningum og öðrum verkum að nánast hvergi sér í hvítan vegg. Einnig er á sýningunni að finna myndbandsverk sem er sýnt á tveimur skjáum inni auk þess að vera samtímis varpað á hvíttaðan glugga á horni safnbyggingarinnar. Myndbandið virðist vera partur úr tölvuleik þar sem starandi grímu- klæddur frosinn eða svipbrigðalaus byssukarl færist fram og til baka á skjánum með kattliðugum hreyf- ingum leyniskyttunnar í leit að bráð. Verkið sést vel utan á safninu þegar dimma tekur og er þegar upp er staðið eitt af leiðarstefjum sýning- arinnar. Það er ekki aðeins uppsetning sýningarinnar sem er óvenjuleg í listasafni heldur er sýningarskráin það líka en hún er sett upp og prent- uð í formi glanstímarits með þétt samanskeyttum myndum af verkum listamannsins, sýningarskrártextum eftir mismunandi aðila á ensku og ís- lensku ásamt tilheyrandi auglýs- ingum. Í grein eftir Hannes Sigurðarson, forstöðumanns Listasafns Akureyr- ar, í sýningarskránni kemur fram að Jón Óskar hafi séð sér farborða gegnum árin með því að vinna við auglýsingahönnun. Það sé nú fyrst að hann felli niður þau skörpu skil sem hann hefur gert á þeirri vinnu sinni annarsvegar og frjálsri list- sköpun hins vegar. Hannes talar einnig um að myndlistarverk Jóns Óskars hafi aldrei náð almennum vinsældum á Íslandi, þótt of stór eða of dökk eða of útlensk. Hins vegar hafi verk Jóns Óskars verið tilnefnd til Carnegie-verðlaunanna. Málverk Jóns Óskars eru aðallega brún og svört þar sem flæði af tákn- myndum og texta leysist upp í óhefta tjáningu, einhverskonar fag- urfræðilegt tilvistarkennt krass sem minnir stundum á veggjakrot. Bý- vaxið í myndunum gefur þeim hlý- lega áferð, efnisleika og tilfinningu. Teikningar Jóns Óskars sem sumar hverjar eru grófar í útfærslu öðlast oft líka þennan fína efnisleika með því að vera gerðar í lögum þar sem hálfgagnsær pappír leikur stórt hlutverk. Sýningarskráin er hönnuð af lista- manninum sjálfum og er augljóslega merkingarbært sjónrænt og hug- myndafræðilegt framlag í sýning- unni. Kolsvartur bakgrunnur forsíð- unnar er með mynd af listamanninum ásamt þremur öðr- um karlmönnum á miðjum aldri. Einn af þessum mönnum er Mikael Torfason, framkvæmdastjóri glans- tímaritaútgáfunnar Birtings, og hin- ir tveir eru víst líka þekktir menn hjá útgáfunni og samstarfsmenn Jóns Óskars. Karlarnir fjórir eru þungbúnir á svip og ekki laust við að svipur þeirra tjái, eða eigi að tjá til- vistarlega angist. Að vissu leyti má segja að auglýsingaklíkan komi hér í stað eða sé hliðstæða hugmynd- arinnar um myndlistarklíkuna. Vin- ir, eins og dr. Michael Glasmeier orðar það í greininni „Master of Lonliness“ drekka og spjalla saman, útnefna hver annan á sýningar, skrifa hver fyrir annan eða gefa út stefnuyfirlýsingar sínar. Þar sem framsetning sýning- arinnar virðist eiga að fletta ofan af þeirri sársaukafullu staðreynd að myndlistin er partur af hinu kapítal- íska hagkerfi hvað sem hver segir þá er áhugaverðast við sýninguna að skoða hvernig það er gert og til hvaða myndlíkinga er gripið og á hvaða hátt afhelgunin er gerð. Þegar sýningartímaritið er skoðað er áberandi að auglýsingarnar í því eru allar undir útlendum vörumerkj- um og eiga að selja kynjaða lúx- usvöru. Snyrtivöruauglýsingar þar sem konum er seld hugmynd um endurheimt húðarinnar í formi krema kallast á við hugmyndina um hið náttúrulega kvenandlit sem mál- verk. Á sýningunni eru einmitt kald- hæðnar ljósmyndir af karlmönnum sem hafa verið málaðir með þykkri málningu eins og málverk. Auglýs- ingum um dömubindi sem elska að vera í g-strengjum er einnig beint til kvenna en auglýsingu frá Goldfinger um dagatalsstúlkurnar þeirra er augljóslega beint til karla. Auglýs- ingar um lúxusvarning fyrir karla felast í flottum bílum og demants- hringum fyrir ástkonurnar. (Mynd af demantshring eins og öngli með þremur ofurskvísum hangandi í). Þótt allar þessar auglýsingar séu kunnuglegar er ljóst að nákvæmt val þeirra í tímaritinu hefur ákveðinn boðskap fram að færa. Ein auglýs- ingin „Shake your head girl with yo- ur ponytail“ sýnir fjóra vini sem hópa sig saman úti í náttúrunni og horfa í augu áhorfandans. Þessi aug- lýsing er þó ekki hefðbundin auglýs- ing þegar betur er að gáð, heldur lík- lega eitt af myndlistarverkum Jóns Óskars. Þessi ofuráhersla á auglýsingar sem hafa augljósar vísanir til hus- tlera og vændiskvenna virðist bein- ast frekar að eðli myndlistarinnar sjálfrar og stöðu myndlistarmanns- ins en að eðli kapítalísks markaðar sem slíks. Strax eftir frönsku bylt- inguna þegar listamenn þurftu að selja vinnu sína á frjálsum markaði skilgreindu þeir sig sem hliðstæðu vændiskvenna, einstaklinga sem þurfa að selja sjálfa sig. Þessi vel þekkta og mikið notaða myndlíking er í fullu gildi í dag og veldur lista- mönnum miklum vandræðum. Í list- heiminum blasir þessi vonda klemma við hvert sem litið er í öllum þverstæðunum um sölulist eða heið- arlega list. Þetta á líka við um bók- menntir og sagt hefur verið að allir höfundar sem selji verk sín séu hór- ur í eðli sínu. Rómantíska bóhema- hugmyndinn um hinn misskilda listamann varð ekki síst eftirsókn- arverð vegna þess að þá var hægt að komast undan þessari skilgreiningu vændisins. En það hefur líka verið gerð tilvistarleg sátt við þessa hug- mynd þar sem listinni er líkt við hol- ræsi eða vændi á þeim forsendum að það sé partur af mannlegu lífi og far- vegur fyrir nauðsynlegar hvatir eða úrgang. Þessa tegund upphafningar þekkjum við vel úr listasögunni allt fram á okkar dag. Um leið og Jón Óskar setur list sína fram í þessu samhengi sölu- mennskunnar með lauslegum en skýrum vísunum til sorpblaða- mennsku og vændis heldur hann í ákveðið útlit „heiðarlegu listarinnar“ með því að hengja verkin upp í belg og biðu og undir merkjum sjálfs- gagnrýni og breiða þannig yfir hve seljanleg listaverkin eru. Það vill nefnilega svo til að málverkin hans Jóns Óskars eru fullgild borgaraleg lúxusvara sem myndu sóma sér vel við hvaða sófasett sem væri. Þetta kom berlega í ljós á sýningu í ANIMA fyrir jól þar sem eitt af risa- málverkum hans tók sig sérlega vel út í heimilislegu umhverfi við hliðina á flygli. Sýningin er frábært yfirlit yfir mikið verk Jóns Óskars og veggfóð- ursleg uppsetningin er sérlega skemmtileg þar sem mörg verkanna vísa beinlínis til veggfóðurs og veggjaskreytis. Sýningarskráin inni- heldur marga áhugaverða texta um verk og listferil Jóns Óskars um leið og hann nær að draga fram gamalt og óleyst vandamál listar og mark- aðar svo ekki sé talað um kynjað eðli listarinnar. Þótt ekki sé ljóst hvort niðurstaða sýningarinnar felist í gamalli feluleikjaklisju (hetjuleg uppgjöf gagnvart bitrum raunveru- leikanum) eða ádeila á hana er um- ræða um þessi málefni bæði áhuga- verð og brýn. Sýningin hefur til að bera þau sjaldgæfu gæði að ná að opna slíka umræðu, ekki síst með því að gefa á sér ákveðinn höggstað. Hið óhjákvæmilega vændi listarinnar Þóra Þórisdóttir MYNDLIST Listasafn Akureyrar, Akureyri Sýningin stendur til 4. mars. Opið alla daga nema mánudaga kl. 12–17. Að- gangur 400 krónur. Jón Óskar, Les yeux de l’ombre jaune Frábær „Sýningin er frábært yfirlit yfir mikið verk Jóns Óskars.“ KVIKMYNDIN Síðasti konungur Skotlands er byggð á samnefndri verðlaunaskáldsögu breska rithöf- undarins Giles Foden, þar sem fjallað er um sannsögulega viðburði í gegnum skáldaðan frásagnarramma. Vettvangur sögunnar er Úganda í stjórnartíð Idi Amin Dada sem varð forseti árið 1971 og stjórnaði landinu með vænisjúkri valdníðslu, ofbeldi og morðum til ársins 1979. Í bókinni, sem og kvikmyndaaðlöguninni eftir henni, er sögð saga ungs skosks læknis, Nicholas Garrigan, sem fer til Úganda í ævintýraleit og kynnist þar Amin skömmu eftir að hann komst til valda, en forsetinn naut þá mikillar lýðhylli, enda gæddur mikl- um sannfæringarkrafti og persónu- töfrum. Amin gerir Garrigan að einkalækni sínum og tekur hann inn í nánustu hirð sína, en þeir sem hljóta slíka náð fyrir augum harðstjórans njóta vellystinga og opins faðmlags. Hinn ungi og ævintýraþyrsti Garrig- an lætur tælast af mögnuðum per- sónuleika Amins og því hóglífi sem stöðunni fylgir. Á sama tíma fer of- beldi Amins gagnvart íbúum lands- ins og andstæðingum sínum stigvax- andi, en álitið er að um 300 þúsund Úgandabúar hafi verið myrtir í stjórnartíð forsetans. Síðasti konungur Skotlands dreg- ur upp magnaða mynd af trufluðum harðstjóra, en gerir hins vegar ekki nógu mikið til þess að draga upp mynd af stjórnmálaástandinu í Úg- anda í kringum stjórnartíð Amins, raunar er sá flötur myndarinnar fyrst og fremst bakgrunnsmynstur til að knýja áfram spennusögu sem hverfist um leik aðalsöguhetjunnar við eldinn. Í fyrri hluta myndarinnar er þó snert á áhugaverðum flötum í því flókna pólitíska ástandi sem ríkti í þessari fyrrum nýlendu Breta á umræddum tíma. Áherslan er þó fyrst og fremst á upplifun sakleysingjans Garrigans sem fer úr öruggum faðmi Vest- urlanda til þess að upplifa eitthvað villt og exótískt, en er kominn of langt inn í „innstu myrkur“ þegar hann áttar sig á því að of seint er að snúa við. Að mörgu leyti sver Síðasti kon- ungur Skotlands sig í frásagnarhefð sem birtir hálfblindaða sýn Vest- urlandabúans á framandi menningu, en kafar ekki mikið dýpra í þeirri skoðun en hvað örlög aðalsöguhetj- unnar varðar. Raunar er erfitt að hafa mikla samúð með þessari sögu- persónu sem lítur á Úganda sem nokkurs konar leikvöll fyrir eigin holdlegar og veraldlegar fýsnir, og fer afneitun hans á því sem er í raun að gerast undir stjórn Amins langt fram úr því að vera grandaleysi og verður að vísvitandi þátttöku, þar sem hann gengur jafnvel svo langt að stefna lífi annarra í hættu til þess að viðhalda hóglífinu og velþóknun Am- ins. Þegar ævintýrum Garrigans í Úganda lýkur er sagan öll, hetjan er sloppin úr faðmi ófreskjunnar (og hér skal ekki sagt hvort hann slepp- ur lifandi eða dauður, um það hverf- ist spennuframvindan í síðari helm- ingi myndarinnar) og vandamál Úganda verða eftir þar sem hetjan skilur við. Í reynd tók engin farsæld við eftir að Amin hrökklaðist frá völdum í Úganda, og var það vart því að þakka að umheimurinn fékk frétt- ir af ástandinu eins og myndin gefur í skyn í lokin. Síðasti konungur Skotlands hefur hins vegar marga kosti sem vega upp á móti göllunum. Öll umgjörð mynd- arinnar er gríðarlega vönduð og áhrifamikil, en leikstjórinn Kevin Macdonald lagði t.d. áherslu á að taka myndina í Úganda í samstarfi við núverandi stjórnvöld og íbúa sem margir hverjir muna eftir hinni blóð- ugu ógnarstjórn Amins. Mjög vel er leikið í myndinni, Skotinn James McAvoy glímir ágætlega við mót- sagnir persónu sinnar og Gillian Anderson á sterka innkomu í hlut- verki sínu. Forest Whitaker er hins vegar hjartað í myndinni, en túlkun hans á harðstjóranum ógurlega er hreint ógleymanleg. Maður á allt eins von á að allt fari að nötra í kringum mann þegar þessi magnaði leikari þrumar yfir lýðnum í hlut- verki Amins um leið og hann lætur skína í bullandi persónutöfra og sturlun með augnaráðinu einu sam- an. Ég hefði hins vegar viljað sjá handrit og leikstjórn sem betur hæfði og styddi frammistöðu Forests Whitakers. Hættulegt faðmlag Heiða Jóhannsdóttir KVIKMYNDIR Smárabíó og Regnboginn Leikstjórn: Leikstjórn: Kevin Macdonald. Aðalhlutverk: Forest Whitaker, James McAvoy, Kerry Washington, Gillian And- erson, Simon McBurney og David Oye- lowo. Bretland, 121 mínúta. Síðasti konungur Skotlands (The Last King of Scotland)  Kóngur „Að mörgu leyti sver myndin sig í frásagnarhefð sem birtir hálf blindaða sýn Vesturlandabúans á fram- andi menningu, en kafar ekki mikið dýpra í þeirri skoðun en hvað örlög aðalsöguhetjunnar varðar.“

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.