Morgunblaðið - 28.08.2007, Blaðsíða 18

Morgunblaðið - 28.08.2007, Blaðsíða 18
|þriðjudagur|28. 8. 2007| mbl.is daglegtlíf Bókelsk Hin írska Edel Porter og Svíinn Stefan Jacobsson hafa bæði sökkt sér ofan í íslenskar miðaldabókmenntir á námskeiðum í sumar. Þeir koma frá Japan, Kan-ada, Bandaríkjunum,Rússlandi, Færeyjum,Frakklandi og víðar að. Annað hvert sumar streyma erlend- ir fræðimenn hingað til lands til að sökkva sér ofan í íslensk handrit sem skrifuð voru á miðöldum og allt fram á 19. öld. Árið á móti drífa þeir sig til Kaupmannahafnar í sama tilgangi. Og það komast færri að en vilja. „Við byrjuðum með þessi nám- skeið, sem kallast Alþjóðlegur sum- arskóli í handritafræðum, fyrir fjór- um árum,“ útskýrir Svanhildur Óskarsdóttir, rannsóknardósent hjá Stofnun Árna Magnússonar í ís- lenskum fræðum. Námskeiðin eru rúm vika að lengd en lokadagurinn í ár var síðastliðinn laugardag. „Ann- að hvert ár eru þau haldin hér á Ís- landi en hitt árið hjá dönsku Árna- stofnuninni, þ.e. Nordisk forskningsinstitut í Kaupmanna- höfn. Upphaflega var þetta bara eitt námskeið en áhuginn reyndist svo mikill hjá nemendunum að í dag erum við bæði með framhalds- námskeið (advanced) og svokallaðan Master Class fyrir þá sem eru lengst komnir.“ Reynsla frá fyrstu hendi Nemendunum hefur fjölgað sam- kvæmt þessu, eða úr 18 meistara- og doktorsnemum fyrsta árið í 43 nú í sumar. Þeirra á meðal eru Stef- an Jacobsson frá Uppsölum í Sví- þjóð sem sækir byrjendanámskeiðið og Edel Porter, sem er írsk en býr og kennir á Spáni. Hún sótti fram- haldsnámskeið í sumar en tók byrj- endanámskeiðið fyrir tveimur árum og hefur nýlokið doktorsgráðu sinni í íslenskum fornbókmenntum. „Ég vissi eiginlega ekkert um handrit þegar ég heyrði af þessu námskeiði en fannst það gott tækifæri til að fá reynslu frá fyrstu hendi af text- unum sem ég hafði verið að vinna með í prentuðu útgáfunum.“ Stefan er hins vegar að hefjast handa við doktorsgráðu sína í nor- rænum fræðum. „Ég hef mjög litla reynslu af því að lesa handrit og hef alltaf saknað slíkrar þjálfunar úr náminu mínu í Svíþjóð.“ Reyndar er þetta í þriðja sinn sem Stefan kemur til landsins en í fyrsta sinn kom hann á sumarnám- skeið til að læra íslensku. „Það var hluti af norrænunáminu. Ég hef að- allega stúderað málsögu og mál- lýskur og hef sérstakan áhuga á nú- tímaíslensku enda er hún nátengd gömlu norrænu tungumálunum.“ Áhugi Edelar af íslenskum mið- aldabókmenntum spratt eiginlega af tilviljun. „Ég tók BA-gráðu í ensku og vann þá mikið með forn- og miðaldatexta á ensku. Í fram- haldinu tók ég meistargráðu á því sviði og í náminu var boðið upp á námskeið í fornnorrænum bók- menntum. Það vakti áhuga minn svo ári síðar kom ég til Íslands og kenndi í ár við Menntaskólann í Reykjavík. Eftir að hafa eytt nokkr- um árum í að ferðast ákvað ég svo fyrir fimm árum að taka dokt- orsgráðu í íslenskum fornbók- menntum sem ég hef nýlokið þar sem ég rannsakaði þýðingar á dróttkvæðum kveðskap Egilssögu.“ Snúnar uppskriftir seinni tíma Bæði Stefan og Edel eru mjög ánægð með uppbyggingu námskeið- anna sem eru hvorutveggja fræði- leg og hagnýt. „Við fáum góða æf- ingu í að lesa handrit og skrifa þau upp og sömuleiðis upplýsingar um málsöguna, hvernig maður getur skilið milli ólíkra tímabila og ólíkrar framsetningar,“ segir Stefan og Edel kinkar kolli. „Fyrsta árið hafði ég ekki hugmynd um hvernig ætti að lesa svona handrit. Enda er ekki bara snúið að ráða í sjálft letrið heldur þarf maður að kunna skil á fjölda skammstafana, þ.e. böndum og styttingum, áður en hægt er að byrja að lesa þau. Núna á fram- haldsnámskeiðinu erum við að vinna með seinni tíma handrit sem er líka mjög hagnýtt því fjölmargir af svokölluðum miðaldatextum hafa bara varðveist í seinni tíma upp- skriftum. Upphaflegu textarnir eru týndir svo jafnvel þótt þú hafir bara áhuga á miðaldatextum þarftu að geta lesið 17. og 18. aldar handrit. Mér finnst enn erfiðara að lesa þau en miðaldahandritin því skriftin er óskýrari og stafsetningin mismun- andi. Eldri handritin eru oftast skrifuð með mjög reglulegu got- nesku letri svo þegar maður er far- inn að þekkja böndin er nokkuð ein- falt að lesa þau.“ Fagrar hlíðar og hrossbarinn botn Grúsk í gömlum skræðum var þó ekki hið eina á dagskrá sumarskól- ans því á miðvikudag var haldið með hópinn austur yfir fjall, nánar tiltekið á Njáluslóðir þar sem meðal annars var farið í fjallgöngu og riðið á hestum. „Við fengum að sjá hinar fögru hlíðar Fljótshlíðar sem vissu- lega voru fagrar,“ segir Edel og hlær. „Eins klifum við á Stóra Dím- on við Markarfljót þar sem Skarp- héðinn fór yfir á ísnum og fórum að Seljalandsfossi. Loks fórum við á Leirubakka á hestbak og ég er enn aum í botninum eftir hrossið. En ég datt ekki af baki svo ferðin var frá- bær.“ Þau svara bæði játandi þegar þau eru spurð að því hvort þau hafi hug á að koma aftur og jafnvel sækja fleiri handritanámskeið. „Helst hér á Íslandi,“ segir Stefan sem getur enn nýtt sér kennslu á tveimur framhaldsnámskeiðum. Edel á hins vegar aðeins meistaranámskeiðið eftir. „Mér skilst að á því undirbúi nemendurnir texta til útgáfu sem væri mjög áhugavert fyrir mig,“ segir hún. „Svo má ekki gleyma því hvað það er spennandi að hitta koll- egana. Flestir sem stúdera norræn fræði vinna í ákveðinni einangrun þannig að þetta er líka frábært tækifæri til að hitta aðra í faginu og vinna með þeim hlið við hlið. Það er gífurlega mikilvægur hluti nám- skeiðsins.“ Morgunblaðið/G.Rúnar Rýna í ritin Áhugasamir fræðimenn frá öllum heimshornum bera saman bækur sínar á handritanámskeiðunum. Grúsk í gömlum skræðum Hvað fær útlendinga frá öllum heimshornum til að verja viku af sumarleyfinu sínu á bólakafi í íslenskum miðaldaskruddum? Bergþóra Njála Guðmundsdóttir grófst fyrir um ástæðuna. Ráðið í letur Talsverða kunnáttu þarf til að ráða í aldagamla skrift, hvort heldur viðfangsefnið er handrit frá mið- öldum eða síðar en margar íslensku fornbókmenntanna hafa eingöngu varðveist í seinni tíma uppskriftum. … ekki bara snúið að ráða í sjálft letrið heldur þarf maður að kunna skil á fjölda skammstafana … ben@mbl.is

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.