Morgunblaðið - 09.02.2008, Side 16
16 LAUGARDAGUR 9. FEBRÚAR 2008 MORGUNBLAÐIÐ
STUTT
Nepal. AP. | Indverskur læknir, grun-
aður um að hafa skipulagt og fram-
kvæmt stórfellda ólöglega líffæra-
flutninga, hefur
verið handtekinn í
Nepal. Læknir-
inn, Amit Kumar,
hefur verið á
flótta frá því í jan-
úar og var leitað
af Interpol. Hann
fannst suður af
Katmandu með
andvirði rúmra 15
milljóna íslenskra
króna í seðlum.
Indverska lögreglan fullyrðir að
Kumar sé aðalskipuleggjandi líf-
færaflutninga, sem að hluta til hafi
farið fram án samþykkis líffæragjaf-
anna.
Yfirvöld hafa ástæðu til að ætla að
um 500 nýru hafi verið seld við-
skiptavinum sem ferðast hafi til Ind-
lands víða að úr heiminum undanfar-
in níu ár.
Lengi hefur verið vitað að fátækir
Indverjar selji úr sér líffæri, en mál
Kumars er það langstærsta og alvar-
legasta hingað til. Ekki síst í ljósi
þess að sumir líffæragjafanna voru
að sögn lögreglu ólæsir verkamenn,
sem ógnað var með byssum áður en
líffærin voru tekin úr þeim. Öðrum
hafði verið gefið loforð um atvinnu.
Í janúar síðastliðnum réðst lög-
reglan inn á skurðstofu Kumars í
Gurgaon í Nýju-Delhí og batt enda á
starfsemina, sem fór fram í fjórum
indverskum héruðum. Að minnsta
kosti fjórir læknar voru viðriðnir
starfsemina auk nokkurra spítala, á
þriðja tug hjúkrunarfræðinga og
sjúkraliða. Ökutæki innréttað sem
skurðstofa fannst auk biðlista eftir
líffæragjöf með 48 nöfnum.
Kumar hefur hafnað ásökununum
og heldur fram sakleysi sínu.
Grunaður
um rán á
líffærum
Amit Kumar
Eftir Jóhönnu Maríu Vilhelmsdóttur
jmv@mbl.is
ERKIBISKUPINN af Kantaraborg
hefur lagt til að sjaríalögin, lög
múslima, verði að takmörkuðu leyti
tekin upp í Bretlandi. Erkibisk-
upinn, Dr. Rowan Williams, er æðsti
leiðtogi Ensku biskupakirkjunnar
og þar með æðsti kristni leiðtogi
Bretlands.
Williams sagði í útvarpsviðtali hjá
BBC sl. fimmtudag að það væri
óhjákvæmilegt að leyfa sjaríalög
þegar kæmi að hjónbands- eða fjár-
máladeilum múslima, með því yrði
stigið mikilvægt skref í átt að sam-
félagslegri einingu í Bretlandi.
Ummæli erkibiskupsins hafa
mætt harðri gagnrýni í Bretlandi.
Opinber tals-
maður Gordons
Brown forsætis-
ráðherra sagði að
bresk lög sem
byggðust á
breskum gildum
skyldu vera ráð-
andi þar í landi.
Ritari menning-
armála gekk enn
lengra í gagnrýn-
inni og sagði orð Williams vera röng
og varaði við samfélagslegri óreiðu
og ringulreið yrði tillagan að veru-
leika.
Williams erkibiskup sagðist vilja
sjá víðari laganálgun, að fólk hefði
val um hvernig það leysti ágrein-
ingsefni sín svo lengi sem allir aðilar
væru sammála aðferðinni. Hann
benti jafnframt á að nú þegar væri
gyðingum leyfilegt að leysa persónu-
leg ágreiningsefni sín í Bretlandi,
samkvæmt hefðbundnum gyðing-
legum lögum.
Ummælum Williams hefur víða
verið fagnað meðal forystumanna
múslima í Bretlandi, sem segja mik-
ilvægt að ræða þessa tillögu. Sjaría-
lögin hafi legið undir gagnrýni á
Vesturlöndum, aðallega vegna þess
að eina umfjöllunin sem þau hafi
fengið sé afskræmd öfgamynd.
Rodney Barker, prófessor í
stjórnmálafræði við London School
of Economics, sagðist ekki undrandi
á að biskupinn tæki á svo eldfimu
efni. Hann sagði Williams erkibisk-
up hvorki íhaldssaman né varkáran
mann. Þvert á móti gerði hann sér
grein fyrir því að í samfélaginu ríktu
mismunandi hefðir sem taka yrði til-
lit til.
Fawaz Gerges, prófessor í Mið-
austurlandafræðum við Sarah
Lawrence-háskólann í New York,
segir margar hættur fólgnar í marg-
földu réttarkerfi. Með slíku fyr-
irkomulagi yrði erfitt að setja mörk-
in. Um leið og einu samfélagi væri
leyft að nota eigin lög væri búið að
gefa hættulegt fordæmi.
Umræðan um stöðu múslima í
bresku samfélagi hefur verið eldfim
frá því að fjórir breskir múslimar
drápu sig og 52 aðra breska borgara
í árás í London árið 2005. 1,6 millj-
ónir múslima búa í Bretlandi, sem er
2,7 prósent þjóðarinnar.
Mælir með sjaríalögunum
Erkibiskupinn af Kantaraborg hefur valdið fjaðrafoki í Bretlandi
Segir óhjákvæmilegt að leyfa sjaríalögin að takmörkuðu leyti þar í landi
Rowan Williams
Eftir Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
AÐEINS um 30 af hundraði Banda-
ríkjamanna lýsa yfir ánægju með
störf George W. Bush, en nafn hans,
ættarveldi og sterk tengsl við trúaða
og íhaldssama kjósendur valda því að
ekki ber að vanmeta mikilvægi stuðn-
ings við forsetaframbjóðanda repúbl-
ikana í haust.
Ítök Bush í flokknum komu ber-
lega í ljós á þingi íhaldsmanna í
Washington í gær, þar sem viðstaddir
hylltu forsetann sem ýmsir frambjóð-
endur repúblikana hafa reynt að að-
greina sig frá. Viðtökurnar voru allt
aðrar og betri en þegar John McCain
gekk inn í salinn daginn áður og upp-
skar lófatak, á sama tíma og hópur
flokksliða púaði á manninn sem telst
nú öruggur með útnefningu sem for-
setaframbjóðandi flokksins í haust.
Eins og vænta má hefur Bush enn
ekki formlega lýst yfir stuðningi við
framboð tiltekins frambjóðanda.
Engu að síður er öruggt að hann
muni leggja sitt á vogarskálarnar og
munu tengsl hans við íhaldssamasta
arm flokksins verða gulls ígildi þegar
framboð McCains, sem margir telja
of frjálslyndan, fer í fullan gang, eins
og útlit er fyrir nú.
Jafnframt er Bush mjög öflugur
þegar kemur að því að safna fé í kosn-
ingasjóði, eiginleiki sem kann að ríða
baggamuninn andspænis vel smurðri
kosningavél demókrata, hvort sem
Barack Obama eða Hillary Clinton
leiða framboðið.
Flókið samband við forsetann
Vart þarf að taka fram að tvennar
síðustu forsetakosningar hafa verið
jafnar og spennandi – Bush sigraði
Gore naumlega á Flórída og fjórum
árum síðar hefði sveifla í Ohio gert
John Kerry að forseta – og því kann
aðkoma forsetans að vera stráið sem
brýtur bak kameldýrsins, svo gripið
sé til engilsaxnesks orðatiltækis.
En þar með er ekki öll sagan sögð.
McCain var í sárum eftir harðvítuga
baráttu við Bush í forkosningunum
2000 og fjórum árum síðar kom til
umræðu að sá fyrrnefndi byði fram
með Kerry gegn forsetanum.
Og ekki nóg með það. McCain hef-
ur gagnrýnt stríðsreksturinn í Írak,
ásamt því að greiða tvisvar atkvæði
gegn skattalækkunum forsetans.
Nánir samverkamenn tvímenning-
anna segja átökin fyrir átta árum að
baki og minna á að McCain hafi einn-
ig stutt Bush í ýmsum málum.
Hitt er annað mál að McCain á
mikið verk fyrir höndum að byggja
brýr yfir til íhaldssömustu repúblik-
ananna í trúarlegum og félagslegum
efnum og þarf hann m.a. að marka
sér afgerandi afstöðu til stofnfrumu-
rannsókna, svo dæmi sé tekið.
Ekki skyldi vanmeta andstöðu ým-
issa íhaldsmanna við McCain.
Hann hefur verið uppnefndur
McLame, McVain og McAmnesty og
vísar síðastnefnda uppnefnið til af-
stöðu hans til innflytjendamála.
Annað dæmi er að kannanir benda
til að í Kaliforníu hafi McCain fengið
45 af hundraði atkvæða þeirra sem
telja sig „fremur íhaldssama“ en
stuðning aðeins 21 af hundraði „mjög
íhaldssamra“ kjósenda.
Klofningur hjá evangelistum
Evangelistar eru í hópi þessara
íhaldssamari kjósenda og þykir það
flækja stöðuna frekar að aðeins um
þriðjungur þeirra styður gamla bapt-
istaprestinn Mike Huckabee, fyrr-
verandi ríkisstjóra Arkansas, eina
keppinaut McCain sem eftir er.
Þannig benda kannanir við kjör-
staði til að McCain og Romney hafi
fengið nokkurn veginn jafnmörg at-
kvæði frá þessum hópi og að Hucka-
bee hafi fyrst og fremst notið góðs af
trúarlegum bakgrunni sínum á svæð-
um þar sem baptistar eru stór hluti
íbúafjöldans. Þá þykir Huckabee ekki
höfða til þeirra repúblikana sem vilja
lágmarka umsvif ríkisins, athyglis-
verð staðreynd í ljósi þess að McCain
hefur viðurkennt að efnahagsmálin
séu ekki hans sterka hlið, nú þegar
flest bendir til að þau verði mikilvæg-
asta kosningamálið í haust.
Það vekur einnig eftirtekt að á vef-
síðunni Christianity Today var því
lýst yfir eftir kosningarnar á þriðju-
dag að útkoman hefði „afhjúpað gjá
milli evangelískra kjósenda og tals-
manna þeirra“. Með öðrum orðum:
Trúarleiðtogar á borð við James C.
Dobson höfðu minni áhrif en ætla
mætti af vinsældum þeirra.
Bush leggur sitt
á vogarskálarnar
Tekur þátt í baráttunni Snúið samband við McCain
AP
Leiðtogi George W. Bush forseti ávarpar 35. þing íhaldsmanna í Wash-
ington, sem á ensku nefnist Conservative Political Action Conference.
Í HNOTSKURN
»„Ef Hillary Clinton fær útnefningu munu repúblikanar sameinastsvo hratt að þér mun ekki auðnast tími til að hrækja.“ – Joe Sullivan,
ritstjóri Southeast Missourian, um þann frambjóðanda demókrata sem
fær blóð íhaldsmanna til að renna hvað hraðast.
»Að mati Jed Babbin, ritstjóra Human Events, er Huckabee ekki nóguíhaldssamur til að verða varaforsetaefni McCains. Vísar Babbin til
stefnu baptistaprestsins fyrrverandi í efnahagsmálum og til þess að
hann hafi léð máls á aðgerðum til að sporna gegn loftslagsbreytingum.
YFIRVÖLD í
Bandaríkjunum
og á Ítalíu létu í
gær til skarar
skríða gegn maf-
íunni í New York
og á Sikiley og
voru meira en 80
menn handteknir.
Er litið á aðgerð-
ina sem meiri-
háttar atlögu að
glæpasamtökunum.
Saksóknarar í New York hafa
stefnt 63 mönnum fyrir alls kyns
sakir, morð, fjárkúgun, eiturlyfja-
sölu og okurlánastarfsemi, en þeir
tilheyra Gambino-, Genovese- og
Bonanno-glæpafjölskyldunni. Í Pal-
ermo á Sikiley voru 20 handteknir í
mikilli aðgerð.
Atlaga að
mafíunni
Handtökur í New
York í fyrradag.
ÞAÐ virðist ekki vera ofsögum af
því sagt, að reykingar drepi, ekki ef
marka má WHO, alþjóðaheilbrigð-
isstofnunina. Hún áætlar, að á þess-
ari öld muni tóbaksreykingar
leggja einn milljarð manna að velli.
Talið er, að þær hafi banað 100
millj. manna á síðustu öld.
Tóbaksdauði
Reuters
Skaðvaldur Tóbakið deyddi 100
milljónum manna á tuttugustu öld.
EF nauðið í konunni þreytir eig-
inmanninn og hroturnar í honum
halda vöku fyrir henni, þá er því
miður lítil von um að staðan batni.
Það kemur nefnilega fram í rann-
sókn í Bandaríkjunum, að eftir því
sem tíminn líður láta hjón hvort
annað fara meira í taugarnar á sér.
Hjónavandi
BERNHARD Falk, næstráðandi í
þýsku leyniþjónustunni, sagði í við-
tali við dagblaðið Die Welt, að al-
Qaeda-hryðjuverkasamtökin hefðu
lagt á ráðin um árásir og hermd-
arverk í Þýskalandi. Hafa þýskir
múslímar verið í þjálfunarbúðum í
Pakistan með það fyrir augum.
Áformuðu árás
FYRIRHUGUÐ eru í Tyrklandi
mikil mótmæli gegn þeirri stefnu
stjórnvalda að afnema bann við ísl-
ömskum höfuðklútum í æðri
menntastofnunum. Hefur tillaga
um það verið samþykkt á þingi en
veraldlega sinnaðir menn í landinu
eru því ævareiðir.
Slæðudeila
VONIR hafa vaknað um, að innan
ekki langs tíma verði unnt að hjálpa
þeim, sem hlotið hafa mænuskaða.
Felst hjálpin í því að flytja taugar
úr öðrum stað í líkamanum og
koma þeim fyrir í mænunni þar sem
skaðinn varð.
Bandarískir vísindamenn stefna
að því að hefja tilraunir á mönnum
innan fimm ára en þær tilraunir,
sem hingað til hafa farið fram á
rottum, hafa tekist mjög vel. Segja
má, að aðferðin byggist á þeirri
uppgötvun, að taugar fyrir neðan
skaddaða svæðið deyja ekki þótt til
þeirra berist engin taugaboð. Þess
vegna taka þær strax við sér þegar
ný taug er grædd í mænuna og hún
látin brúa skaddaða svæðið.
Skaði bættur?
MYNDBAND háskólanema, sem
með ögrandi hætti setja spurn-
ingamerki við takmörkun stjórn-
arinnar á ferðafrelsi almennings,
ellegar hvers vegna þeim er meinað
að dvelja á hótelum landsins, hefur
valdið töluverðri ólgu.
Ungmennin, sem birtu mynd-
bandið á netinu, beindu spjótum
sínum einkum að Ricardo Alarcon,
háttsettum stjórnarliða, og þótti
efni þess ganga svo langt að sam-
særiskenningar fóru á kreik um að
stjórnin hefði sjálf staðið á bak við
það í pólitískum tilgangi.
Ungir ögra
Kúbustjórn
ERLENT
♦♦♦