Náttúrufræðingurinn - 1961, Qupperneq 12
56
NÁTTÚRUFRÆÐINGURINN
Högni Böðvarsson:
Margt býr í jörðinni
Það er oft sagt, að dýralíf íslands sé fábreytt, og má það til sanns
vegar færa, ef miðað er við ýmis önnur svæði jarðarinnar og átt er
við villt landdýr. Hvað sjáum við af dýrum á göngu okkar i>m tún
og engi, heiðar og skóga eða innanhúss? Mest ber líklega á fuglun-
um, en á góðviðrisdögum dregst athygli okkar oft eins mikið að
fiðrildum, randaflugum og öðrum skordýrum, sem fljúga milli
blómanna eða festast á fluguveiðaranum, sem hangir í loftinu. Ná-
lægt stöðuvötnum getur mýbitið líka minnt okkur heldur óþægi-
lega á tilveru sína. Uppi á heiðum og úti í hraunum rekumst við
stundum á hagamýs og tófur, og minkurinn er nú alveg búinn
að tryggja stöðu sína sem íslenzkur ríkisborgari. En þar með er
líka það mesta upp talið, eða er ekki svo? Vissulega vitum við (að
minnsta kosti þeir okkar, sem eru veiðimenn), að ánamaðkar lifa
í moldinni og svartgljáandi járnsmiði sjáum við stundum hlaupa
milli steina. Ætli flestir verði þá ekki undrandi, ef þeim er sagt,
að þúsundir dýra lifi og dafni undir hverju fótspori, sem við stíg-
um á gróinni jörð? En þannig er þessu farið, og þessir litlu vinir
okkar þarna niðri eru meira að segja svo mikilvægir fyrir allt líf
okkar, að ekki er víst, að landið væri byggilegt, ef þeir væru ekki til.
Ég ætla nú með eftirfarandi línum að fræða lesendurna nokkuð um
dýralíf það, sem hefst við í jörðinni, og urn þýðingu þess fyrir mynd-
un og frjósemi jarðvegsins.
Fræðimenn hafa í meira en hundrað ár fengizt við að rannsaka
og lýsa jarðvegi með tilliti til efnasamsetningar, kornastærðar, og
þess háttar, en það er ekki fyrr en á allra síðustu árum, að mönnum
hefur orðið ljóst, að dýralíf það, sem hefst við í jarðveginum, geti
haft nokkra þýðingu fyrir myndun hans og eðli. Einn af þeim fyrstu,
sem sáu fram á þetta, var Charles Darwin. Hann rannsakaði áhrif
ánamaðka á myndun gróðurmoldar og komst að þeirri niðurstöðu,
að þeir hefðu mikla þýðingu með greftri sínum og blöndunarstarf-
semi. Rit Darwins um ánamaðkana urðu til þess, að margir tóku