Náttúrufræðingurinn - 1952, Side 10
56
NÁTTÚRUFRÆÐINGURINN
Vesúvíus, og þegar hér var komið sögu, hafði Vesúvíus látið lítið á
sér bæra um nokkrar aldir og þagnaði raunar að fullu í þrjár aldir
nokkru síðar. Etna hafði um langt skeið verið áþreifanlegasta sönn-
unin fyrir Helvíti („strompur vítis“). Gosin í Heklufelli voru því
ný og ákaflega velþegin sönnun fyrir þeim vörmu vistarverum. Það
er sigurhreimur í orðum Herberts: „Hver er nú svo þverbrotinn og
vantrúaður, að hann vilji ekki trúa því, að til sé eilífur eldur, sem
þjáir sálirnar?“
Hægt er að láta sér detta í hug, að fregnir af fyrsta Heklugosinu
hafi borizt geistlegum í Franz frá íslenzkum skólabróður þeirra úr
Svartaskóla, Sæmundi klerki Sigfússyni, sem upplifði þetta náttiiru-
undur í nágrenni sínu sem miðaldra maður. En hann getur a. m. k.
ekki verið heimildarmaður um Heklugosið annað, og raunar virðist
liggja nærri að gizka á annan lieimildarmann, bæði um frásögnina af
því gosi og öðru því, sem Herbert segir um ísland, en sá er Eskil
erkibiskup í Lundi, kallaður Eskell eða Áskell í íslenzkum fornrit-
um. Eskell var einn hinn merkasti þeirra manna, er sátu á erkibisk-
upsstóli í Lundi, og hefur stundum verið nefndur fyrsti Evrópei
Norðurlanda. Erkibiskup varð hann 1138 og hélt því virðulega em-
bætti í nær fjóra áratugi. Eskell erkibiskup stóð í nánum tengslum
við klaustrið í Clairvaux, hann kom jDangað 1151 og 1175 og þekkti
persónulega stofnanda þess, blessaðan herra Bernharð. Og þegar hann
lét af erkibiskupsembætti, 1177, fór hann til þessa klausturs og lifði
þar til síns dauðadags, 25. ágúst 1181. í áðurnefndri undrabók Her-
berts er saga Eskels skráð eftir forsögn hans sjálfs, og er sú ævisaga í
ritinu nokkru á undan frásögnunum af íslandi. Eskell erkibiskup
hefur haft sambönd við íslenzka kennimenn, meðal annars vígði
hann Klæng Þorsteinsson til biskups í Skálholti árið 1152, en í bisk-
upstíð hans gaus Hekla í annað sinn. Enda þótt Niðarós yrði erki-
biskupssetur sama ár og Klængur var vígður, er ekki ólíklegt, að
Klængur biskup hafi lialdið áfram einhverju sambandi við vígslu-
föður sinn. Það eru því líkur fyrir, að Eskell liafi haft sagnir af
Heklugosum, og e. t. v. sagnir sjónarvotta af öðru Heklugosinu, þeg-
ar hann settist að í klaustrinu í Clairvaux, og er þá ólíklegt, að hann
hafi ekki einhvern tíma fært undur hinnar afskekktu eyjar í tal við
vin sinn Herbert, sem var einmitt að rita bók um undur.
En frásögn Herberts er ekki aðeins um Heklugos. í síðari hluta
hennar segir, að eldurinn hafi einnig ráðizt á hafið við ströndina og
að hann hafi borið „með sér í flóði sínu gríðarstór fjöll og hæðir . . .