Náttúrufræðingurinn - 1952, Síða 21
HVERFJALL
163
Ég skal nú leitast við að skýra þennan einhliða halla laganna. Það
er alkunnugt, að lausum jarðefnum (möl, sandi o .s. frv.) er hægt að
hrúga upp í mismunandi brattar hrúgur, og fer það eftir kornastærð
og kornalögun efnisins. Verði hallinn meiri en að vissu marki, sem
kalla mætti skriðmörk og er mismunandi eftir því, hvert efnið er,
hrynur úr veggnum, þar til er brekkuhallinn (the sloping angle) er
aftur kominn niður að skriðmörkum.
Skriðmörk Hverfjallstúffsins, áður en það harðnaði, hafa verið um
30°, og jókst því halli hliðanna, meðan fjallið var að hlaðast upp,
þar til er hann var orðinn um 30°, en hélzt síðan nær óbreyttur úr
því. Halli túfflaganna ofan til í fjallinu er ákvarðaður af skriðmörk-
um vikurkornanna í túffinu, og mynda þessi lög því skarpt horn við
túfflögin utan fjallsins, sem ekki hafa skriðið neitt, síðan þau féllu,
og liggja sem næst lárétt. Kemur þetta heim við tilraunir, sem hol-
lenzki jarðfræðingurinn Kuenen hefur gert á tilraunastofu til að
sýna myndun sprengigíga. Núverandi halli úthliða Hverfjalls er á-
kvarðaður af skriðmörkum grjótsins, sem veðrazt hefur úr túffinu,
en þau eru um 20°.
Skýringin á vöntun innhallandi laga er að mínum dómi sú, að
meðan fjallið var að hlaðast upp, héldu sprengingamar í gígkverk-
inni innveggjunum brattari en sem svaraði skriðmörkum gosmalar-
innar (30°). Sú gosmöl, sem féll á gígveggina innanverða, hrundi
því jafnharðan niður í gíginn aftur og þeyttist á ný upp í eftirfar-
andi sprengingum, en náði ekki að safnast svo nokkru næmi innan á
gígveggina (þess má geta, að er ég mældi halla innveggjanna í Axlar-
gíg á Heklu í sept. 1947, rétt eftir að gosið hafði hætt í honurn, var
halli gígveggja að utan rúmar 30°, en að innan um 40°, lögunum
hallaði, eins og í Hverfjalli, einvörðungu út á við).
Það verður einnig að gera ráð fyrir því, að Hverfjallsgosið hafi
ekki farið smárénandi, meðan aðalgígurinn var að hlaðast upp,
heldur haldizt með svipuðum krafti eða fremur færzt í aukana, þar
til er aðalgosið hætti skyndilega. Síðan hefur eftir litla hvíld komið
smágoshrina, sem byggði upp innri keiluna. Hefur sú hrina smá-
dvínað og gígurinn því smáþrengzt, unz hann fylltist alveg.
Línurit af líklegum gangi goss þess, sem myndaði Hverfjall, er
sýnt á 23. mynd.