Heima er bezt - 01.06.1955, Blaðsíða 14

Heima er bezt - 01.06.1955, Blaðsíða 14
Nr. 6 174 ið 1922. Var hún þar í sjálfs- mennsku og fór um hana vel. Fékk hún hey fyrir vinnu sína að sumrinu og hafði sérstakt hús fyrir kindur sínar. Sjálf heyjaði hún í aukavinnu og í sláttarlok mikla viðbót. Ætíð vildi Ástríður vera vel birg af heyi og það svo, að fyrningar nægðu til næsta vetrar, þótt lítið eða ekkert heyj- aðist komandi sumar. Ástríður var húsbóndaholl svo sem bezt verður kosið. Jafnan létu henni útiverk vel og fénað- arhirðing. Heyvinnuna sótti hún af miklu kappi. Oft minntist hún þess með þakklæti, að síðustu ár- in, sem Helgi bróðir hennar lifði, fékk hún að slá og raka til skipt- is á engjunum. Varð henni það síðar mikils virði, að kunna að beita orfi og ljá. Stórhuga var Ástríður við sláttinn og hikaði ekki við að slá keldur og hólma, sem illt var að komast að og aðr- ir gengu á snið við. Enda bað hún aldrei um slægju, sem hún vissi að eigendur ætluðu sér að nýta. Vakti oft furðu, hve hún á gamals aldri var áræðin og þolin að afla sér heyja, þótt við erfið- leika væri að etja. Og aldrei var hún glaðari en þegar hún hafði lagt sem mest að sér að ná upp heyi sínu. Henni kom aldrei til hugar að láta örðugleikana beygja sig, heldur takast á við þá og njóta sigurgleðinnar í hverju átaki, unz unnið var að fullu. í Hraunkoti vann Ástríður vor- og haustverk utanbæjar eftir þörfum,*en auk þess hingað og þangað, því að alls staðar vildi hún rétta hjálparhönd. Galt hún svo oft miklu meira öðrum en hún sjálf af þeim þáði. Ástríður var smá vexti og eigi orkumikil, en þeim mun iðnari var hún og kappsamari, svo að aldrei leit hún upp frá verki. Stálvilji var einkenni hennar framár öllu. Að eðlisfari var hún meir i lund, en þó miskunnarlaus og hörð í skiptum við sjálfa sig. Mjög sjaldan sást hún skipta skapi, en yrði henni það, sást, að tilfinningar hennar voru rikar og komu stærri hlutir henni síð- ur úr jafnvægi, en það, sem öðr- um þótti oft lítilsvert. Kjarkur Ástríðar var slíkur, að naumast held ég, að hún kynni að hræð- ast. Aldrei vissi ég, að veður Heima er bezt hindraði för hennar á yngri ár- um, og ómennska þótti henni að flýja af engjum fyrir óveðri. Að- eins einu sinni gerði svo vondan byl, að hún treysti sér ekki til beitarhúsanna að gefa kindum sínum. Þá var hún komin yfir nírætt. Ástríður var jafnan róleg í verki og æðrulaus. Oft murraði hún vísu í lágum hljóðum, er hún var á göngu og skilaði þá vel áfram. Eitt sinn, þegar Ástríður var ung stúlka í Þykkvabæ, fór hún að skila gemlingum úr fóðri — gangandi alla leið vestur að Skaftárdal. Ekki var þá brú kom- in á Skaftá og vita kunnugir, að margar mundu þá torfærur á þessari löngu leið. Aldrei minnt- ist Ástríður á þetta öðru vísi en sem auðveldan og sjálfsagðan hlut. Byltu hlaut Ástríður, er hún var komin fast að áttræðu og hrumlaðist þá illa á fæti, en hirti lítt um. Kom blóðeitrun í fótinn og blés hann upp hroða- lega. Var þá læknir sóttur og gerði að fætinum. Þótti honum mikið til um hörku Ástríðar og kjark, en sjálfri fannst henni þetta lítilsvert. Barnahylli hafði Ástríður svo að af bar og hafði hún sérstakt látleysi á því að umgangast börn svo, að þau gerðu sér hana að félaga. Var svo alla tið, að þau sóttust eftir að vera með henni, hvar sem hún var og fór. Sjálf- sagt hefur það átt sinn þátt í því, hve mikið hún kunni af æfin- týrum, þjóðsögum, þulum og sög- um. Almenn mál lét Ástríður sig litlu skifta. Aldrei lét hún smala sér á kjörstað við alþingiskosn- ingar, en atkvæði greiddi hún um stofnun lýðveldisins 1944. Aldrei var Ástríður við karl- mann kennd. Tvennt var það, sem henni var umfram annað hugleikið: að verða ekki ósjálf- bjarga og á náðir mannanna komin og það, að hljóta hinztu hvílu við hlið móður sinnar í grafreitnum að Þykkvabæ. Hvort tveggja auðnaðist henni þetta. Hún hélt líkamskröftum og and- legu heilbrigði til hins síðasta í svo ríkum mæli, að hún vann að rakstri á engjum siðasta sum- arið, sem hún lifði og liðsinnti við að hirða kindur sínar í rétt- um um haustið, þá komin á þriðja aldursár hins tíunda tug- ar. Sjón hafði hún það góða, að hún las Jónsbókarlesturinn til síðasta helgidags, er hún lifði. Tóvinnuna vann hún að heita mátti til síðasta ævidags. Á sunnudegi fór hún bæjarleið, og þegar hún kom heim að kvöldi kvartaði hún um verk í höfðinu og öðru eyranu. Að morgni næsta dags fór hún að spinna og taldi sig betri. Um hádegi var hún sýnilega orðin mikið veik, en hafði orð um, að hún vildi ljúka við að ‘spinna á snælduna. Af því varð þó eigi, því að brátt tók hún að kúgast af uppsölu. Sat hún þó uppi fram að kvöldi. Þriðjudaginn lá hún rænulaus og andaðist af heilablæðingu að- faranótt miðvikudagsins 31. okt. 3.951. Enginn, sem Ástríði kynntist mun gleyma henni. Hún var sér- stæður persónuleiki, er fór sínar leiðir og sótti fátt til annarra. Hefði hún vel mátt tileinka sér vísuna: „Löngum var ég læknir minn“. Öll venjuleg sveitastörf, karla og kvenna, vann hún eins og þau gerðust í þá tið, er hún var í blóma lífsins. Hversdags- klæði sín gerði hún að öllu leyti sjálf: óf, sneið og saumaði. Öll áhöld sín lagfærði hún og dugði vel, þótt eigi bæri það allt á sér mikinn hagleik. Rokk sinn smíð- aði hún upp að talsveröu leyti og gerði snældubúnað úr horni. Jarðarför Ástríðar var fjölsótt. Um kvöldið, daginn sem hún var borin til grafar, gyllti sólin I fögrum ljóma allt umhverfið, er hún hafði svo langan aldur lagt undir fót. Snemma á ævi varð hún roskinleg, en aldurinn breytti henni mjög lítið. í minnum flestra þeirra, er nú lifa, var hún því alltaf nálega eins: létt í spori, glöð í viðmóti og góð í raun. Til æviloka var hún lítið sem ekki hærð, bein i baki, frískleg og veðurtekin, með svip náttúrunn- ar, sem minnti á hólana í sveit- inni hennar. Og vel hefur hún unnið til hvíldarinnar í faðmi þeirra í grafreitnum að Þykkva- bæ, sem hún arfleiddi að eign- um sínum.

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.