Heima er bezt - 01.05.1963, Blaðsíða 2
Frjáls hugsun
Fyrir nokkru fóru fram umræður í Útvarpinu um,
hvort æskilegt væri að ríkisvaldið hefði áhrif á verk
listamanna og beindi þeim á sérstakar brautir. Skoðanir
voru skiptar, og verða ekki einstök atriði þess rakin
hér, en einungis bent á eitt, sem gefið hefur tilefni til
þessarar hugleiðingar. Einn ræðumannanna taldi af-
skipti ríkisvaldsins af listamönnum rættmæt í kommún-
istaríkjunum, en fordæmdi þau í lýðræðislöndum. Hinir
voru andvígir slíkum afskiptum, hvar sem væri, þótt
nokkuð sinn með hvorum hætti.
Eitt af því, sem setur svip á umræður á vorum tím-
um, er deilan um frjálsa hugsun, lýðræði og einræði.
Þegar svo er, þá er eðlilegt að vér staðnæmumst, þegar
slík ummæli eru sett fram í eyru almennings, og vér
leitumst við að gera oss einhverja grein þess, hverjar
lífsskoðanir liggi þar að baki. Því að ljóst er, að hér er
ekki einungis um að ræða viðhorf til lista og listamanna,
heldur hljóti þetta að ná til hvaða tjáningarforms sem
er.
Síðustu áratugina hefur heimurinn stöðugt nálgast
það meira og meira að skiptast í tvær andstæðar heildir.
Austræn stefna og vestræn eru orðin dagleg hugtök, og
járntjaldið, er skilur þar á milli, nálgast í hugum sumra,
að vera efnislegur veruleiki. Þetta glymur svo oft í eyr-
um vorum, að nærri liggur, að vér séum hætt að hugsa
um hvað greinir þarna á milli. Vér lítum aðeins á hina
pólitísku valdstreitu, en gætum þess síður, að þarna er
um að ræða lífsskoðanir, sem aldrei fá sætzt, hvað sem
líður stjórnmálasamningum og afvopnunaráætlunum.
Jafnvel kjarnorkustríð fær ekki bundið enda á þenna
ágreining, svo framarlega sem allt mannkyn verður ekki
þurrkað út af jörðunni. En hvað er þá það sem skilur?
Það er afstaðan til frjálsrar hugsunar einstaklingsins.
Hvort honum skuli leyfilegt að fara sínar eigin götur
og leita þeirra verðmæta, efnislegra og andlegra, sem
hugur hans stendur til, eða hann eigi að vera bundinn
viðjum einhvers kerfis, sem valdhafar ríkisins hafa sett
honum. Þessar tvær andstæður táknurn vér oftast með
orðunum einræði og lýðræði.
Einræðisstefnur nútímans kommúnismi og nazismi
hafa sýnt hreinlega afstöðu í þessum efnum. Sett hafa
verið upp kerfi, sem allt þjóðlíf hefur orðið að lúta.
Valdhafarnir hafa hverju sinni ákveðið, hvað sé rétt eða
rangt. Gagnrýni á stefnu þeirra eða mótþrói gegn henni
er dæmt skemmdarverk og því refsiverður. Tilteknar
tegundir vísinda geta vitanlega náð háþróun undir slík-
um kringumstæðum, svo lengi sem þau verða notuð
beint í þjónustu ríkisvaldsins til framleiðsluaukningar
eða styrkja mátt þess til sóknar og varnar í styrjöld,
því að þá lætur ríkisvaldið einskis ófreistað þeim til
stuðnings. Þess vegna hafa hin stórkostlegu vísindaaf-
rek einræðisríkjanna varpað glýju í augu margra manna.
Stefna lýðræðisins er óljósari og margþættari. Þróun
þjóðfélagsins hefur leitt til þess, að nauðsyn krefur þess
að ýmsar hömlur verði lagðar á framferði einstaklings-
ins. Ekkert þjóðfélag fær staðizt án þess settum leik-
reglum sé hlýtt. En þar skilur á milli, að innan lýðræðis-
formsins er eða á að vera vakandi gagnrýni á leikreglum
þess, og þegnunum er hverju sinni gefið færi á að velja
og hafna. En þótt andstæða flokka greini á, hafa þeir
samt ýmis grundvallarsjónarmið sameiginleg. Og þótt
hæfft gangi, er markvíst stefnt að meiri mannhelgi. Að-
alsmerki lvðræðisins er annars vegar virðing fynr retti
og helgi mannsins en hins vegar skorður gegn ofbeldi
og yfirgangi og sífelld viðleitni til að skapa mannkyn-
inu betri lífskjör. Enginn lætur sér þó til hugar koma,
að allt geti verið frjálst innan lýðræðislegs skipulags,
slíkt væri stjórnleysi og óskapnaður. En þá komum vér
aftur að því, sem getið var í upphafi máls þessa, hvort
ríkisvaldið eigi að hafa afskipti af tjáningarformum
listamanna. Öllum lýðræðissinnum mun koma saman
um, að slík afskipti séu ekki æskileg. Ekkert skáld yrki
gott kvæði, eða málari skapi fullkomið málverk eftir
forskriftum stjórnarvaldanna einum saman. En slíkt úti-
lokar þó ekki, að mismunur hljóti að verða á viðhorf-
um ríkisvaldsins til listamanna eins og annarra. Enginn
getur vænst þess, að jafnvel í hinu fyllsta lýðræði, láti
ráðamenn sér annt um eða lyfti undir þá, sem markvíst
kynnu að vinna að því að brjóta niður, það sem talið
væri helgast af hugsjónum lýðræðisins, eða fella þjóð-
félag þess í rústir. En hins vegar er þessum mönnum
leyft að láta í ljós skoðanir sínar, og það verður síðan
þjóðarinnar að velja eða hafna. Lýðræðið leyfir ekki
einungis gagnrýni, það beinlínis krefst hennar. Án
gagnrýni á stjórnarathafnir, skapast smám saman ein-
ræði. Og án gagnrýni á list og listtjáningu, hlýtur listin
að staðna og hætta að vera aflvaki og menningarauki í
þjóðfélaginu. En hinu má ekki gleyma að gagnrýnin
verður að haldast innan marka velsæmis og heiðarleika.
Það er jafnfráleitt, að taka allt sem góða og gilda vöru,
og að fordæma hlutina, sem einskis nýta með öllu. A
það jafnt við stjórnmál og listir. Ef vér viljum hylla
hugsjón lýðræðisins og halda henni lifandi verðum vér
154 Heima er bezt