Heima er bezt - 01.05.1963, Blaðsíða 32

Heima er bezt - 01.05.1963, Blaðsíða 32
mikið. Öðru máli var að gegna með Bakka-strákana. Þeir voru djarfir og áræðnir og kannske ekki meir en svo að vita, upp á hverju þeir kynnu að taka. Það hafði kannske verið vitlaust af honum að vera að mæla með því, að þeir fengju að fara líka. Og þó varla; þeir hlytu að fylgjast allir að, strákarnir, þeir væru víst eitthvað að drolla, enda ekki kominn miðaftann enn. Gvendur kom við á Bökkunum. Hann bjóst alls ekki við að finna strákana þar, það oft hafði hann horft upp yfir ána og upp að hraunbrún nú í dag. Sóhn var jafn- vel ekki komin í miðmundastað, þegar hann fór fyrst að gá upp eftir, já, svona bara ósjálfrátt. Svo það hefði ekki farið fram hjá honum, ef þeir væru komnir suður yfir á. Þegar hann kom upp að Bökkunum, stóð Guðrún vestan undir bænum og horfði upp eftir. Gvendur kast- aði á hann kveðju. Guðrún tók lítt undir. Var hún þung á brúnina. Gvendur sagði: „Eg var að hugsa um að labba hér upp eftir á móti strákunum." „Sérðu kannske til þeirra?“ sagði Guðrún. „Nei,“ sagði Gvendur, „ég sé ekki til þeirra, en það er ekki að marka, þeir sjást ekki fyrr en þeir eru komn- ir suður fyrir hraunbrún.“ Þá fór Guðrún inn og sagði um leið og hún gekk fram hjá Gvendi: „Þér hefði verið nær að láta þá ekki vera að þessu bölvuðu flani.“ Nú fór Gvendur upp yfir á í fremur þungu skapi. Hann hélt upp með hraunbrúninni og leitaði í hverju viki. Þannig hélt hann áfram alllangt upp með hraun- inu. Allt í einu fannst honum hann heyra eitthvað. Hann nam staðar og fór að hlusta. Eftir nokkra stund heyrði hann eitthvað, sem líktist kalli. Hann hélt áfram. Þessi köll komu við og við og skýrðust. Hann var nú farinn að átta sig á, hvað þetta var. Hann þóttist þekkja röddina í strákunum sínum. Þó var hún æði hás og ein- hvern veginn hálf óþekkjanleg. Gvendi leið ekki vel. Litlu síðar kom hann inn í stórt vik og gafst þá á að líta. Möngu-synir sátu þar hlið við hlið og góndu upp á brún. Annar þeirra var rétt í þessu að reka upp óp: „Strákar!“ kallaði hann eða reyndi öllu heldur til að kalla, því auðheyrt var, að hann átti bágt með að koma upp hljóði. Gvendur gekk til þeirra og þeir litu við. Þeir voru grátbólgnir og auðsjáanlega að deyja úr kulda. Ekld vissu Pálarnir, hve lengi þeir voru búnir að sitja þarna og kalla. Þeim fannst það óratími. Ekki höfðu þeir þorað að fara heim án þess að hafa tvíburana með sér og þorðu ekki að fara upp á hraunbrún af ótta við að villast þá og týnast eins og strákarnir. Þeir höfðu því setið hér og kallað, skælt og skolfið. Gvendur spurði þá, hvort þeír treystu sér að komast heim sjálparlaust. „Já, við hlaupum og þá hitnar okkur,“ sögðu þeir og voru nú strax hressari í bragði, er Gvendur var kominn að leysa þá af hólmi. „Þið skuluð þá hlaupa af stað,“ sagði Gvendur, „og koma við á Bökkunum og segja henni Guðrúnu að senda hann Steina og hann Sveinka hingað strax til að leita að tvíburunum.“ Þeir leituðu þrír alla nóttina. Um morguninn fundu þeir Nikulás. Það mátti heita hrein tilviljun, að hann fannst. Það var upp undir Hvammi. Hann lá saman krepptur í ofurlitlum skúta eða gjótu skammt ofan við hraunbrúnina. Hann svaf. Hann var þreyttur og mátt- vana. Þegar komið var með hann heim, var hann hátt- aður upp í rúm og Guðrún flóaði ofan í hann mjólk. Daginn eftir o’g næstu daga var hann í rúminu. Hann var með sár á fótunum, hann var kvefaður, honum var illt í hálsi. Sárin á fótunum hnjáðu honum þó mest. Hann hafði varla getað staðið, fyrst eftir að honum var náð út úr hraunholunni. Þegar hann var spurður, hvar Kjartan væri, sagðist hann ekki vita það. Þeir hefðu farið saman upp í hraun- ið og beint af augum til að byrja með. Þeir hefðu ver- ið ákveðnir í að finna kirkjuna, sem strákarnir á Bakka- koti hefðu sagt þeim frá. Þeir hefðu ekki hugsað um annað. Loks leið þó að því, að þeim hafði dottið í hug, að rétt væri kannske að halda heim. Þá uppgötvuðu þeir, að þeir vissu ekki hvert halda skyldi. Þá hefðu þeir setzt niður og hugsað sitt ráð. Rak nú hver uppgötv- unin aðra. Þeir fundu glöggt, að þeir voru orðnir upp- gefnir af þreytu og dauðsvangir, og eftir nokkra stund setti að þeim hroll. Fóru þeir nú að missa kjarkinn og urðu að taka á allri karlmennskunni til þess að bresta ekki í grát. En þótt skuggsýnt væri orðið og skýjað, sáu þeir þó við og við til fjalla. Þótti þeim hyggilegt að stefna þangað til þess að losna út úr hrauninu. Og það höfðu þeir gert. Þeir höfðu klungrast áfram heil- lengi, að Lása fannst. Það voru komin göt á skóna þeirra, sár á fæturna. Að lokum sagðist Lási ekki hafa getað hreyft sig. Hann var alveg orðinn uppgefinn. Ekki hafði hann hugmynd um, að hann var nálægt hraunbrúninni. Hann hafði sagt við Kjartan, að nú ætl- aði hann að hvíla sig þangað til birti betur. Kjartan bað hann koma ofurlítið lengra, þangað til þeir fyndu betri stað, þar sem þeir gætu verið báðir. En Lási treysti sér ekld lengra. Sagði að Kjartan hlyti að finna einhverja holu rétt hjá, og bað hann kalla á sig, ef þeir kæmust þar fyrir báðir, þá myndi hann reyna að koma til hans. Að því búnu skreið Lási litli í gjótuna og lagðist fyrir. Mundi hann svo ekki eftir sér fyrr en þeir féíagar drógu hann út úr gjótunni um morguninn. (Framhald.) ORÐSENDING TIL ÁSKRIFENDA. í næsta mánuði verða sendar út póstkröfur til þeirra áskrif- enda „Heima er bezt“, sem ekki hafa þegar greitt árgjaldið 1963 (kr. 140.00). Þeir, sem vilja losna við póstkröfukostnað- inn ættu þvl að senda árgjöld sín til afgreiðslu blaðsins, póst- hólf 45, Akureyri, sem allra fyrst. — „Heima er bezt“ sendir öllum hinum fjölmörgu áskrifendum sínum um land allt beztu óskir um gleðilegt sumar og þakkar ánægjuleg viðskipti á vetrinum sem liðinn er. — Utg. 184 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.