Heima er bezt - 01.05.1963, Blaðsíða 14

Heima er bezt - 01.05.1963, Blaðsíða 14
leiðarinnar. Þaðan til Náttfaravíkna er um torfær skörð, langt suður á heiði, brött og erfið 6 tíma ganga. Byggðin horfir öll að norðaustri. Flatey á Skjálf- anda liggur fyrir landi, lág og gróin, 2.5 km. frá Víkur- höfða. Utar er ómælishafið. Grímsey varðar hafsbrún í norðri. Hún er raunar útvörður þessara stranda, stend- ur á sjávarhryggnum út af Flatey. í austri eru norðast við sjónbaug núpar Melrakkasléttu, hálfir í sæ, innar blasir við Tjörnes með byggð sína og Húsavíkurkaup- stað, þá Reykjaheiðarfjöll og Reykjahverfi. Útsærinn orkar mestu á umhverfið. Sól stafar sjó all- an sólarhringinn um Jónsmessu, þegar vel viðrar. Mild- ur, ljúfur, glaður og gjöfull. Útræði var hið bezta, þorskur og stórlúða löngum við landsteina. Margan góðan feng rétti sjórinn sjálfur á land. Hér var hinn mesti reki hvals og viðar, svo jarðirnar voru eftirsóttar til eignarráða. Fjaran er aldrei dauð. Þar er bæði rek- þari og bitfjara, „svo aldrei þarf sauð að gefa í íslausu“, segir í fornri jarðalýsingu. En sjórinn er einnig óvætt- ur. Sé rakin byggðarsagan, sést að ótrúlega margir bænd- ur og bændasynir hafa drukknað í sjó. Sjórinn seiddi. Á hákarlaöldinni drukknuðu margir héðan á skútun- um. Heima voru bátarnir smáir, en áhlaup norðanveðra snögg og illvíg. Hinn hvíti floti heimskautsins gerði hér oft strandhögg á 19. öld. Flestar bjargir voru bannað- ar, þegar ís var landfastur og byrgði fjöruna fram á sumar, en ísaþokuhjúpurinn faldi sól. Úrkoman af norðri gat verið ægileg, bæði regn og snjór. Strandlendið við sjóinn, hið gróna og manngenga, hefst að norðan yfir 200 m. háum sjávarhömrum, þar sem heitir Landsendi við Bjarnarfjall. Hamrar þessir smálækka suður og eru ekki nema 20 m. háir inn hjá nyrzta bænum, Vík. Innan við Vík hefst hið eiginlega undirlendi byggðarinnar. Norðan við Vík er hallalítið land, en hækkandi norður, ofan við sævarbakka. Vík ein lítil er við sjóinn, þegar klettana þrýtur, og nefnist Víkurvík, en sunnan þeirrar víkur gengur Víkurhöfði í sjó fram. Sunnan undir höfðanum er breitt sævarlón og nefnist Víkurvatn, en Nausteyri heitir mölin milli vatns og sævar. Flúðir eru fram af höfðanum. Þar heitir Nausteyrarhella, og brýtur þar á í brimum, svo var verður innan við eyrina, og lending bezt við dalinn. Sunnan við eyrina gengur fram Hofshöfði og veitir einnig nokkurt hlé. Jökulsárbær stendur við samnefnda á undir brekkurótum og yfir flötum mýrum ofan við Víkurvatn. Undir rótum Mosahnjúks standa Brettingsstaðir, en utan við þá byrgja hólar að nokkru sýn til norðurs. Brettingsstaðir eru mesta jörðin að landsnytjum og eiga aðallendinguna að Nausteyri. Hof stendur alveg við sjó, sunnan Hofshöfða og norðan Dalsár. Eyri stend- ur undir hinni bröttu hlíð Hágangna nokkurn spöl frá sjó. Þá höfum við nefnt afstöðu þessara 5 jarða, sem öld- um saman voru einar í byggð í þessari afskekktu sveit. Vík. Jörðin á næstum hálfa strandlengju byggðarinn- ar, hallandi land frá fjöllum að sjávarbökkum, hækk- andi norður, vel gróið og afrétt til fjallsins. Túnið er í suðurhalla, grösugt og blasir við sól, svo þar þornaði taðan fyrr en á öðrum bæjum. Þrep er í vellinum, slétt- ur hjalli, hæfilegur bæjarhúsum. En undir vallarfæti er undirlendi, sléttar mýrar niður að Víkurvatni. Vík þótti væn bújörð og happasæl, góð málnyta og vetrarbeit á landi, fjörubeit góð, en gat verið hættuleg, þegar skjótt brimaði upp við sjávarkletta. Mest þótti þó vert um hinar löngu rekafjörur, og þeirra vegna var Vík eftirsótt til eignarráða, og kepptust um rekann klaustrin, stórklerkarnir og „stóllinn“. Getur jarðar- innar oft í fornbréfasafni rekans vegna. Ærið var erfiði ábúenda að bjarga rekanum, og fengu þeir þó lítinn hlut, en landeigendur stóran. Engjar eru taldar heldur „smáfengnar“ í Vík, og helzt rétt við Lækjarvík, sem gengur inn í bakkana skammt norðan bæjarins. Þar eru tóttir og nefnast Þrælagerði, og bendir nafnið til fomaldar. Fyrir vallargarði vottar þar og bendir til seinni byggðar. Sagt er að þrælar hafi fengið þar akur að yrkju og selt kornið til að kaupa sér frelsi. Víkur getur oft í fornum bréfum. Munkaþverár- klaustur er búið að ná þar ítökum í rekana fyrir 1300, svo sem flesta reka við Skjálfanda, en fleiri klerkasetur sóttust þó í krásina þá með spæni sína. Annars var jörð- in í eign eyfirzkra stóreignamanna og ætta, allt þar til Sigurður Hrólfsson keypti jörðina af Stefáni á Munka- þverá 1915. Þótt mikil skjöl og vitnisburðir séu um eignarráð jarðar og reka, segir fátt af ábúendum fyrr en eftir 1700. Eftir aldamótin 1700 býr að Vík Þórður Þorkels- son, sonur Þorkels prests, þess sem í skriðunni fórst. Frá Þórði þeim var mikil ætt, og hélzt við Þorkelsnafn- ið til þessa dags meðal niðja hans. Einn þeirra var Ámi Þorkelsson hreppstjóri í Grímsey. Árið 1763 býr á Vík Flallgrímur Þorsteinsson hinn sterki. Hans verður enn getið að Brettingsstöðum. Um Móðuharðindin er kominn að Vík Hjálmar Finnboga- son, hinn mesti bústólpi sem síðar mun getið. Hjálmar býr í Vík til 1810, en þar næst Vigfús Þorkelsson, móð- urafi Baldvins í Garði í Aðaldal. 1818 kom að Vík Hall- grímur Þorsteinsson, frændi hins fyrra og einnig nefnd- ur „hinn sterki“. Er þetta samantvinnuð Brettingsstaða- ætt, sem áður getur. Sonur hins yngra Hallgríms Þor- steinssonar var Hallgrímur einhenti. Hann missti hend- ina í voðaskoti, en var þó eftir sem áður listhagur og afarmenni til verka. Hann fórst í sjóferð 1872 á leið frá Vargsnesi til Flateyjar. Elías bróðir Jónasar á Látmm kemur að Vík 1852 og býr þar til 1869. Var þar enn einn útvegshöldur af Grenivíkurætt þar á norðurhjara. Börn Elíasar voru meðal annars Sesselja, móðir Theodórs rithöfundar, og Jón kaupmaður í Flatey, faðir Guðmundar í Krosshús- um, en hann var faðir Emils oddvita í Flatey og bræðra hans. Eftir Elías kom að Vík eyfirzkur maður, Árni Kristj- ánsson að nafni. Á fyrsta hausti missti hann allt sitt fé í 166 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.