Heima er bezt - 01.11.1973, Side 42
Bjöm Þ. Guðmundsson: Lögbókin þín.
Rvík 1973. Öm og Örlygur.
Hér er mikið verk, nytsamt og nýstárlegt, þ. e. orðabók yfir
íslenska löggjöf eins og hún er í dag, til afnota jafnt löglærðum
mönnum og hinum, sem fátt eða ekkert kunna í þeim fræðum.
Slíkar bækur eru vel þekktar meðal nágrannaþjóða vorra, og
þykja hvarvetna hin mestu höfuðþing, en hafa aldrei áður verið
gerðar handa íslenskum mönnum. Ekki þarf að fjölyrða um,
hversu oft almenningur þarf á slíkum fróðleik að halda, bæði til
að forðast árekstra og óhöpp, og ekki síður til að vita hver sé
réttur þeirra í hinu margbrotna þjóðfélagi nútímans. Það er löng-
um seinlegt og dýrt að leita lögfræðinga í hverju smáatriði, ef
menn vilja vita vissu sína um þau efni, en hér fáum vér lögfræð-
nginn inn á heimilið sem ráðunaut og góðan félaga. Flest þau
atriði, er máli skipta í löggjöf munu hér rakin, og þótt svörin séu
stuttorð, þá veitir bókin einnig upplýsingar um, hvar meiri fróð-
leik sé að finna í lögunum sjálfum, því að hvarvetna er til þeirra
vitnað. Er slíkt ekki minnsti kostur bókarinnar. Það er vitanlega
ofætlun ólöglærðum manni að dæma efnislega um einstök atriði,
en hitt er Ijóst, að öll svör eru skýr og greinagóð, þótt stuttorð
séu. Hefi ég það og eftir laganema, að bók þessi sé námsmönnum
í greininni ómetanlegt hjálpargagn til að létta þeim nám þeirra.
Þá er bókin ekki síður gagnsamleg á skrifstofum, bæði opinberra
aðila og einstaklinga, því að oft þarf að ýmsu að gá í daglegum
störfum, en síðast en ekki síst er hún bæði til skemmtunar og
fróðleiks hverjum þeim, sem eitthvað vill vita um lög og rétt í
landi voru. Höfundur bókarinnar hefir alllengi verið borgar-
dómari í Reykjavík og skrifað ýmislegt um Iögfræðileg efni og er
kunnur að þekkingu sinni og reynslu. íslendingar hafa löngum
haft hug á að vita hvað væru lög í landi, allt frá dögum Njáls,
og margir leikmenn hafa verið ótrúlega fróðir í þeim efnum.
Öllum slíkum áhugamönnum er bók þessi aufúsugestur. Hún er
og á að vera Handbók fyrir hvern mann, eins og Magnús gamli
Stephensen kallaði fræðibók sína um sveitastjómarlög og fleira
þess kyns á sínum tíma.
Jón Steingrímsson: Ævisagan og önnur rit.
Rvík 1973. Helgafell.
Ekki hefur verið um það deilt, að síra Jón Steingrímsson „eld-
prestur" hafi verið meðal hinna merkustu íslendinga fyrr og síðar,
og rit hans, Ævisagan og lýsingin á Síðueldum, eru löngu orðin
klassisk. Ævisagan er í senn óvanalega skýr mannlýsing og þáttur
-i menningarsögu þjóðarinnar. Stendur hún í þeim efnum flestum
sjálfsævisögum íslenskum framar. Hreinskilni og sannleiksást höf-
undar er með fágætum, og persónuleiki hans sá, að honum er
gott að kynnast. Athygli hans er frábær og skilningur á samtíð
hans og samtíðarmönnum mikill. Frásögn hans er að vísu sums
staðar nokkuð langdregin og málið stirðlegt í okkar augum, en
aldrei verður bókin leiðinlegt fyrir þá sök, því að lesandinn
finnur sífellt nálægð höfundar og fylgir honum af áhuga, jafnt
í gleði hans og hörmungum. Sagan hefir tvisvar verið gefin út á
þessari öld og notið mikilla vinsælda að verðleikum.
Eldritið er lýsing á Skaftáreldum, og er það gætt sömu kostum
og ævisagan. Ef til vill kynnumst vér hvergi betur trúarhetjunni
og þrekmenninu en þar, en auk þess er hin nákvæma lýsing á
hinum ægilegu atburðum og afleiðingum þeirra ómétanlegur
fróðleikur, bæði sagnfræðingum og náttúrufræðingum. Verður
seint ofmetið gildi þess rits, sem skráð er af fyllstu samviskusemi,
af manni, sem stóð mitt í eldinum sjálfur. Önnur rit í þessu
bindi eru „Um Kötlugjá" og „Um að ýta og lenda í brimsjó".
Það er mikill og góður fengur að hafa nú þessi höfuðrit síra Jóns
í einu lagi. Kristján Albertsson hefir annast þessa útgáfu og
skrifar hann greinagóðan formála um höfundinn og ritverk hans,
Paul Busson: Skotið á heiðinni og sögur eftir aðra
höfunda. Rvik 1973. Rökkur.
Axel Thorsteinsson heldur hér áfram að safna saman og gefa út
þýðingar sínar af sögum kunnra höfunda. Hafa þær flestar birzt
áður í Rökkri og Visi. í þessu safni eru allar sögumar dulræns
eðlis. Söguval Axels er smekklegt og gert af kunnáttu, og höfund-
amir úr þeim hópi, sem bezt gera smásögur. Þá er þýðandinn
löngu kunnur fyrir vandaðar þýðingar og góða meðferð íslenzkrar
tungu. Það þarf því enginn að óttast það, að hann uni ekki við
Iestur þeirra bóka, sem Axel Thorsteinsson þýðir og gefur út.
Sigurður Breiðfjörð: Rímnasafn, 6. bindi.
Rvík 1973. fsafoldarprentsmiðja hf.
í þessu bindi eru Rímur af Gunnari á Hlíðarenda, sem eru með
lengstu rímnaflokkum Sigurðar, en einnig með þeim svipminni.
Munu þær aldrei hafa náð verulegum vinsældum. Enda bera þær
þess nokkrar minjar, að höf. hafi oft verið annars hugar, er hann
orti þær. En eins og ætíð eru þar margar vísur vel kveðnar, því
að bragsnilldin bregst honum sjaldnast. Sveinbjöm Beinteinsson
alsherjargoði hefir búið þetta bindi til prentunar og samið orða-
skýringar eins og við fyrri bindin, en Jóhann Briem listmálari
skreytir þær skemmtilegum myndum eins og hin fyrri.
Erich von Dániken: f geimfari til goðheima.
Rvík 1973. Öm og Örlygur.
í fyrra kom út bók eftir sama höfund: „Voru guðimir geimfarar ',
þar sem hann heldur því fram, að hinir fornu guðir hafi verið
geimfarar, háþroskaðar vitsmunaverur, sem lent hafi á jörð vorri
til að veita mönnum þroska og framför. Þessi nýja bók er „of et
sama far", segir hún frá samskiptum goðkynjaðra vera frá öðrum
hnöttum við jarðarbúa, og rekur um leið þroskasögu mannsins
frá dýri og beinir sjóninni fram á við til goðheima. Bókin er
fyllt af fróðleik um hinar nýjustu kenningar í lxffræði og efna-
fræði, ævafornum goðsögnum og lýsingum furðulegra fomminja,
sem höfundur telur verk hinna goðkynjuðu geimfara. Og allt
þetta tengir höf. saman í eina heild til sönnunar og stuðnings
þróunar- og sögukenningu sinni. Fróðleikur höf. virðist með ein-
dæmum og hugarflugið ekki siður, og hann hikar ekki við að
setja fram kenningar og fullyrðingar svo furðulegar, að vafalaust
mun mörgum rísa við það hár á höfði. En hvort sem menn taka
höf. trúanlegan eða ekki, ég býst raunar við, að fæstir geti fylgt
honum á gandreið hans, þá stendur það óhaggað, að bókin er
skemmtileg aflestrar, og mun gefa mörgum ánægjustund og um-
hugsunarefni, enda þótt þeir geti tæpast áttað sig á öllum ósköp-
unum. St. Std.
418 Heima er bezt