Almanak Ólafs S. Thorgeirssonar - 01.01.1933, Blaðsíða 99
97
frændur og sveitunga eins glæsilegasta sögukapp-
ans: “Allir héldu (þeir) hann fyrir höfðingja.’' Má
og Arthur teljast einn atkvæðamestur bóndinn
meðal hinna ýmsu þjóðflokka þar norður.
Landnemi N. E. 13.
Halla Jónsdóttir Jónasson. — Hennar er hér áð-
ur getið ÍS. E. 1). Þeir Jaðarsbræður synir hennar
starfrækja landið fyrir kornyrkju.
Landnemi S. V. 15.
Halldór Ásmundsson Austmann. — Hann er sonur
Ásmundar Austmanns, er land nam á Víðir (I, N.
V. 19), Björnssonar landnema í Geysisbygð. Kona
Halldórs er Anna Sigvaldadóttir, systir Björns Ing-
vars sveitarráðsoddvita í Bifröst. Hún má teljast
með allra greindustu konum, og er vel að sér ger í
hannyrðum. Búkona er hún með afbrigðum og
kemur þar myndarlega fram. Með frábærri stjórn-
semi stendur hún með ráðum og dáðum við hlið
bónda síns, sem er hinn mesti atorkumaður og
framhugasamur við búskapinn. — Helgi er sonur
þeirra, greindarlegur piltur. Fleiri börn hafa þau
ekki eignast.
Landnemi S. E. 21.
Jakob J. Líndal. — Faðir lians er Jónatan Líndal
landnemi í Mordenbygð, Jónatansson bónda í Mið-
hópi í Víðidal, Jósafatssonar bónda á Ásgeirsá,
Tómassonar stúdents þar. En móðir Jakobs er
Ingibjörg Benediktsdóttir. — Kona hans er Þórunn
dóttir Ólafs Kristjánssonar og Júlíönu Jónsdóttur,
ættuð úr Þingeyjarsýslu. Hún er búsýslukona
mikil, ágæt húsfreyja, geðprúð og stilt. Börn þeirra
eru: 1. Jónatan; 2. Jóhann; 3. Ólafur: 4. Jósef; 5.
Sigurður; 6. Júlíana. Jakob er umfangsmikill við
búskapinn. Hann hefir nýlega keypt tvö lönd og
hefir kornyrkju í stórum stíl, sem hann eykur ár-
lega. Mesta áherzlu hefir hann þó lagt á hveiti-
ræktina, sem hann framleiðir öðrum bændum meir
í þessari nýlendu — næst Jaðarsbræðrum. — Ja-
kob er lundglaður maður, greindur og viðræðu-
góður; skemtilegur heim að sækja.