Gripla - 01.01.1990, Side 48
44
GRIPLA
Kalladur Fnióskadals-afrett, allur frammdalur til Ödeilu.’ (Sbr. hér að
framan bls. 35-36).
Heita má, að Jón Espólín komist nákvæmlega eins að orði, og væri
það með hreinum undrum, ef hann hefði ekki þekkt skýrsluna. (Sjá
hér að framan, bls. 23).
Enginn vafi er á því, að orðið ódeila er þarna samnafn og haft um
óskipt land. Vera má, að landið fram af Bleiksmýrardal hafi verið
óskipt beitiland Fnjóskdælinga, þar eð Bleiksmýrardalur var eign
Munkaþverárklausturs og Hrafnagilskirkju.
Þetta orð virðist koma aðeins einu sinni fyrir í fornum bókmenntum
og þá sem örnefni, nafn á landsvæði.
Sturlubók og Hauksbók Landnámabókar eru samhljóða um það, að
Þórir snepill hafi fyrst numið ‘Kaldakinn milli Skuggabjarga og Ljósa-
vatnsskarðs . . . nam þar eigi ynði . . . nam síðan Hnjóskadal allan til
Ódeilu ok bjó at Lundi; hann blótadi lundinn.’ Enn skýrar er um
Ódeilu fjallað, þar sem segir frá landnámi Eyvindar Loðinssonar öng-
uls (Sturlubók og Hauksbók enn samhljóða): ‘. . . Eyvindr . . . nam
Flateyjardal upp til Gunnsteina ok blótaði þá. Þar liggr Ódeila á milli
ok landnáms Þóris snepils.’ (íslenzk fornrit I, Rvík 1968, bls. 270, 271
og 273).
Tvennt má hugsa sér um notkun orðsins ódeila í skýrslunni (og um
leið í Arbókum Espólíns). Það er annaðhvort vitnisburður um það
málfar, sem sögumanni var tamt, eða hann eða ritari skýrslunnar hefur
hent á lofti orð úr Landnámu og hnikað til notkun orðsins, vegna þess
að auðskilið er, hvernig það er hugsað. Vitanlega verður þá ekkert um
það sagt, hvort sögumaður/skrásetjari hefur þekkt Landnámuhandrit
eða prentaða útgáfu ritsins. Landnámuútgáfur voru tvær til fyrir 1779,
þ.e. Skálholtsútgáfa frá 1688 og útgáfa Hannesar Finnssonar prentuð í
Kaupmannahöfn 1774. Er skemmst frá því að segja, að allt það, sem
sagt er um Ódeilu í áður tilvitnaðri útgáfu Hins íslenzka fornritafélags,
er einnig að finna í útgáfunum frá 1688 og 1774.
Telja má víst, að Ódeila hafi verið nefnd landspilda á vatnaskilum
Fnjóskadals og Flateyjardals, ekki fjarri bænum Kambsmýrum. Hefur
ýmislegt verið um það ritað, sem of langt mál yrði að gera grein fyrir
hér. Svo er að sjá, að hið forna nafn á svæði þessu hafi algerlega fallið
í gleymsku. Um það eru til vitnis eftirtalin rit: íslenzk fornrit I, Rvík
1968 (einkum bls. 273 og tilvísun þar til rits Jóns Sigurðssonar Suður-