Gripla - 01.01.1990, Page 51
POSTULÍNSGERÐ OG HESTAVÍG
47
EF BLEIKJAN HEFÐI FUNDIST
Hugsum okkur nú, að sá, sem lét sér til hugar koma, að gnótt bleikju
væri að finna inni á Bleiksmýrardal, hefði átt kollgátuna. Hverju hefðu
þá Islendingar í umkomuleysi sínu - eða segjum aðeins Fnjóskdælir -
verið bættari? Það hefði svo sem verið mikið verk og ærið baslsamt að
kjótla leirnum á klyfjahestum, hvort sem var til Húsavíkur eða Akur-
eyrar til skips. Það hefði vitaskuld aldrei verið gert, nema bleikjan
hefði verið samkeppnisfær um verð og gæði við postulínsleirinn á
Borgundarhólmi. Það hefur því verið takmarkaður kostnaður, sem
mátti leggjast á bleikjuna, en vinnan við flutninginn til skips frek á
mannafla og hesta. íslendingar hafa einnig mátt súpa af því seyðið fyrr
og síðar, að allir flutningar til og frá landinu hafa verið og eru dýrir.
Engin hjól voru til í landinu nema nokkrir kvarnarsteinar og hjól
þeirra rokka, sem voru að breiðast út frá Innréttingunum í Reykjavík.
Flutningurinn gat aðeins farið fram um hábjargræðistímann, meðan
annað brýnna var við vinnuaflið í landinu að gera. Helst hefði mátt
nota tímann milli fráfærna og sláttar, en snjóa hefði áður þurft að hafa
leyst inni á Bleiksmýrardal. Ekki voru verkfærin heldur beysin, meðan
pállinn var eina járnverkfærið (fyrir utan járnkarla, sem tilheyrðu
graftólabúnaði kirkna), en rekur allar úr tré með pjáturvari að framan,
þegar best lét. Ekki hefði það heldur verið nein skrautsýning að sjá
klyfjalestina silast þessa löngu leið, vinnumennina oft gegndrepa og
karga, en marga hesta meidda, enda varla búna að ná sér eftir útigang
á síðasta vetri. Eins og á stóð, var það íslendingum ofraun og Dönum,
stjórnvöldum eða fyrirtækjum, ekki ætlandi sú ofrausn að leggja
kerrufæran veg frá Akureyri eða Húsavík inn á Bleiksmýrardal, hvað
þá að gera bændum kleift að eignast kerrur og aktygi í einu vetfangi.
Það hefði orðið meiri breyting en sögur fara af á þeim tímum. Postu-
Iínsiðnaðurinn hefði aldrei risið undir þeim kostnaði. Það væri þá
helst, að Skúli Magnússon hefði getað talið dönskum stjórnvöldum trú
um, að hér væri arðvænlegt fyrirtæki í augsýn. Bændur hefðu e.t.v.
fengið einhverja hungurlús fyrir að leggja til vinnumenn og hesta, en
hefðu vafalaust haft miklu meira upp úr því að senda vinnumennina til
fiskjar út á Eyjafjörð á sama tíma, ef ekki hefði verið því meiri ör-
deyða til sjávarins. Hagur vinnumannsins hefði í engu breytst. Hann
var á föstu kaupi bóndans og bundinn vistarbandi. Þó var það að öðru