Gripla - 01.01.1990, Blaðsíða 65
UM ÞRÓUN ÖRVAR-ODDS SÖGU
61
öðrum orðum: mikill kafli um Akvitaníu er kominn í staðinn fyrir allar
Miðjarðarhafsferðir í S, þar sem Akvitanía er aðeins eitt lítið atriði
(sama í M).
3.1.3. En það sem hefur valdið mestum breytingum, er innskot
meira en sex kapítula, þar sem eldri gerðin hefur aðeins frásögn um
tiltölulega stutta Ungverjalandsdvöl Odds. Þar að auki fylgir enn eitt
innskot með algerlega nýju efni á eftir 29. kapítula. Það er margt
skrýtið og ótrúlegt sem gerist í þessum nýju köflum: gammur tekur
Odd og færir hann í bæli sitt, þaðan er honum bjargað af Hildi risa,
hann dvelst þar sem leikfang risadóttur, en getur þó barn með henni;
hann heldur áfram ferðinni og kemur á fund Rauðgrana nokkurs, sem
talinn er vera Óðinn (sjá Kroesen 1985), og gefur hann Oddi nánari
upplýsingar um Ögmund og móður hans sem er hræðilegt skrímsli.
Oddur fer til Englands til að drepa hana, leitar að nýju að Ögmundi,
heyr tvo bardaga við hann og ber að nokkru sigur af honum; en þegar
Oddur hefur sest að í Grikklandi (í staðinn fyrir Húnaland), er enn
einu sinni fjallað um viðureign við Ögmund: eftir mikla orrustu sættast
þeir loks af því að báðir eru ósigrandi.
3.2. Aukning söguefnis og atburða hefur í för með sér breytingar á
formgerðinni:
Það sem er mest áberandi við fyrstu sýn, er að hér hefur verið skotið
inn nýrri og sýnilega nokkuð sundurleitri röð ævintýra með miklu
ýkjukenndu, fáránlegu efni, en einnig bardögum og orrustum af
venjulegri gerð, og virðist þessi atburðarás sprengja sundur uppruna-
legu formgerðina.
En ef litið er nánar á, hvað gerist í þessum köflum, kemur brátt í
Ijós að mestur hluti þess tengist efni í öðrum hlutum sögunnar; meira
að segja er lögð meiri áhersla á orsakasamhengi og samtengingu at-
burðanna en í eldri gerðinni. Nú fær Oddur skýringu á því að Ög-
mundur hafði skorað hann á hólm við fyrsta fund þeirra (hann ætlar að
hefna Bjarmalandsfarar Odds); og sögumaður yngri gerðar gleymir
ekki eins fljótt og hinn, hann lætur Vigni son Odds, sem hefur verið
uppalinn hjá móður sinni, Hildigunni tröllkonu, koma á hans fund og
hjálpa honum, og einkanlega víkur höfundur aftur og aftur til Ög-
mundar. Þessi illi andi verður að eins konar miðdepli í innskotunum,
leit Odds að Ögmundi verður að vissu leyti söguþráður - þó ekki svo
að atburðir varðandi Ögmund séu komnir í staðinn fyrir önnur efnis-