Gripla - 01.01.1990, Page 329
STAÐA KONUNGSSKUGGSJÁR
325
jafnvel setninga, án þess að finna neina þörf á að fjalla um málið í
breiðu samhengi. Þau viðhorf til Konungsskuggsjár, sem hægt er að
rekast á með því að fletta í ritum fræðimanna frá fyrri og síðari tímum,
eru þó svo gerólík, að það eitt sýnir þörfina á að velta þessu vandamáli
fyrir sér áður en lengra er haldið í rannsóknunum.
Á 17. og 18. öld, allt frá dögum Peder Claussón Friis, sem dó árið
1614,2 og fram að útkomu ritsins Wigfusus Jonaeus de piscatura occas-
ione Speculi regalis3 árið 1762, eða jafnvel enn lengur, virðast fræði-
menn einkum hafa litið á Konungsskuggsjá sem vísindarit um landa-
fræði og náttúrufræði á norðurslóðum eða kannske fyrst og fremst um
hvalalíf í kringum Grænland og ísland. Það eru nefnilega svo til ein-
göngu þessir landfræðikaflar verksins sem eru dregnir fram í dagsljósið
og aðrir þættir þess eru varla nefndir.
í byrjun 19. aldar verður skyndilega mikil breyting, farið er að líta á
þetta fyrrverandi vísindarit um hvali sem heimild um ‘hugsunarhátt
forfeðranna’,4 og menn byrja að velta vöngum yfir ýmsum hlutum
verksins sem áður höfðu verið vanræktir. Þetta viðhorf hefur ekki
breyst síðan í grundvallaratriðum, en þegar að því kemur að skilgreina
nánar eðli þessarar ‘heimildar um hugsunarhátt forfeðranna’, eru
skoðanir ákaflega skiptar. Margir sagnfræðingar telja að Konungs-
skuggsjá hafi verið samin sem eins konar kennslubók fyrir norsk heldri
manna börn á 13. öld, og hafði einn þeirra þau orð að ritið væri ‘fyrsta
námsskráin fyrir æðri menntun í landinu’5. Fredrik Paasche gekk enn
lengra og setti fram þá kenningu, að Konungsskuggsjá hefði verið
skrifuð fyrir syni Hákonar gamla.6 Hafa margir sagnfræðingar fallist á
þessa skoðun síðan - nú síðast Ludvig Holm-Olsen7 - og notað þessa
2 Verk hans hafa verið gefin út af Gustav Storm, Samlede skrifter af Peder Clauss0n
Friis, Kristiania 1881.
3 Rit þetta er nefnt í fyrstu útgáfu Konungsskuggsjár, Sor0 1768.
4 Sjá t.d. C.M. Falsen, Norgeshistorie under Kong Harald Haarfager og hans mand-
lige descendanter, 3. hluta, Kristiania 1823-24, bls. 198-199.
5 Per Tylden: ‘den fyrste undervisningsplanen for den h0gre skulen her i landet’.
Þessi orð eru tilfærð á baksíðu ritsins Studier over Konungs skuggsiá, i utvalg ved Matti-
as Tveitane, Bergen 1971 (hér eftir kallað Studier).
6 Fredrik Paasche, Norsk litteraturhistorie I, 2. útgáfa, Ósló 1957, bls. 474-486.
7 Ludvig Holm-Olsen, Norges litteraturhistorie I, Ósló 1974, bls. 169, og einnig ‘The
Prologue to the King’s Mirror: Did the author of the work write it?’ Speculum norroen-
um, Óðinsvéum 1981, bls. 224.