Gripla - 01.01.1990, Page 335
STAÐA KONUNGSSKUGGSJÁR
331
stenspiegeln’. Þegar rannsóknarefnið er afmarkað á þennan hátt er því
mikil hætta á að einhver ruglingur verði milli þeirra rita, sem hægt er
að kalla ‘Fiirstenspiegel’,23 og þeirra rita, sem eru heimild um siðferði í
stjórnmálum, hvernig svo sem þeim kann að vera háttað að öðru leyti.
Þessi ruglingur kemur fram í atriðum eins og því að ekki er gerður skýr
greinarmunur á raunverulegum ‘furstaspeglum’ og þeim ritum sem
hægt er að kalla ‘fiirstenspiegelachtig’, eins og H.H. Anton kemst ein-
hvers staðar að orði.
Fyrir rannsóknir á Konungsskuggsjá eru þessi vinnubrögð gagnslítil
og verður að byrja á að skilgreina á eins skýran hátt og unnt er hvað er
‘Furstenspiegel’ og gera síðan lista yfir þau verk, sem flokkast undir þá
bókmenntagrein. Ég sting upp á því að orða skilgreininguna á þennan
hátt: ‘Fiirstenspiegel’ er ritgerð, sem samin er fyrir konung eða höfð-
ingja - og gjarnan tileinkuð honum - og fjallar um það hvernig fyrir-
myndarkonungur eigi að vera og hver sé staða hans í heiminum.
Þessi skilgreining kann að virðast einföld og jafnvel sjálfsögð, en
hún hefur samt þær afleiðingar að afmarka rannsóknarefnið miklu ná-
kvæmar en yfirleitt hefur verið gert, og útiloka ýmis verk, sem fræði-
menn hafa gjarnan tekið með í rannsóknum sínum á ‘furstaspeglum’.
Meðal þeirra verka, sem falla þannig burt af listanum, eru ýmis al-
menn guðrækileg verk eða siðavöndunarrit, sem eiga ekki frekar er-
indi til konunga en annarra manna, svo sem De duodecim abusivis
seculi eftir Pseudo-Cyprianus, og svo líka stutt áminningarbréf, sem
alls ekki er hægt að skilgreina sem ritgerðir.24 Segja má að þessi rit
skipti ekki ýkja miklu máli í sjálfu sér. En skilgreiningin leiðir einnig
til þess að fella verður burt af listanum rit, sem margir fræðimenn hafa
talið einn merkasta ‘furstaspegil’ á samanlögðum miðöldum, Polycrat-
icus eftir Jóhannes frá Salisbury. En þetta fræga rit var ekki skrifað
fyrir konung heldur fyrir annan mann og engu ómerkari, Tómas
Becket, þáverandi kanslara og síðar erkibiskup, og efni þess er fyrst og
23 Wilhelm Kleineke tekur fram að erfitt sé að gera lista yfir þessi verk ‘. . . weil der
Fiirstenspiegel gattungsmássig nicht festbestimmt ist, weil er fliessende Grenzen auf-
weist gegenuber dem politischen Pamphlet, gegenúber dem allgemeinen Moraltraktat
und gegenúber der staatsrechtlichen Schrift’ (tilv. rit, bls. 21). - Wilhelm Berges segir
aðeins, að hann hafi leitt hjá sér persónuleg guðræknirit fyrir konunga eins og La som-
me le roi eftir bróður Laurentius.
24 Þ.e.a.s. ‘epistulae exhortatoriae’, sem virðast hafa verið mikilvæg bókmennta-
grein á Karlungatímabilinu, sbr. H.H. Anton, tilv. rit.