Gripla - 01.01.1990, Blaðsíða 338
334
GRIPLA
saman. Til þess aö glöggva sig betur á þessum verkum er því nauðsyn-
legt að byrja á því að athuga hvort hægt er að skipta þeim í flokka eftir
uppbyggingu þeirra og efnisvali, þ.e.a.s. búa til eins konar ‘typólógíu’
verkanna. Þótt hinar ýmsu gerðir þeirra renni saman og markalínur
séu ákaflega óljósar, virðist vera hægt að skipta þeim í fjóra flokka.
1) Hinir einföldustu ‘furstaspeglar’ eru lítið annað en skrá yfir þær
dyggðir, sem fyrirmyndarkonungurinn þarf að hafa til brunns að bera
(’Tugendkatalog’), og kannski stundum skrá yfir þá lesti, sem hann
þarf einkum að varast, og er fjallað um þessar dyggðir (og þessa lesti)
hverjar á eftir annarri. Til þessa fyrsta flokks teljast verk eins og Via
regia eftir Smaragdus frá Saint-Mihiel, sem skrifað var á fyrstu árum
níundu aldar, og L’enseignement des princes eftir Robert de Blois,
skrifað um miðja 13. öld, svo og fyrsti hlutinn af De principis in-
structione eftir Giraldus Cambrensis, sem lokið var um 1217, en
‘dyggðaskrár’ af þessu tagi finnast í mörgum öðrum og umfangsmeiri
verkum.28
2) Til annars flokksins teljast rit, sem lýsa einhverjum ákveðnum
sögulegum konungi, eða kannski fleiri en einum, sem fyrirmynd fyrir
konunga síðari tíma. Er vinsælt að ráðleggja konungum að líkja eftir
Davíð eða Salómon, en einnig er stungið upp á síðari tíma konungum,
svo sem Karlamagnúsi eða ættfeðrum þess sem skrifað er fyrir, sem
góðri fyrirmynd fyrir þjóðhöfðingja. Þessi flokkur er nátengdur fyrsta
flokknum, því að höfundarnir byrja stundum á ‘dyggðaskrá’ og fara
síðan að segja frá einhverjum konungi, sem var öllum þessum dyggð-
um prýddur. Verk af því tagi er Önnur elegía Ernolds svarta fyrir
Pippin konung af Akvítaníu, samin um 828. Þar er fyrst ‘dyggðaskrá’
tekin beint upp úr Via regia eftir Smaragdus, síðan er sagt frá dyggð-
ugum konungum, Davíð, Salómon, Pippin frá Herstal, Karli Martel
o.s.frv., og loks er konungur minntur á að fylgja fordæmi dyggðum
prýddra forfeðra sinna. í De principis instructione eftir Giraldus er
þessu snúið við, þannig að á eftir dyggðaskránni er sögð saga Hinriks
II. Englandskonungs sem dæmi um dapurleg örlög konunga, sem hafa
ekki tilskildar dyggðir. í verkinu Carolinus eftir Egidius frá París notar
28 Via regia er byggð upp sem ‘dyggðaskrá’, og bera kaflaheitin þess glöggt vitni: ‘de
timore, de sapientia, de prudentia, de simplicitate’ o.s.frv. í L’enseignement des princes
eru vopn riddarans og klæði notuð sem tákn fyrir hinar ýmsu dyggðir konungsins (sem
er fremstur riddara) og er fjallað um þær hverja eftir aðra, en síðan eru taldir upp þeir
lestir, sem ber að varast.