Gripla - 01.01.1990, Síða 350
346
GRIPLA
alefninu. ‘Sonur’ segir: ‘en ég vil þó nú enn að sinnsökum forvitnast
um stærri menn heldur en þá er þjóna skulu undir þeim er ríkir eru’,
og skömmu síðar slær hann vissa varnagla, sem sýna að þetta um-
ræðuefni er annars eðlis en samtalið fram að þessu: ‘þarf ég fyrir því
að þér skýrið innilega fyrir mér þessa hluti sem nú hefi ég spurða, ef
yður sýnist svo að það sé eigi til heimsklega spurt eða mér sé eigi of
mikil dirfð í að forvitnast um athæfi svo stórra manna’.57 (Innskotseðli
þessa bálks verður enn skýrara, ef menn gera ráð fyrir því, eins og
sumir hafa talið, að Konungsskuggsjá sé ófullgert verk.58) Þetta atriði
leggur að mínum dómi kenningu Eiríks Vandviks í rústir, því að það er
harla ólíklegt að aðalpersónur samtalsins hafi verið fundnar upp vegna
þess hluta verksins, þar sem umræðuefnið stendur þeim fjærst og kemur
þeim minnst við. Vandvik gerir ráð fyrir að formálinn sé upprunalegur
og hafi konungsbálkurinn komið beint á eftir honum í frumgerð verks-
ins: í slíku riti væri langeðlilegast að persónurnar væru konungur og
sonur hans. Skoðun Anne Holtsmark á því hvað sé hin eiginlega Kon-
ungsskuggsjá missir einnig mikið af gildi sínu, því að erfitt er að trúa
því að bálkur, sem er á vissan hátt útúrdúr, sé samt aðalefni bókarinnar.
Þótt konungsbálkurinn sé sérstæður, er hann samt ekki sjálfstæður
‘furstaspegill’ innan verksins, og það er ekki hægt að einangra hann frá
heildinni og gefa honum sérstaka þýðingu: hann er frávik, en innan
þeirrar dagskrár umræðunnar, sem mörkuð var í formálanum.
Svo virðist sem þessi staða konungsbálksins í verkinu skýri þann
mun, sem er á honum og hinum erlendu ‘furstaspeglum’, og nú er rétt
að athuga nánar. Þá er fyrst að telja, að höfundur Konungsskuggsjár
fjallar svo að segja ekkert um það atriði sem er kjarni málsins í flestum
57 Konungs skuggsiá, bls. 72 og 73.
58 Benda má á, að í þessu sambandi skiptir merking orðasambandsins ‘að sinnsök-
um’ talsverðu máli. Pað finnst ekki í fyrstu útgáfu orðabókar Fritzners, heldur aðeins í
4. bindi hennar frá 1972 (Rettelser og tillegg ved Finn Hödnebo) og er þar þýtt ‘denne
gang’, en eina tilvísunin er til þessa staðar í Konungsskuggsjá. Pessi merking virðist þó
ekki eiga fyllilega við. Ef hins vegar er gert ráð fyrir því að orðasambandið þýði ‘um
stundarsakir’, verður allt skýrara, og þá er þessi setning í samræmi við það sem ‘sonur’
sagði rétt áður. Samhengið er þannig: ‘(sonur:) En ég þykjumst það sjá, að svo horfir
þessi ræða til að enn munu þeir margir hlutir eftir vera er þeim manni man nauðsyn að
vita og verða vel áskynja er sæmdarmaður vill með konungum vera eða öðrum stór-
höfðingjum, og stunda ég enn til þeirrar ræðu fram á leið. En ég vil þó enn að sinnsök-
um . . .’ Þessi orð verða varla skilin öðru vísi en að höfundur hafi ætlað að víkja aftur að
hirðmönnum að konungsbálkinum loknum.