Uppeldi og menntun - 01.01.2004, Síða 64
„Á ÉG AÐ VERA M E Ð ÞVÍLÍKUM KERLINGUM i BEKK?"
námsráðgjöfum og aðstoð við að mynda samvinnuhópa virðist hafa skipt sköpum
fyrir gengi þeirra í náminu.
Eins og fram kemur í viðtölunum eru það eldri konurnar sem sitja uppi með þá
menningarbundnu arfleifð sem felst í hefðbundnum kynhlutverkum og gerir þeim
erfitt fyrir að sækja nám á háskólastigi og efla þannig eigin færni og styrkja stöðu sína
á vinnumarkaði og í samfélaginu. Til að vel takist til þurfa þær mikla hvatningu frá
sínu nánasta umhverfi og bæði námslegan og persónulegan stuðning, sérstaklega frá
þeim stofnunum sem þær sækja í til að þær hverfi ekki frá námi eins og fram kom í
rannsókn á gengi leikskólakennaranema (Sif Einarsdóttir og Jóhanna Einarsdóttir,
2002). Greiðara aðgengi eldri nemenda (einkum kvenna) að háskólasamfélaginu
snýst ekki aðeins um jafnrétti til náms og kynjajafnrétti almennt því þátttaka eldri
nema er talin hafa mjög jákvæð áhrif á háskólasamfélagið. Reynsla eldri nemenda á
vinnumarkaði og ólík sýn þeirra á viðfangsefni námsins er dýrmæt fyrir háskólasam-
félagið í heild, eins og glöggt kemur fram í þessari rannsókn. Margbreytileiki nem-
endahópsins hefur ekki einungis jákvæð áhrif á nám og þekkingaröflun heldur
einnig á lýðræðislegt uppeldi borgaranna (Gurin, Dey, Hurtado og Gurin, 2002;
Hurtado, Grey, Gurin og Gurin, 2003). Markmið háskólastofnana er margþætt og þær
þjóna bæði samfélaginu og atvinnulífinu. Því er einnig mikilvægt að kanna nánar
hvernig eldri og yngri leikskólakennaranemar skila sér til starfa á leikskólunum, að-
lögun þeirra að starfi, gengi og starfsánægju. í þróun þekkingarsamfélags þar sem
megináhersla er lögð á að efla mannauð, er aðgengi sem flestra borgara að háskóla-
samfélaginu lykilatriði.
Þakkarorð
Örnu Jónsdóttur, Hróbjarti Árnasyni og Þorgerði Einarsdóttur kunnum við bestu
þakkir fyrir yfirlestur og gagnlegar athugasemdir við handrit. Rannsóknin var styrkt
af Rartnsóknarsjóði Kennaraháskóla Islands.
62