Uppeldi og menntun - 01.01.2004, Blaðsíða 43
RAGNHILDUR BJARNADOTTIR
t.d. íslensku, stærðfræði eða náttúrufræði, valdi þeim áhyggjum. Til að ná árangri í
kennslu telja þeir sig þurfa annars konar þekkingu og vitneskju, t.d. að læra aðferðir
til að koma til móts við hvern nemanda í getublönduðum bekk. Þetta styður þau
sjónarmið að miðlun þekkingar sé ekki lengur kjarni kennarastarfsins, heldur það að
fá nemendur til að læra.
Samkvæmt fyrri rannsóknarniðurstöðum leggja kennaranemar mikla áherslu á
gildi persónulegrar reynslu á vettvangi (Hafdís Ingvarsdóttir, 1997; Korthagen, 2004).
Niðurstöður þessarar rannsóknar eru engin undantekning frá þessu, nemarnir eru
uppteknir af að gera og vera og vettvangsnámið hefur augljóslega mikil áhrif á þessa
persónulegu vídd í starfshæfni þeirra. Samt sem áður má álykta að starfshæfni
margra kennaranema sé mun faglegri en skoðanir þeirra sjálfra benda til. Starfshæfni
margra þeirra er greinilega byggð áfaglegum grunni. Þeir byggja hæfni sína á kunnáttu
af ýmsu tagi, m.a. í uppeldisgreinum, einnig á faglegum pælingum og orðræðu (t.d.
einstaklingsmiðað nám, virkni í eigin námi), sem bendir til þess að faglegt tungumál
hafi mótað hugsun þeirra um starfið. Þær aðferðir sem notaðar voru í rannsókninni
leyfa ekki að dregnar séu almennar ályktanir af niðurstöðum um þá starfshæfni sem
kennaranemar almennt glíma við. En þær gefa til kynna að námskeið í kennaranámi
og fagleg umræða hafi áhrif á persónulegan styrk kennaranema og þar með starfs-
hæfni þeirra.
Hugsanlega tengjast helstu niðurstöður þessarar rannsóknar breyttum aðstæðum
í nútímasamfélagi. Þær vekja í fyrsta lagi spurningar um hvort persónulegur styrkur
hafi fengið aukið vægi í starfshæfni kennara og vægi þess að kunna eða vita hafi
minnkað. Nemarnir þurfa persónulegan styrk til að hafa vald á kennslunni og líka til
að takast á við síbreytilegar aðstæður og kröfur. í kennaranámi við Kennaraháskóla
Islands er mikið um hópvinnu og samstarfsverkefni en engu að síður virðist einstak-
lingsmótun vera í brennidepli hjá þátttakendum rannsóknarinnar. Þeir hafa mjög
persónulega sýn á kennarastarfið og sjá það sem uppsprettu eigin þroska - án þess
að þeir geri lítið úr því gildi sem samvinna og samræður hafa í því sambandi. Þeir
eru meðvitaðir um eigin ábyrgð og eigin virkni í því ferli að ná tökum á starfinu. „Þú
verður fyrst og fremst að vita hvar þú stendur sjálfur andspænis þessum hlutum". Sú
einstaklingsmótun sem talin er vera eitt af megineinkennum nútímasamfélagsins
(Beck, 1999; Morch, 2003) skín í gegn í svörum þeirra. Hvað varðar spurninguna um
það hvort vægi þess að kunna eða vita hefur minnkað má álykta að áherslan hafi
færst frá kunnáttunni sjálfri til þess að geta kunnað eða vitað, sem gerir kröfur um yfir-
sýn yfir faglegt efni.
I öðru lagi virðast niðurstöðurnar falla að hugmyndafræði hugsmíðahyggjunnar
þar sem lögð er áhersla á að hlutverk kennarans eigi frekar að felast í því að styðja
við nám nemenda en í formlegri kennslu (Bruner, 1983; Rogoff, 1990). Einstaklingar
séu sjálfir virkir í eigin námi og hinir fullorðnu einungis færir um að styðja við og hlú
að því sem gerist innra með þeim.
í þriðja lagi er margbreytileiki áberandi. Margar leiðir virðast vera færar til að ná
valdi á agavandamálum. Sumir sækja styrk í námskeið um aðferðir til að takast á við
slík vandamál, aðrir í reynslu á vettvangi, m.a. samskipti viðtökukennara, og enn
aðrir í persónulegar eða hugmyndafræðilegar pælingar.
41