Uppeldi og menntun - 01.01.2004, Blaðsíða 53
JÓHANNA EINARSDÓTTIR OG SIF EINARSDÓTTIR
í leikskóla eða fengið staðfestingu á því þar að þetta væri það sem þær vildu gera. Ein
hinna yngri sagði:
Ég var búin að ákveða að ég ætlaði í Kennaraháskólann, en ekki hvort ég
ætlaði á leikskólabrautina eða grunnskóla [brautina]. Svo prófaði ég að
vinna í leikskóla ... Þetta heillaði mig alveg.
Sumar höfðu haft þetta starf í huga lengi og alltaf ætlað sér að vinna með börnum.
Ein sagði: „Ég hef reyndar, frá því að ég var lítil alltaf ætlað að verða fóstra".
Þær sem voru eldri en 25 ára og voru ekki með stúdentspróf höfðu allar unnið
lengi í leikskóla, enda komust þær inn í námið á þeim forsendum. Flestar þeirra
höfðu sótt árs undirbúningsnámskeið í skólanum og fannst þær hafa fengið mikla
hvatningu frá kennurunum þar til að halda áfram og sækja um leikskólakennara-
námið. Margar þeirra nefndu einnig að fagfólkið í leikskólunum þeirra hefði hvatt
þær til að fara í námið. En það sem virtist vega þyngst var að sem ófaglært starfsfólk
leikskóla fundu þær hjá sér hvöt til að læra meira. Eins og algengt er með eldri nema
(Graham og Long Gisi, 2000) fóru þær flestar í námið með mjög skýr markmið í huga.
Ef notuð er flokkun Leonard (1993) reyndust flestar þeirra velja þetta nám af hag-
kvæmnisástæðum frekar en persónulegum ástæðum. Þær höfðu allar langa starfs-
reynslu í leikskólum og meginmarkmið þeirra var að efla sig faglega og styrkja stöðu
sína í starfi. Ein þeirra sagði: „Mér fannst mig vanta það mikið til þess að verða
öruggari starfsmaður, að ég þyrfti að ná mér í þessa menntun líka". Þær nefndu
einnig þörf fyrir að hafa meiri áhrif og að tekið væri mark á þeim. Þær töldu að rétt-
indin sem námið veitir myndi auka starfsöryggi þeirra, þar sem þær voru iðulega
látnar víkja fyrir fagfólki. Ein þeirra nefndi að hún hafi verið búin að vinna í 16 ár í
sama leikskólanum og þá hafi stúlka sem hafi verið búin með eitt ár í Fósturskólan-
um verið tekin fram fyrir hana og það hafi fyllt mælinn. Og önnur sagði: „Mig
langaði ekki alltaf að vera undir einhverjum, vildi nú eiginlega bara hafa meiri áhrif
líka".
Sumar eldri kvennanna höfðu hætt í skóla vegna þess að þeim hafði gengið illa í
námi en aðrar höfðu hætt vegna fjölskylduaðstæðna. Þær höfðu eignast börn og fjöl-
skyldu snemma á lífsleiðinni, fyrir 20-30 árum og vegna tíðarandans í samfélaginu
og skorts á félagslegum stuðningi höfðu þær ekki talið það mögulegt að vera í skóla
og eiga fjölskyldu samtímis.
Þær konur sem voru bæði eldri en 25 ára þegar þær hófu nám og voru einnig stúd-
entar voru allar í fjarnámi. Fjarnámið hafði opnað þeim leið til að setjast aftur á skóla-
bekk. Ein þeirra lýsti því að rúm 20 ár hefðu liðið frá því að hún fyrst hefði ætlað sér
að fara í leikskólakennaranám, þar til sá draumur varð að veruleika.
Ég ætlaði alltaf að læra þetta. Ég ætlaði að fara í Fósturskóla íslands sem
svo hét þá 1975 um haustið. Ég varð stúdent '75 um vorið og fór þá að
vinna á leikskóla eða dagheimili ... Og vann þar alveg þangað til ég átti
elsta barnið mitt. Það fæddist í desember '75. Ég sem sagt hætti við að fara
L.
51