Uppeldi og menntun - 01.01.2004, Blaðsíða 117
KRISTIN HELGA GUÐMUNDSDOTTIR
ist í kennslustofunni, s.s. umræðna o.fl., vettvangsferða og heimanáms. Einnig þarf
að hafa í huga „upphafsástand nemenda", svo sem skilning á innihaldi, áhuga, getu
o.fl. Þá þarf að huga að innihaldinu, að námskránni og kennsluathöfnum, þ.e. undir-
búningi, skipulagningu og því sem gerist í kennslustofunni, svo sem innleggi, fyrir-
lestrum, umræðustjórnun, leiðbeiningum, samskiptum o.fl. Að lokum þarf að hafa
námsmat í huga.
Nám í anda hugsmíðahyggjunnar
Frá því að fjarkennsla með hjálp tölvutækninnar hófst hafa menn velt fyrir sér þeirri
spurningu hvernig best sé að hanna námsumhverfi í fjarnámi. Þeirri spurningu er að
einhverju leyti svarað með því að vísa til námskenninga og kennslufræði sem nú-
tímaskólastarf byggist á. Þær eru m.a. atferlisfræði, vitsmunasálfræði og þróunarsál-
fræði Jean Piagets sem er að vissu leyti grunnur að hugsmíðahyggju.
Hugtakið félagsleg hugsmíðahyggja (e. social constructivism) þróaðist út frá kenn-
ingum Jean Piagets. Kenningar Lev Vygotskys um félagslegt samspil einstaklingsins,
umhverfis og menningar eru taldar hafa haft áhrif á þróun félagslegrar hugsmíða-
hyggju (Kearsley, 1994b). Samkvæmt Lev Vygotsky á þróun mannlegrar greindar
rætur að rekja til menningar sem byggist á samskiptum þar sem tungumálið gegnir
mikilvægu hlutverki (Hsiao, 1996; Þuríður Jóna Jóhannsdóttir, 2001:59). Lev
Vygotsky fjallaði jafnframt um hugtak sem hann nefndi þroskasvæði (e. zone of
proximal development). Hann vísar þar til þeirra verkefna sem nemandi getur ekki
unnið óstuddur, en er fær um að leysa með aðstoð einstaklings, leiðbeinanda eða
jafningja sem stendur honum framar (Shaffer, 2002). Að mati Lev Vygotskys næst há-
marksárangur þegar leiðbeinandi miðar stuðning sinn við hæfileika nemandans
hverju sinni.
Hugmyndin um stuðning eða vinnupalla (e. scaffolding) byggist á aðferð sem
notuð er til að styðja nemanda við eigið nám (Wood, Bruner og Ross, 1976). Leiðbein-
andi hagar stuðningi sínum í samræmi við getu nemandans hverju sinni til þess að
hann hafi hag af aðstoðinni og skilningur hans aukist. Markmiðið með „vinnupöll-
um" er að sá sem er verið að aðstoða vinni sem stærstan hluta verkefnisins og komist
sem næst ytri mörkum þroskasvæðis síns við úrlausnina (Shaffer, 2002:248-249).
Þegar námsumhverfi er hannað í anda hugsmíðahyggjunnar þarf það að vera
nemendamiðað þannig að áhersla sé lögð á að styðja og leiðbeina nemendum í eigin
þekkingarleit. Til þess er ætlast að nemendur samþætti nýjar hugmyndir fyrri þekk-
ingu og smíði eigin skilning á fyrirbærum á eigin forsendum með hjálp samnemenda
og kennara (Kearsley, 1994a; Kearsley, 1994b). David Jonassen (1997) telur að nem-
endur verði að setja sér sín eigin markmið og bera ábyrgð á eigin námi. Námsum-
hverfið þarf að vera fjölbreytt, auðugt og hvetjandi. Verkefni þurfa að vera raunhæf
og niðurstöður sýnilegar. Hlutverk kennarans er að skapa slíkt námsumhverfi, leið-
beina nemendum og vera nemendum fagleg fyrirmynd. Kennarar þurfa að hvetja til
samvinnu og samræðna í opnu samfélagi námsumhverfisins (Jonassen og Rohrer-
Murphy, 1999).
115