Ægir - 01.10.1983, Page 14
segulspólu. Ferillinn á 4. mynd, sem byggður er á
niðurstöðunum, sýnir dagsmeðaltöl fyrir allt tímabil-
ið. Við sjáum, að hitinn steig tiltölulega hratt frá því,
að mælinum var komið fyrir og til 20. júní, en féll svo
um 2° næstu daga. Pá jókst hann að nýju og komst upp
í 18° í júlíbyrjun. Næstu tvo mánuði sveiflaðist hann
nokkuð upp og niður um meðaltal, sem var nálægt
18°. í fyrstu viku september tók hitinn að falla, fyrst
hægt, en síðan mjög hratt. Hinn 16. september
breyttist hann úr 14.7° kl. 12:00 í 6.5° kl. 13:00, þ.e.
um 8° á einum klukkutíma. Nú steig hitinn aftur og
komst upp í 12° í byrjun október, en féll svo mjög
skyndilega dagana 6. og 7. október niður í 3.5°. Þessu
næst hækkaði hitinn að nýju og náði um 7° í árslok.
Næstu 5 mánuði voru hitabreytingar litlar, en hitinn
fór þó hægt lækkandi niður í 5.5° í byrjun maí 1981.
Hinn jafni hiti, sem hélst alla vetrarmánuðina stafar
án efa af því, að vatnið var þakið ís og blöndun því
engin af völdum vinda.
Efnaeiginleikar og framleiðni.
Við tillífun svifþörunga efst í salta laginu á vorin og
sumrin myndast mikið af lífrænum efnum. Jafnframt
verður til súrefni, sem kunnugt er, og safnast það fyrir
í laginu, svo að yfirmettun getur orðið með ólíkindum
mikil, eins og sést á 5. mynd. í júní 1980 var súrefnis-
mettunin komin upp í rúmlega 200% á 3-4 m dýpi, og
í ágúst sama ár nálgaðist hún 400%. Þetta mun vera
einhver sú mesta súrefnismettun, sem mælst hefur í
stöðuvatni eða sjó. Gaarder og Spárck (1932), sem
könnuðu hliðstæð umhverfi í norskum fjörðum,
fundu allt að 250% mettun, og okkur er ekki kunnugt
um, að aðrar mælingar hafi gefið svo há gildi. í þessu
sambandi er vert að hafa í huga, að leysni lofttegunda
við jafnvægisskilyrði minnkar með vaxandi hitastigi-
Hins vegar tekur það sjóinn eða vatnið nokkurn tíma
að ná jafnvægi við breyttar aðstæður vegna kælingar
eða upphitunar. Þess vegna kemur t.d. ávallt fram lít-
ils háttar yfirmettun (nálægt 105% að meðaltali) í haf-
inu hér við land, þegar sjórinn hlýnar á vorin, og svip-
uð undirmettun (nálægt 95%) mælist á veturna. Sú
mikla upphitun sem verður í salta laginu á vorin og
sumrin í Ólafsfjarðarvatni, gæti í mesta lagi valdið
því, að útreiknuð yfirmettun næmi um 30%, og er
því ljóst, að hin mælda yfirmettun stafar að langsam-
lega mestu leyti af raunverulegri súrefnismyndun.
Þetta kemur líka skýrt fram, ef litið er á súrefnisstyrk-
inn (súrefnismagn í lítra vatns) á mismunandi tímum.
Á veturna þegar ís er á vatninu, brotna hin lífrænu
efni niður og oxast. Við það eyðist súrefni og þannig
gengur smám saman á súrefnisforðann í salta laginu.
í lok vetrar má heita, að súrefni sé þar að mestu upp-
urið. Efst í salta laginu verður vatnið þó ekki súrefnis-
snautt (5. mynd).
518-ÆGIR