Tímarit lögfræðinga - 01.10.1975, Blaðsíða 10
Hin íslenska lögfræSingastétt og sérstaklega þeir meðal íslenskra lögfræð-
inga, er kynntust Theodóri best, minnast og sakna hans og meta verðleika
hans og sérstaka hæfileika og þekkingu á sviði lögfræðinnar. Allur ferill hans
í því efni, námið, lögmannsstarfið, kennarastarfið, svo og ritverk hans og störf
í nefndum og ráðum um lögfræði- og önnur þjóðfélagsmál, sýna það greini-
lega, að hann hefur verið traustur og með ágætum menntaður lögfræðingur.
Sem námsmaður í lögfræði var hann með ágætum, í lögmannsstarfi getur sá,
er þetta ritar, staðhæft, að hann var traustur, vel lærður og virtist leggja sér-
staka stund á að lúka þeim málum, er hann hafði með höndum, á raunhæfan
og réttlátan hátt, hvort heldur var með sáttum eða dómum. Kennarastarfið
mun hann og hafa rækt með hinni mestu prýði og ritstörf sín á sviðum lög-
fræði og þjóðfélagsmála af þekkingu og skilningi.
í einkaiífi sínu var Theodór hamingjumaður. Eiginkona hans var Þórhildur
Pálsdóttir Briem amtmanns og eiginkonu hans Álfheiðar Helgad.óttur Hálfdan-
arsonar. Frú Þórhildur fæddist hinn 7. desember 1896. Þau Þórhildur og Theo-
dór gengu í hjónaband hinn 19. október 1923. Lifir frú Þórhildur mann sinn
ásamt fjórum börnum þeirra, þeim Páli, borgarlögmanni f. 9. des. 1924, Sig-
urði, prófessor við Háskóla íslands f. 2. júlí 1931, Álfheiði Birnu f. 15. ágúst
1932, húsfreyju í Reykjavík, og Bergljótu f. 18. sept. 1934, forstöðukonu Heilsu-
verndarstöðvar Reykjavikur. Af 11 barnabörnum þeirra hjóna eru 10 á lífi. —
Frú Þórhildur er hin mesta hæfileikakona. Heimilisstörf sín og alla aðhlynn-
ingu að fjölskyldu sinni rækti hún og rækir með hinni mestu prýði. Samstarf
þeirra hjóna mun og hafa verið hið ákjósanlegasta, innbyrðis og gagnvart
börnum þeirra. Fjölskyldulíf þeirra hjóna og barna þeirra, sem öll eru hæfi-
leikafólk, mun og hafa mótast mjög af skilningi og lífsánægju, en gagnkvæm
velvild meðal þeirra, er saman eiga að lifa, er að sjálfsögðu mikilsverður
grundvöllur undir hamingjusömu lífi. Þessa Iífsskilyrðis má telja, að Theodór
hafi orðið aðnjótandi í lífi sínu í fyllsta mæli.
Sveinbjörn Jónsson
Prófessor emeritus Theodór B. Líndal andaðist á Landspítalanum 2. fe-
brúar s.l. eftir skamma sjúkdómslegu. Með honum hvarf af sjónarsviði þjóð-
kunnur og merkur lagamaður, sem markaði víða spor á vettvangi lagasýslu
og lögfræði á langri starfsævi.
Prófessor Theodór var fæddur í Reykjavík 5. dösember 1898 og var því á
77. aldursári, er hann lést. Foreldrar hans voru Sigríður Metúsalemsdóttir,
Magnússonar, bónda á Arnarvatni, og Björn Líndal yfirdómslögmaður.
Theodór var gæddur ágætum námsgáfum og fór fyrst til náms í Gagnfræða-
skólann á Akureyri, en síðan Menntaskólann í Reykjavík, sem þá hafði einn
skóla rétt til að brautskrá stúdenta. Lauk Theodór stúdentsprófi 1919, en lög-
fræðiprófi frá Háskóla íslands vorið 1923 með mjög góðum vitnisburði. Hafði
hann þó mestan hluta námstíma síns í lagadeild unnið með námi á málflutn-
ingsskrifstofu Lárusar Fjeldsteds hæstaréttarlögmanns. Theodór hóf þegar að
lögfræðiprófi loknu málflutningsstörf í félagi við Lárus, en síðar einnig son
hans, Ágúst. Hélst það samstarf óslitið í þrjá áratugi og einu ári betur. Naut
Theodór mikils álits sem lögmaður vegna traustrar lagaþekkingar sinnar og
lögmannshæfileika, og var málflutningsskrifstofa hans og félaga hans ein hin
stærsta og virtasta hér á landi.
56