Tímarit lögfræðinga - 01.10.1985, Side 13
heimfæra rétt höfundar undir eignarrétt. Hvað sem um það er, þá
hefur röksemdafærsla á þeim grundvelli haft sína þýðingu frá réttar-
sögulegu sjónarmiði. I íslensku höfundalögunum er haldið tryggð
við þessa hefð, en í upphafi 1. gr. þeirra segir: „Höfundur að bók-
menntaverki eða listaverki á eignarrétt á því með þeim takmörkunum,
sem í lögum þessum greinir.“
Eiginlega hefst saga höfundarréttar hér á landi ekki fyrr en á síð-
ari hluta 19. aldar. Er þar fyrst að geta tilskipunar frá 11. desember
1869 um einkarétt til að eftirmynda ljósmyndir o.fl. Á árinu 1889
flutti Jón Ólafsson rithöfundur frumvarp á Alþingi um eignarrétt að
sömdu máli og var það að mestu leyti sniðið eftir dönsku höfundalög-
unum frá 1857. Alþingi samþykkti frumvarpið með nokkrum breyting-
um, en konungur synjaði frumvarpinu staðfestingar. Ástæðan til
þess mun fyrst og fremst hafa verið sú, að um þær mundir stóð fyrir
dyrum gagngerð breyting á dönsku höfundalögunum á grundvelli
gildistöku Bernarsáttmálans frá 1886.
Á árinu 1905 lagði ríkisstjórnin fram á Alþingi frumvarp til lága
um rithöfundarétt og prentrétt. Fyrirmynd þess voru dönsku höf-
undalögin frá 1904. Frumvarpið náði þó aðeins til bókmennta og tón-
smíða. Það var samþykkt og tók gildi sem lög nr. 13/1905 um rithöf-
undarétt og prentrétt. Giltu þessi lög fram til ársins 1972, er nýju
höfundalögin voru sett, en ýmsar mikilsverðar breytingar höfðu samt
verið gerðar á þeim lögum áður. Þégar með lögum nr. 11/1912 var
gildissvið laganna rýmkað og þau látin ná til hvers konar mynda og
uppdrátta. Veigamesta breytingin var síðan fólgin í lögum nr. 49/1943,
sem felldu undir höfundalög hvers konar listgreinar, er eigi höfðu
áður notið verndar.
2.0. HÖFUNDALÖG NR. 73/1972.
Endurskoðun höfundalaganna hófst árið 1959, er menntamálaráð-
herra fól Þórði Eyjólfssyni hæstaréttardómara að semja frumvarp til
nýrra höfundalaga. Vann Þórður síðan að því verki og var frumvarp
hans lagt fyrir Alþingi 1962-1963. Það náði ekki samþykki og var síðar
tekið til endurskoðunar af nefnd þriggja manna, sem skipuð var þeim
Knúti Hallssyni ráðuneytisstjóra og Sigurði Reyni Péturssyni hæsta-
réttarlögmanni auk Þórðar. Frv. var að lokum samþykkt og gekk í
gildi sem höfundalög nr. 73/1972.
Við samningu höfundalaganna nýju voru í aðalatriðum lögð til grund-
vallar norræn höfundalög, sem sett voru á hinum Norðurlöndunum á
83