Tímarit lögfræðinga


Tímarit lögfræðinga - 01.05.1991, Side 18

Tímarit lögfræðinga - 01.05.1991, Side 18
sóttur er til greiðslu bóta, „að viðbættri reglu um mistök í starfa, er eigi verða rakin til tilgreindra starfsmanna, anonym mistök“.22 Fallast má á þessa skýringu. Hins vegar verður sú ályktun ekki dregin af dóminum, að hér á landi hvíli sönnunarbyrði almennt á stefnda, ef tjón hlýst af atvikum á umráðasviði hans, sbr. t.d. HRD 1961 749, ÍD 263. Þar var eigandi bifreiðaverkstæðis sýknaður af bótakröfu vegna slyss, sem hlaust af sprengju- hylki. Segir í dómi, að eigi sé í ljós leitt, að sprengjuhylkið hafi borist inn á verkstæðið með vitund eða vilja verkstæðiseigandans eða manna, sem hann bar ábyrgð á. Verði greindum mönnum ekki metið til vangæslu, að þeir veittu hylkjunum ekki eftirtekt og fjarlægðu þau. Telja verður, að ástæðan fyrir því, að í Þyrilsdóminum er vikið frá almennum reglum um sönnun sé sú, að slysið varð við verk, sem var óvenju hættulegt, bæði að því er varðar stig hættu og umfang tjóns. í sömu átt og Þyrilsdómurinn ganga HRD 1968 1271, D1 55 (slys af ketilsprengingu íelliheimili í Reykjavík) ogHRD 1969 671 D1 90 (dauðaslys vegna eldsvoða í fiskiskipinu Stefni), en í þeim málum báðum var m.a. litið til þess, að stefndi hafði vanrækt skyldu sína til að hlutast til um rannsókn á slysi. Nýlega gekk dómur, þar sem sönnunaraðstaða var ekki ósvipuð tilvikum þeim, sem hér um ræðir, sjá HRD 1989 131. Málsatvik og niðurstaða voru sem hér greinir. Drengurinn S skaddaðist á heila í fæðingu og varð við það alger öryrki til frambúðar. Mál var höfðað gegn ríkissjóði vegna tjóns, sem af þessu hlaust. K. móðir S. kom til þess að fæða á Landspítalanum kl. 16:15. Við skoðun á fæðingardeild sást að lega fóstursins var óregluleg. Röntgenmyndataka sýndi, að fóstrið lá þvert í móðurkviði. Læknirinn Á gerði svonefnda „ytri vcndingu" á fóstrinu kl. 18:30. Kl. 19:30 var K tengd við sírita, sem er tæki. ersýnir samdrætti í legi konunnar og hjartslátt fóstursins. Síritinn skráir upplýsingar um þetta á pappírsstrimil. Kl. 21:10 féll naflastrengur fram með þeim afleiðingum, að lífssamband fóstursins við fylgjuna rofnaði. Eftir það fékk fóstrið ekki súrefni um naflastrenginn. Að sögn K hugðist Á í fyrstu framkalla fæðingu með svonefndri sogklukku. Pað hafi ekki verið gert, en nokkur tími muni hafa farið í hugleiðingar eða umræður um þetta. Framburður annarra studdi þessa frásögn K. K var svæfð fyrir skurðaðgerð kl. 21:38 og barnið tekið með keisaraskurði. Náðist það út kl. 21:43. 1 skýrslum fæðingardeildar var ekkert skráð um hvers vegna svo langur tími leið frá naflastrengsslysinu þangað til keisaraskurður var gerður. Fram kom í málinu, að strimill úr greindum sírita fylgdi upphaflega sjúkraskýrslu um K, en týndist síðar af ókunnum orsökum. Héraðsdómur, sem skipaður var einum löglærðum dómara og tveimur læknum, áleit ekkert benda til að fóstrið hefði skaddast á meðgöngutíma. Héraðsdómarar töldu líklegt, að S hafi orðið fyrir súrefnisskorti við það að naflastrengur féll fram eða eftir það, þar til S var tekinn með keisaraskurði 33 mínútum síðar. Héraðsdómur felldi sönnunarbyrði um ofangreind atriði á ríkissjóð og dæmdi hann skaðabótaskyldan vegna tjónsins. í dómi Hæstaréttar, sem staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um bótaskyldu. segir, að fallast beri á, að skráningu í skýrslur fæðingardeildar hafi allt frá kl. 18:30 verið verulega ábótavant. Þá sé komið fram. að strimill úr sírita, sem var mikilsvert gagn, hafi farið forgörðum. Athuganir, sem fram fóru á vegum Landspítalans, hafi ekki skýrt frekar þau atriði, sem á skorti. Beri ríkissjóður halla af skorti á sönnun um atvik að því er drengurinn fæddist með heilasköddun. 22 Gizur Bergsteinsson, 104. 16

x

Tímarit lögfræðinga

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Tímarit lögfræðinga
https://timarit.is/publication/586

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.