Tímarit lögfræðinga - 01.06.1992, Qupperneq 27
breytingu einni, þegar um kröfuhafaskipti er að ræða, að kominn er nýr
kröfuhafi í stað hins upphaflega. Þá er og rétt að hafa í huga, að hinn nýi
kröfuhafi byggir rétt sinn að öllu leyti á rétti fyrri kröfuhafa og þeim atvikum eða
athöfnum, sem leiddu til stofnunar hins upprunalega skuldarsambands að
viðbættum framsalsgerningnum. Þess vegna þurfa ekki á nýjan leik að liggja
fyrir þau atvik eða athafnir, sem endranær þurfa að vera til staðar, svo krafa
stofnist á hendur skuldara.4
Þegar um skuldaraskipti er að ræða, er einnig eðlilegt, a.m.k. í mörgum
tilvikum, að tala um aðilaskipti eða yfirfærslu skyldna. Pó er talið, að skuldara-
skipti hafi almennt séð á sér meiri einkenni stofnunar nýrrar kröfu, heldur en
kröfuhafaskiptin, en jafnframt er viðurkennt, að lögfræðilega séð skipti ekki
máli, hvort sjónarmiðið er lagt til grundvallar.5 Ólafur Lárusson taldi eðlilegra
að líta þannig á skuldaraskipti, að hin fyrri krafa hefði fallið niður fyrir uppgjöf
kröfuhafa, og ný krafa hefði stofnast á hendur hinum nýja skuldara. Ussing
taldi, að því, sem gerðist, yrði best lýst með því að segja, að komin væri ný
skuldbindingí stað hinnargömlu. Benti hann á í því sambandi, að skuldbindingu
þess, er skylduna hefði tekið að sér, fylgdu ekki forgangsréttindi, t.d. við
gjaldþrot, þótt slík réttindi hefðu fylgt fyrri skuld, og tryggingarréttindi þriðja
manns, sem fylgt hefðu fyrri skuld, fylgdu ekki skuldbindingu hins nýja
skuldara.'1
Það tíðkast að greina skuldarsamböndin m.a. í einhliða og tvíhliða skuldar-
sambönd.7 Einhliða er skuldarsambandið, þegar það er aðeins kröfuhafinn, sem
á kröfu til greiðslu úr hendi skuldara. Dæmi slíks eru gjafasamningar og
skuldabréf. Tvíhliða er skuldarsambandið hins vegar, þegar báðir aðilar þess,
þ.e. kröfuhafi og skuldari, eiga kröfu til greiðslu úr hendi hins. Venjulega eru
greiðslur þessar gagnkvæmar, þ.e. hvor þeirra um sig er endurgjald fyrir hina.
Er þá oft talað um greiðslu annars og gagngjald hins.
Það gefur auga leið, að við skuldaraskipti er til ólíkra atriða að líta, eftir því
hvort um skuldbindingu í einhliða eða tvíhliða skuldarsambandi er að ræða. Er
aðstaðan líka oft sú, að aðili í tvíhliða og gagnkvæmu skuldarsambandi getur
framselt þau réttindi, sem samningur veitir honum, þótt hann geti ekki jafnframt
losnað undan þeim skyldum, sem samningssambandið leggur honum á herðar.
Þannig segir t.d. í 25. gr. siglingalaga nr. 34/1985, að framselji farmsamningshafi
rétt sinn samkvæmt samningnum, ábyrgist hann eigi að síður efndir samnings-
4 Sjá Julius Lasscn, Obligationsretten, Kaupmannahöfn 1917 - 1920, bls. 539; Henry Ussing, sama
rit. bls. 209 - 210; Carl Jacob Arnholm. sama rit, bls. 68.
5 Bernhard Gomard, bls. 310. í Rómarrétti gilti sú regla, að kröfur, sem ekki voru tengdar
verðbréfi, voru taldar óframseljanlegar. Það viðhorf, að lýsa yfirfærslu eða aðilaskiptum að
kröfuréttindum sem stofnun nýrrar kröfu á rót sína að rekja til kenninga, sem höfnuðu því viðhorfi.
* Ólafur Lárusson, sama rit, bls. 41. Henry Ussing, sama rit, bls. 292 - 293.
7 Sjá t.d. Bernhard Gomard, Obligationsret, 1. del, bls. 17 og Ólafur Lárusson, sama rit, bls. 8.
21