Tímarit lögfræðinga - 01.09.1994, Blaðsíða 14
er ritað um veðsetninguna til ÞA. Eftir þetta framselur K kröfuna til ÞB, sem
síðan innheimtir kröfuna hjá S.
Ef um viðskiptabréfakröfu, t.d. skuldabréf, er að ræða, tapar ÞA rétti
sínum, þ.e. veðréttinum, fyrir ÞB, ef ÞB er grandlaus. Eldri réttur verður að
víkja fyrir yngra rétti, þar sem engin athugasemd var rituð um veðsetninguna
á skuldabréfið sjálft. Ef um veðsetningu hefði verið að ræða til ÞB, þ.e. hann
hefði t.d. fengið bréfið að handveði, þá hefði veðréttur hans gengið fyrir
veðrétti ÞA af alveg sömu ástæðu. Hér fær ÞB m.ö.o. þann rétt, sem bréfið
ber með sér. Ef um almenna kröfu hefði verið að ræða, og K hefði fyrst
framselt ÞA kröfuna og síðan ÞB (tvísala), þá gæti ÞB ekki öðlast meiri rétt
heldur en heimildarmaður hans (K) átti, þ.e.a.s. ÞB myndi engan rétt öðlast.
Hér verður síðari framsalshafi (ÞB) að sæta því, að ÞA á betri rétt yfir kröfunni
heldur en hann sjálfur.16
2.0 ALMENNAR REGLUR UM FRAMSAL KRÖFURÉTTINDA
2.1 Framsal í heild og framsal að hluta
Sú meginregla gildir í kröfurétti, að kröfuhafa er frjálst að ráðstafa kröfu
sinni með samningi til annarra aðila. Framsal kröfu er þó stundum bannað í
lögum eða takmarkað, og einnig geta réttindi þriðja manns og skuldara sett
því skorður, hvern rétt kröfuhafi getur fengið framsalshafa í hendur við fram-
sal kröfu. Sjá nánar kafla 3.0.
Framsal kröfuréttinda getur annars vegar verið fólgið í því, að kröfuhafi fær
öðrum aðila kröfuréttindin í hendur í heild sinni. Hins vegar getur framsal
falist í stofnun takmarkaðra réttinda til handa öðrum aðila yfir kröfu, svo sem
með veðsetningu hennar. Aðilaskipti með löggemingi geta samkvæmt þessu
verið misvíðtæk. Þegar kröfuhafi t.d. veðsetur öðrum manni kröfurétt sinn,
verður veðhafinn að nokkru leyti kröfuhafi í hans stað, þ.e. innan takmarka
veðgemingsins, en að öðru leyti er veðsali áfram kröfuhafi. Orðið „framsal“
er stundum látið taka til beggja þessara tilvika, sbr. 19. gr. víxillaga, en algeng-
ara er, að með framsali sé átt við það tilvik, þegar kröfuhafi afsalar kröfunni
í heild til annars aðila.17 Um framsal til tryggingar sjá Hrd. 1985 1339 (Útilíf
hf.) og kafla 2.3.3 hér á eftir.
Næst verður vikið að því, hver réttaráhrif samningur um kröfuhafaskipti
hefur. Verður fyrst vikið að réttaráhrifunum í samskiptum framseljanda og
16 Sjá t.d. Ólafur Lárusson, Kaflar úr kröfurétti, bls. 52.
*7 í 19. gr. víxillaga segir, að séu orðin „til tryggingar", „að veði" eða önnur orð, sem lúta að
veðsetningu, í framsali, geti víxilhafi neytt allra þeirra réttinda, er víxill veitir, en framsal hans á
víxlinum hafi aðeins gildi sem framsal til umboðs. Sjá um notkun orðanna „transport" og
„overdragelse" í dönsku lagamáli t.d. Henry Ussing, Obligationsretten, bls. 214 og Bernhard
(lOinard, Obligationsret, bls. 67, 68 og 77; Ólafur Lárusson, Kaflar úr kröfurétti, bls. 42.
80