Tímarit lögfræðinga - 01.09.1994, Blaðsíða 23
sé ekki fyrir þessu, en lögjöfnun frá ákvæðum um umboð sé fullkomlega rétt-
mæt.46
2.3.2 Réttarstaðan gagnvart skuldheimtumönnum framseljanda og
viðsemjendum öðrum en veðhöfum
Samkvæmt almennum reglum um framsal kröfuréttinda er það framsals-
gerningurinn, sem ræður úrslitum um réttarstöðu framseljanda og framsalshafa
og um lögvernd þeirra gagnvart þriðja manni.
Ef frá eru taldar viðskiptabréfareglur og reglur um nauðsyn tilkynningar til
skuldara til þess að útiloka, að skuldari geti losnað undan skyldu sinni með
því að greiða til framseljanda, þarf ekki frekari ráðstafanir til yfirfærslu en
framsalsgeminginn. Þarf þannig hvorki tilkynningu til skuldara um yfir-
færsluna né afhendingu skjals þess, sem krafan kann að vera tengd við. Fram-
sal slíkra kröfuréttinda er t.d. um réttarvernd ekki háð þinglýsingu eða því,
að gerðar séu aðrar tryggingarráðstafanir, hvorki gagnvart skuldheimtumönn-
um né síðari framsalshöfum.47 Gilda hér svipaðar reglur og um aðilaskipti að
lausafé.
2.3.3 Veðsetning kröfu
Megineinkenni veðréttar er það, að um er að ræða forgangsrétt til að leita
fullnustu fyrir tiltekinni greiðslu í ákveðinni eign, veðinu. Að baki hugtakinu
veðréttindi býr því það, að ákveðinn aðili á forgangsrétt til að taka fjárhagslegt
verðmæti einhverrar greiðslu af verði tiltekinnar eignar. Af því er talið leiða,
að veðréttindi geti aðeins stofnast í eignum, sem hafa fjárhagslegt gildi, en á
móti kemur, að unnt er að stofna til veðréttinda yfir hvers konar eignum, sem
hafa fjárhagslegt gildi, þ.m.t. kröfuréttindum. Heildstæð ákvæði skortir hins
vegar í íslenskum rétti um það, hver kröfuréttindi verða sett að veði og
hverjar tryggingarráðstafanir eru nægjanlegar til verndar slíkum rétti.
Réttarreglur um það, með hvaða hætti kröfur verða veðsettar, eru óljósar sam-
kvæmt gildandi íslenskum rétti. Er þá sérstaklega átt við, hverjar tryggingar-
ráðstafanir er rétt að áskilja til þess að veðréttur í kröfum öðlist réttarvemd.
46 Ólafur Lárusson, Eignaréttur I, bls. 237-238. í þessu sambandi hefur verið nefndur Hrd.
1940 496 (Framfærslunefnd). Framfærslunefnd í kaupstað hafði lánað styrkþega bifreið til
afnota. Nefndinni var kunnugt um, að bifreiðin var skráð á nafn styrkþegans í bifreiðaskránni
og lét það viðgangast, að styrkþeginn notaði bifrciðina sem sína eign. Síðan scldi hann grand-
lausum manni bifreiðina, og taldi Hæstiréttur kaupandann þar með hafa orðið eiganda bifreiðar-
innar fyrir traustfang og hafnaði brigðakröfu kaupstaðarins. Hér kann niðurstaða málsins að
hafa ráðist af því, að styrkþeginn var skráður eigandi í opinberri skrá. Sjá til hliðsjónar ákvæði
1. mgr. 33. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978.
47 Ólafur Lárusson, Eignaréttur I, bls. 228-229; Þorgeir Örlygsson, Þinglýsing kaupsamn-
ings í fasteignakaupum, Tímarit lögfræðinga, 1. hefti 1989, bls. 29-30.
89