Tímarit lögfræðinga - 01.07.2002, Page 69
gatnagerðargjald er mælt svo fyrir að við ákvörðun gatnagerðargjalds skuli
miða við rúmmál byggingar, flatarmál hennar og/eða flatarmál lóðar. Tekið er
fram að heimilt sé að hafa hverja þessara viðmiðana sem er, eina af þeim, tvær
saman eða allar þrjár. Flatarmál og rúmmál byggingar skal reikna eftir ÍST 50
og miða við brúttóstærðir.
I 3. mgr. 3. gr. laga nr. 17/1996 er sveitarfélögum einnig veittur sá kostur að
miða gjaldið ekki við raunverulega stærð húss heldur við leyfilega stærð
byggingar samkvæmt því skipulagi sem gildir fyrir viðkomandi lóð. í 6. gr.
reglugerðar nr. 543/1996 er tekið fram að gatnagerðargjald verði ekki endur-
greitt þótt minna sé byggt en gjaldið miðast við. A hinn bóginn er þar tekið fram
að heimilt sé í tengslum við útgáfu byggingarleyfis að innheimta viðbótar-
gatnagerðargjald ef stærð byggingar er umfram viðmiðun gatnagerðargjaldsins,
þ.e. leyfilega stærð byggingar samkvæmt skipulagi.
I 1. mgr. 3. gr. laganna er mælt svo fyrir, eins og í eldri lögum, að gatna-
gerðargjald megi vera mismunandi eftir notkun lóðar, t.d. eftir því hvort um er
að ræða lóð fyrir íbúðarhúsnæði, verslunarhúsnæði, iðnaðarhúsnæði o.s.frv. Þá
er tekið fram að gjald af lóð fyrir íbúðarhúsnæði megi vera mismunandi eftir
því hvort um sé að ræða lóð fyrir einbýlishús, raðhús, fjölbýlishús o.s.frv.
Enginn af þessum flokkum má þó fara yfir lögbundið hámark fjárhæðar gatna-
gerðargjalds senr nánar er að vikið í kafla 3.5.
Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laganna er einnig heimilt að innheimta gatnagerðar-
gjald ef reist er nýtt hús á áður byggðri lóð að því er stækkuninni nemur. Sama
gildir ef eldra hús er stækkað. I athugasemdum við 3. gr. frumvarps þess, er
varð að lögum nr. 17/1996, er tekið fram að skilyrði slíkrar gjaldtöku sé þó
vitaskuld að ekki hafi áður verið innheimt gatnagerðargjald sem tekur til slrkrar
stækkunar.7 Þessi fyrirvari getur t.d. átt við þegar gatnagerðargjald hefur í upp-
hafi verið tekið skv. 3. mgr. 3. gr. laganna af leyfilegri stærð byggingar sam-
kvæmt því skipulagi sem gilti fyrir viðkomandi lóð og sú bygging, sem þá var
reist, hefur verið minni en nam hinu heimila nýtingarhlutfalli. Ekki ætti því að
greiða fyrir stækkun á húsi ef hún ásamt eldri byggingu rúmast innan leyfilegrar
stærðar byggingar samkvæmt því skipulagi sem upphaflegt gjald var miðað við.
Hið sama gildir ef hús brennur og byggt er nýtt hús á lóð sem rúmast innan
leyfilegrar stærðar byggingar samkvæmt því skipulagi sem upphaflegt gjald var
miðað við, sbr. 8. gr. reglugerðar nr. 543/1996.
3,5 Lögbundið hámark fjárhæðar gatnagerðargjalds
Hámark gatnagerðargjalds er afmarkað á annan hátt í lögum nr. 17/1996 en
gert var varðandi A-gatnagerðargjald í 2. gr. laga nr. 51/1974. Samkvæmt
síðastnefndum lögum máttu A-gatnagerðargjald „nema allt að áætluðum meðal-
kostnaði við að undirbyggja götu með tilheyrandi lögnum og slitlagi“. í lögum
7 Alþt. 1995-1996, A-deild, bls. 992.
163